Slátruðu 29,3 milljónum gripa!
20.05.2016
Nýverið voru birtar upplýsingar um slátrun nautgripa í Bandaríkjunum árið 2015 en afar fróðlegt er að rýna í þær enda er fjöldinn slíkur að erfitt er fyrir Íslendinga að setja tölurnar í samhengi. Alls nam heildarframleiðsla nautgripakjöts 10,8 milljónum tonna sem er samdráttur um 2% frá fyrra ári en alls var 29,3 milljónum gripa slátrað, þar af nam kálfaslátrun 450 þúsund gripum sem er 12% færri gripir en árið 2014.
Meðal fallþunginn var 370 kíló og lífþungi 617 kíló að jafnaði. Fallþungahlutfallið var því 60% að jafnaði. Meirihluti nautakjötsframleiðslunnar var með uxum eða 54,2% en löng hefð er fyrir geldingu nauta í Bandaríkjunum. Næst stærsti hópurinn voru kvígur eða um 26,0% og þar á eftir kom mjólkurkúaslátrun með 10,3%. Hlutfall holdakúa var 7,9% og að síðustu var hlutfall graðnauta einungis 1,6%.
Alls var slátrað í 641 sláturhúsi og eru þá allir viðurkenndir slátrunaraðilar taldir með, jafnvel þó svo einungis einni kú hafi verið slátrað þar á árinu. Þorra nautgripanna, eða 57% þeirra, var þó slátrað hjá einungis 13 sláturhúsum sem þýðir að afkastageta hvers aðila nam að jafnaði 1,3 milljónum gripa á árinu 2015/SS.