Skýrsluhaldarar greiða fyrir skráningar á vorbókum
05.06.2008
Hópurinn sem skilar handskrifuðum skýrslum í fjárbókum telur enn meirihluta skýrsluhaldara, þó að svo sé ekki lengur þegar litið er til fjölda á skýrslufærðu fé þar sem mjög mörg stærri fjárbúanna hafa valið hinar leiðirnar tvær við skráningu skýrsluhaldsins.
Það hefur verið í umræðu í nokkur ár líkt og margir þekkja að til þess kæmi að innheimta yrði skráningagjald fyrir skýrslubækur. Ýmsum hefur þótt það óeðlilegt að þeir sem mesta þjónustu þurfa fái úrvinnslu skýrslnanna án gjalds á meðan notendur Fjárvísar hafa ætíð greitt árgjald af forritinu þó að þeir annist þannig alla skráningu sjálfir. Nú hefur verið ákveðið að eftirleiðis verði tekið gjald fyrir skráningu á fjárbókum.
Nú eru framundan skil á vorbókum hjá þeim skýrsluhöldurum sem skila skýrslum á þann hátt. Rétt er að vekja athygli á því að við breytingar á skýrsluhaldinu í sauðfjárrækt á síðasta ári urðu þær breytingar að þeir sem skila skýrslum á handskrifuðu formi þurfa nú að skila bæði vorbók og haustbók vegna þess að skýrsluformi hefur verið breytt á þennan veg.
Vegna þess hve seint þessi ákvörðun er tilkynnt hefur verið ákveðið að vorbækur sem berast til skráningar hjá BÍ fyrir 1. júlí verði líkt og áður skráðar án gjaldtöku. Vorbækur sem berast til skráningar 1. júlí eða síðar verður hins vegar innheimt gjald fyrir. Á þessu ári verður veittur helmings afsláttur frá þeirri gjaldskrá sem samþykkt hefur verið.
Gjaldskráin byggir í grunni á tímagjaldi sem hefur verið yfirfært á fjölda gripa sem verið er að skrá í hverri vorbók. Lágmarksgjald verður innheimt fyrir skráningu bóka þar sem skýrslufærðar ær eru 25 eða færri en að öðru leyti miðast gjaldskráin við 4.000 króna tímagjald en eins og áður segir er veittur 50% afsláttur (1.júlí til 31.desember 2008). Mikilvægt er að skýrsluhaldarar vandi til frágangs á vorbókum því vinna við illa færðar bækur getur reynst kostnaðarsöm.
Að síðustu er það von okkar að sem flestir skýrsluhaldarar geti nýtt sér rafræn skil á skýrsluhaldsgögnum annað hvort í gegnum Fjárvís forritið og eða hins vegar með FJARVIS.IS en aðgangur að kerfinu er þeim að kostnaðarlausu.
/JBL og JVJ