Beint í efni

Sláturhúsið lánar fyrir kálfinum og fóðrinu

07.11.2012

Undanfarnar vikur hafa kúabændur landsins verið hvattir til þess að setja á alla nautkálfa eða selja til eldis svo tryggja megi framboðið. Svipuð aðstaða er hjá kúabændum á hinum Norðurlöndunum og nú hefur Skare Meat í Danmörku brugðist við stöðunni með tilboði til kúabænda sem ætti í öllu falli að auka líkurnar á því að naut berist til slátrunar. Sláturhúsið lánar nú kúabændum fyrir kaupum á nautkálfum, allt að 6 mánaða gömlum, sem og fyrir kaupum á því fóðri sem þarf til að ala nautið til slátrunar. Bóndinn endurgreiðir svo lánið, sem er veitt með „samkeppnishæfum“ vöxtum, þegar nautið er sent í sláturhús. Áhættan sem bóndinn tekur af nautaeldinu er þar með lágmörkuð og vona forsvarsmenn Skare Meat að þetta tryggi stöðu þeirra í samkeppni við önnur sláturfélög á hinum danska markaði.

 

Ekki hafa borist fregnir af útfærslunni og hvernig lánsupphæðin er fundin út, en í raun byggir fjármögnunin á einskonar fyrirframgreiðslu og því gera bændur skriflega samninga um afhendingu nautgripa til slátrunar.

 

Skare Meat er sérhæft nautgriparsláturhús og kjötvinnsla og er staðsett í Vejen. Hjá félaginu starfa 700 manns og nam heildarframleiðsla þess á síðasta ári 60 þúsund tonnum. Félagið er annað af stóru sláturhúsunum í Danmörku, en hitt er Danish Crown/SS.