
Smjör frá Orkneyjum í Dubaí
24.08.2017
Þegar mjólkurvörur eru markaðssettar þarf oftar en ekki að koma með nýjungar og eins og sagt er að „hugsa út fyrir rammann“. Óhætt er að fullyrða að það hafi verið gert hjá hjá fyrirtækinu The Island Smokery á Orkneyjum en það er lítil afurðastöð sem hefur sérhæft sig í sérstökum mjólkurvörum og líklega er fyrirtækið þekktast fyrir hinn reykta cheddar ost. Fyrirtækið framleiðir einnig sk. gamaldags smjör sem kallast einfaldlega Orkneyja smjör eða Orkney butter.
Nú hefur markaðsfólki fyrirtækisins tekist heldur betur vel til en þessi litla afurðastöð hefur náð þeirri sérstöðu að vera með einkasölu á smjöri í veitingastaðnum At.mosphere í Dubaí. Þetta væri nú alla jafnan ekki fréttnæmt en veitingastaðurinn er enginn venjulegur veitingastaður. At.mosphere er nefninlega starfræktur í skýjakljúfinum Burj Khalifa sem er 828 metra hár og hæsta hús heims. Veitingastaðurinn er jafnframt sá hæst staðsetti í heimi, þegar horft er til hæðar þeirra húsa sem veitingastaðir eru í, í 442 metra hæð! Þó svo að veitingastaðurinn kaupi ekki sérlega mikið af smjöri þá hefur saga þessa litlu afurðastöðvar borist um alla veröld og sýnir vel hvað það þarf oft lítið til þess að ná árangri við markaðssetningu/SS.