Smáar afurðstöðvar geta líka staðið sig
18.08.2012
Í Evrópu er afar hörð barátta á milli afurðastöðva í mjólkuriðnaði og undanfarin misseri hafa orðið til fá en stór afurðafélög kúabænda sem svar þeirra við alþjóðlegum fyrirtækjum í eigu viðskiptablokka. Önnur leið til þess að bregðast við þessum stóru viðskiptablokkum er að horfa inn á við og það gerðu nokkrir kúabændur í Austurríki árið 2009. Þá blasti við þeim að framtíðin væri afar ótrygg og ef þeir ætluðu að hafa þokkaleg laun af vinnu sinni, þá yrðu þeir að taka málin í eigin hendur.
Þeir stofnuðu afurðastöðina Sonnenalm (www. sonnenalm-milch.at) og hófu framleiðslu á eigin vörum. Fyrir þessar afar litlu afurðastöðvar er yfirleitt tvennt í stöðunni: annað hvort að framleiða vörur sem vísa til uppruna mjólkurinnar (sk. local food) eða finna upp eitthvað alveg nýtt og einstakt sem aðrir eru ekki með. Fyrst hófu þeir framleiðslu á hefðbundnum vörum en svo varð síðarnefndi kosturinn fyrir valinu og bændurnir sjá ekki eftir því í dag.
Þeir byggðu ostagerð sem er sérhæfð í því að kenna ostagerð! Þarna geta gestir komið gegn greiðslu og lært að gera sína eigin osta, úr mjólkinni frá þeim 13 búum sem að þessu standa og komast færri að en vilja. Þá er ostabúið með sérstakt skólaostaverkefni þar sem nemendur streyma að úr nálægum héruðum til þess að læra um ostagerð og búa til sína eigin osta sem þeir geta svo tekið með sér heim til mömmu og pabba. Þessi magnaða hugmynd hefur nú einnig náð til veitingastaða, sem senda matreiðslumenn sína sérstaklega til Sonnenalm þess að búa til osta fyrir viðkomandi veitingastaði/SS.