
Smjörverð í Evrópu hækkar enn!
28.08.2017
Verð á smjöri víða um heim hefur hækkað mjög mikið undanfarnar vikur og þrátt fyrir að smjörverð hafi aldrei verið hærra á heimsmarkaðinum, þá virðist verðþróunin ekki ætla að stöðvast heldur hækkar smjörið og hækkar nánast frá degi til dags eins og sést á myndinni sem fylgir þessari frétt. Á uppboðsmarkaðinum í Hollandi í síðustu viku fór verðið á smjörtonninu í 854 þúsund íslenskar krónur sem er meira en tvöföldun á verðinu frá því fyrr á þessu ári. Nú er svo komið að stór afurðafélög eins og t.d. Arla hafa gefið út að það sé næsta öruggt að smjörskortur verði um komandi jól, en talið er að það félag eitt og sér muni vanta 32 milljónir pakninga af smjöri um jólin eða sem nemur 8 milljón kílóum af smjöri!
Skýringarnar á þessari stöðu eru sem fyrr eftirstöðvar lágs afurðastöðvaverðs á síðasta ári og fyrr á þessu ári sem hefur leitt til minni framleiðslu víða. Reyndar hafa stóru afurðafélögin ekki lent í miklum áföllum vegna minni innvigtunar mjólkur en margir smærri framleiðendur hafa hins vegar hætt og hafa hinir stóru á markaðum ekki getað nýtt sér þau tækifæri sem sköpuðust við brottfall annarra af markaðinum.
Í venjulegu árferði var smjörlagerinn í Evrópu, þ.a. metinn heildarlager á smjöri, talinn vera um 110-130 þúsund tonn og byggðist þessi lager upp með sumarmjólkinni og svo var gengið á lagerinn þegar leið á veturinn samhliða minnkandi mjólkurframleiðslu. Nú er hins vegar ekki til smjörklípa á lager og fer allt smjör sem framleitt er beint í sölu/SS.