Beint í efni

Smákálfar nýta klórurnar

23.05.2017

Í rannsókn, sem greint var frá í Journal of Dairy Science í apríl sl., var m.a. greint frá áhugaverðri bandarískri rannsókn sem gerð var á 19 Jersey smákálfum. Tilgangur þessarar rannsóknar var að skoða áhrif mismunandi nærumhverfis kálfanna á atferli þeirra og voru stíurnar útbúnar með allskonar mismunandi búnaði eins og túttum, fastri „L“ laga klóru, gúmmíklæddum keðjum og plaströri. Kálfarnir gátu svo leikið sér með þetta allt saman, ýtt til og frá og þar fram eftir götunum en hugmyndin að baki rannsókninni var að búa til umhverfi sem myndi örva kálfana.

Vísindamennirnir fylgdust svo með atferli kálfanna og kom í ljós að kálfarnir notuðu allra helst klórurnar til þess að hreinsa feldinn og virtust ekki þurfa „leikföng“ til þess að hafa ofan af sér yfir daginn. Eftir að mjólkurfóðrunartímabilinu lauk var fylgst með kálfunum í samanburði við aðra kálfa sem ekki höfðu fengið örvandi umhverfi á mjólkurfóðrunartímabilinu en ekki var hægt að sjá eða mæla varanleg áhrif á kálfana. Niðurstöðurnar benda því til þess að kálfarnir þurfi ekki „leikföng“ en mun frekar aðstöðu til þess að geta klórað sér og hreinsað feldinn/SS.