Beint í efni

Smákálfavikan: Smákálfar þurfa kjarnfóður!

11.11.2015

Margir bændur eru nú með marga smákálfa í eldi og af því tilefni erum við með smákálfaviku hér á naut.is! Dagana 9. til og með 14. nóvember munum við birta 6 pistla hér á naut.is sem lúta allir að umhirðu og eldi á smákálfum, en tilgangurinn er að fara yfir sviðið og draga saman þekkingu um eldi og umhirðu á smákálfum.

 

Erlendis, rétt eins og hér á landi, er eldi smákálfa mikilvægasti tíminn í lífi mjólkurkýrinnar og gott eldi eykur líkurnar á því að kvígan verði góð mjólkurkýr. Árlega fara fram ótal áhugaverðar tilraunir varðandi eldi kálfa. Ein slík, sem greint var frá í sumar á ársfundi ADSA (American Dairy Science Association), byggði á samanburði á vexti smákálfa við frávenjur og við mismunandi gróffóðureldi. Í þessari rannsókn fékk hluti kálfanna heilfóður með mjólkinni fram að frávenjum í lok sjöundu viku, þ.e. kálfarnir voru á mjólk í hefðbundna 49 daga, en hinir fengu hey og kjarnfóður með mjólkinni.

 

Á þessu tímabili þyngdust kálfarnir að jafnaði um 1.100 grömm á dag en þegar mjólkurfóðruninni var hætt hrundu kálfarnir á heilfóðrinu niður í 200-500 gramma þyngingu á dag á sama tíma og hinn hópurinn þyngdist um 700-1.200 grömm á dag. Skýringin á þessu felst einfaldlega í því að heilfóðurkálfarnir ná ekki að innbyrða nóg þurrefni með átinu til fullnýtingar á eigin vaxtargetu. Niðurstaðan er því skýr: smákálfum á að gefa kjarnfóður með heyinu en ekki heilfóður. Þá hafa eldri rannsóknir sýnt fram á mikilvægi þurrheysgjafar fyrir smákálfa eins og lesa má um í eldri frétt hér frá naut.is með því að smella hér/SS.