Smákálfavikan: Smákálfar vilja broddmjólkina í skömmtum!
09.11.2015
Margir bændur eru nú með marga smákálfa í eldi og af því tilefni erum við með smákálfaviku hér á naut.is! Dagana 9. til og með 14. nóvember munum við birta 6 pistla hér á naut.is sem lúta allir að umhirðu og eldi á smákálfum, en tilgangurinn er að fara yfir sviðið og draga fram nýjustu þekkinguna erlendis frá um eldi á smákálfum.
Þegar broddmjólkin er gefin nýfæddum kálfinum gefa margir hann í einum skammti svo fljótt sem auðið er eftir fæðingu. Nú hefur hins vegar komið í ljós í tilraun, sem greint var frá í sumar á ársfundi ADSA (American Dairy Science Association), að sé broddmjólkurgjöfinni skipt upp í tvennt eða þrennt fyrsta hálfa sólarhringinn þá mælast þeir kálfar með meira magn mótefna í blóði en hinir sem ekki fá slíka gjöf og veikjast því síður.
Tilraunin sem um ræðir var gerð á Holstein kálfum í Kína en gerðar voru ótal samanburðarrannsóknir á broddmjólkurgjöf, magni og tímasetningum gjafanna. Sá hópur kálfa sem mældist með mest magn mótefna í blóði fékk broddmjólkina þannig: þrjá lítra við fæðingu og svo aðra þrjá eftir sex klukkustundir og enn einu sinni eftir 12 tíma frá fæðingu.
Rétt er að minna jafnframt á mikilvægi þess að meta vel gæði broddmjólkurinnar en óravegur er frá því að allur broddur sé jafn góður fyrir kálfinn. Með því að smella hér má lesa eldri frétt af naut.is um mikilvægi þess að meta gæði broddsins/SS.