Beint í efni

Slátrun og flokkun nautgripa 2015

04.02.2016

Samkvæmt upplýsingum frá Búnaðarstofu, voru alls 18.970 nautgripir lagðir inn í sláturhús hér á landi árið 2015. Það er rúmlega 7% aukning frá fyrra ári, er þeir voru tæplega 17.700 talsins. Eins og sjá má í töflunni hér að neðan varð mikil fjölgun í UK flokknum, eða tæplega 40%. Í UN úrval fór nákvæmlega sami fjöldi og árið áður, tæplega 1.100 gripir. Sama er að segja um UN 1, í hann fór nánast sami fjöldi gripa og árið áður.

 

 Í UN 2 fara rúmlega 100 fleiri gripir en árið áður og rúmlega tvöföldun verður á N flokknum, en í hann falla naut sem eru orðin eldri en 30 mánaða. Árið 2012 fóru 20 gripir í N flokk og árið 2013 voru þeir 50 talsins. Ástæða er fyrir framleiðendur að íhuga hvaða ástæður geta legið að baki þessari fjölgun, þar sem verðlækkun til framleiðenda við að gripur fari úr t.d. UN 1 A yfir í N er á bilinu 20-30%.   

 

 

Smávægileg fækkun varð á slátrun á yngri kúm; fækkun í K 1 U var rúmlega 4%. Slátrun á eldri kúm jókst hins vegar um tæplega 500 gripi, sem er rétt undir 10%. Sú aukning átti sér stað einkum á síðari hluta ársins og var aukningin í desember t.a.m. tæp 40%. Þá er rétt að minna á að nautgripaslátrun lá nær alveg niðri frá 20. apríl til 15. júní vegna verkfalls eftirlitsdýralækna. Sláturtölur sl. árs hefðu væntanlega verið talsvert öðru vísi ef allt hefði verið með felldu. 

 

Á myndinni hér að neðan má sjá þróun á fjölda gripa í helstu flokkum undanfarin ár, frá 2011-2015. Það sem helst vekur athygli er mikill samdráttur í UK, enda sést tilsvarandi aukning í ásetningi kálfa til kjötframleiðslu. Jafnframt hefur orðið mjög mikill samdráttur í slátrun á kúm; árin 2011-2013 fóru að jafnaði um 8.000-8.400 kýr í slátrun árlega, undanfarin tvö ár hafa þær verið 6.500-6.900 talsins. Búast má við talsverðri aukningu í þeim flokki á yfirstandandi ári./BHB