Beint í efni

Slátrar engum grip!

15.07.2017

Í Bretlandi er starfrækt all sérstakt kúabú sem kallast Ahimsa dairy og er það staðsett í Rutland sýslu. Á þessu kúabúi er engum grip slátrað og fá kýrnar einfaldlega að vera í framleiðslu eins lengi og þeim endist aldur til og þeir nautkálfar sem fæðast á búinu eru nýttir til vinnu en ekki kjötframleiðslu. Bú þetta sem rekið er af hugsjónarmanninum Nicola Pazdzierska sem hóf reksturinn með hliðsjón af öðru búi sem er í Hertfordskíri, en það bú er rekið af Hari Krishna hreyfingunni og var því búi komið á koppinn af Bítilnum george Harrison.

Á Ahimsa búinu er framleiðslukostnaður mjólkurinnar eðlilega verulega mikið hærri en búi með hefðbundna mjólkurframleiðslu, en það virðist vera góður markaður fyrir afurðir búsins samkvæmt umföllun erlendra fjölmiðla um bú þetta. Mjólk búsins er seld með tvennskonar hætti: annars vegar á bændamörkuðum og hins vegar geta neytendur fengið mjólk með sérstöku áskriftarkerfi. Sé mjólkin seld á bændamarkaði kostar líterinn 4,5 pund (609 íkr) en í áskrift greiðir fólk 3,5 pund (474 íkr) fyrir líterinn og fá víst færri en vilja enda er bú þetta enn sem komið er ekki með umfangsmikinn rekstur, rétt um 20 mjólkandi kýr en mun eðli málsins samkvæmt stækka ört á komandi árum. Að sögn Nicola þá eru tvær ástæður fyrir hinu myndarlega mjólkurverði, annars vegar þarf aukið fjármagn til þess að geta haldið kúm á búinu í stað þess að slátra þeim og hins vegar þá sé hans skoðun einfaldlega sú að mjólk eigi ekki að vera ódýr! Hálfur líter af bjór kostar í London 6,20 pund (839 íkr) svo það geti varla nokkrum fundist ósanngjarnt að borga 4,5 pund fyrir líterinn af mjólk!

En það er margt annað á Ahimsa búinu sem er gert með annarskonar hætti en hefðbundið er. Þannig eru kýrnar t.d. mjólkaðar með höndum en ekki vélum, kýrnar fá fang með nauti en ekki sæðingu, kálfarnir ganga undir kúnum alls sumarið í stað þess að vera teknir undan kúnum eftir örfáa daga og þá geta kýrnar valið sjálfar hvort þær séu í fjósi eða á beit/SS.