Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Skýrsla um matvöruverð: Tímabært að fyrirtæki í verslunarrekstri leggi sitt af mörkum

27.01.2016

Bændasamtökin hafa gefið út skýrslu sem fjallar um þá þætti sem hafa áhrif á matvöruverð á Íslandi og í Evrópu. Að mati samtakanna hefur lækkun gjalda, hagstæð þróun á gengi íslensku krónunnar og lægra innkaupaverð ekki skilað sér með eðlilegum hætti með lægra verði til neytenda, heldur hefur ágóðinn að mestu runnið til fyrirtækja í verslunarrekstri.

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, segir að það sé kominn tími til að fyrirtæki í verslunarrekstri leggi sitt af mörkum við lækkun vöruverðs á Íslandi.

„Á undanförnum árum hafa átt sér stað breytingar, lækkun gjalda og styrking krónunnar, sem hefðu átt að skila í lægra verði til neytenda en hafa ekki gert það. Á sama tíma sjáum við fréttir af gríðarlegum hagnaði fyrirtækja á dagvörumarkaði. Þegar horft er til allra þeirra þátta sem geta haft áhrif á verðlag matvöru til neytenda á Íslandi er ljóst að hægt er að ná betri árangri við að ná niður verðlagi. Þar skiptir mestu að fyrirtæki á dagvörumarkaði leggi líka sitt af mörkum.“

Sindri segir bændur hafa lagt sitt af mörkum við að halda aftur af verðlagshækkunum, meðal annars í kjölfar efnahagshrunsins þegar þeir tóku að miklu leyti á sig aukinn kostnað vegna gengisfalls krónunnar í stað þess að velta honum öllum út í verðlagið.

„Aukin hagræðing í landbúnaði hefur einnig skilað árangri, en að okkar mati er mikilvægt að bæði bændur og neytendur njóti góðs af þeim ágóða sem hún skilar til jafns við fyrirtæki í verslunarrekstri,“ segir Sindri.

Þegar horft er til þess sem hefur áhrif á verðlag matvöru til neytenda á Íslandi er það mat Bændasamtakanna að mögulegt sé að lækka matvöruverð á Íslandi en til þess árangur náist þurfi að:

- Tryggja aukna samkeppni á dagvörumarkaði og þar þurfi Samkeppniseftirlitið að beita sér í auknum mæli, með þeim úrræðum sem stofnunin hefur.

- Tryggja að þegar gjöld og álögur eru lækkaðar skili ágóðinn sér til neytenda, bæði af hálfu stjórnvalda og með áframhaldandi öflugu aðhaldi launþegahreyfingarinnar í landinu.

- Tryggja að þegar árangur næst í hagræðingu í íslenskum landbúnaði skili ágóðinn sér til neytenda og bænda, en ekki bara fyrirtækja í verslunarrekstri. 

Skýrslan: Matvöruverð á Íslandi - úttekt á þáttum sem hafa áhrif á matvöruverð - pdf


Sindri Sigurgeirsson formaður BÍ, Sigurður Eyþórsson framkvæmdastjóri BÍ og Erna Bjarnadóttir, hagfræðingur BÍ, kynntu efni skýrslunnar á blaðamannafundi á veitingastaðnum Matur og drykkur við Grandagarð.