Smákálfavikan: vömbin þarf að vera tilbúin í tíma
13.11.2015
Margir bændur eru nú með marga smákálfa í eldi og af því tilefni erum við með smákálfaviku hér á naut.is! Dagana 9. til og með 14. nóvember munum við birta 6 pistla hér á naut.is sem lúta allir að umhirðu og eldi á smákálfum, en tilgangurinn er að fara yfir sviðið og draga saman þekkingu um eldi og umhirðu á smákálfum.
Þegar kálfar fá mikið magn mjólkur éta þeir oft afar lítið af kjarnfóðri þar sem þeir hafa hreinlega ekki þörf fyrir viðbótar orku. Þeir þurfa því að hafa náð ákveðinni líkamlegri stærð til þess að vera nógu þroskaðir til þess að geta hætt á mjólkurgjöfinni. Líklega er algengast í dag að bændur gefi mjólk í 7 vikur, en sumir hafa þó verið að prófa sig áfram með 6 vikna mjólkurgjöf. Þetta var prófað í kanadískri rannsókn sem greint var frá í tímaritinu Journal of Dairy Science í sumar en tilrauninr var gerð á Holstein nautkálfum sem voru á mjólk í annars vegar 6 vikur og hins vegar í 8 vikur.
Allir kálfarnir voru sterkaldir á mjólk, fengu sem nemur 1,2 þurrefniskílóum mjólkur á dag en gjöfin var svo helminguð í vikunni áður en mjólkurgjöfinni var hætt. Hópurinn sem byrjað var að venja af mjólk í fimmtu viku átu að jafnaði 0,4 kíló kjarnfóðurs á dag í sömu viku en hinn hópurinn sem byrjað var að venja undan í sjöundu viku átu hins vegar 1,4 kíló kjarnfóðurs á dag. Munurinn er gríðarlega mikill og hélst hann einnig í vikunum eftir að búið var að venja af mjólk. Niðurstaðan sýnir skýrt að það er of snemmt að venja smákálfa af mjólk við sex vikna aldur en í fínu lagi við 8 vikna aldur. Hvort sama gildir um hina gullnu sjöundu viku sem margir evrópskir bændur horfa til er ekki hægt að segja til um hér, en líklega má fullyrða að óhætt sé að draga úr mjólkurgjöfinni í þeirri viku – að því gefnum að sama gildi um íslenska kálfa og Holstein/SS.