Beint í efni

Skýrsla um eflingu kornræktar kynnt á opnum fundi 15. mars

13.03.2023

Opinn kynningarfundur um skýrslu um eflingu kornræktar verður haldinn á Hilton Nordica hótelinu í Reykjavík miðvikudaginn 15. mars kl. 11. Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra mun setja fundinn.

Mikilvægi innlendrar kornræktar hefur aukist verulega í takti við aukið vægi fæðuöryggis síðustu misseri og í stjórnarsáttmála ríkisstjórnar Katrínar Jakobsdóttur kemur fram að unnin verði aðgerðaáætlun um eflingu kornræktar á kjörtímabilinu. Matvælaráðherra ákvað því síðastliðið sumar að semja við Landbúnaðarháskóla Íslands um að vinna drög að slíkri áætlun.

Markmið verkefnisins var einnig að kanna fýsileika kornsamlags og skilgreina þarfir á lágmarksbirgðum kornvöru í landinu. Við vinnslu áætlunarinnar voru tekin viðtöl við nokkra tugi sérfræðinga og bænda á Íslandi og í nágrannalöndunum og samráð haft við alla helstu kaupendur á korni auk þess sem haldnir voru opnir bændafundir.

Áætlaður kostnaður við kornrækt á Íslandi var borinn saman við raunkostnað í nokkrum nágrannalöndum og bendir samanburður til þess að kostnaður við kornrækt á Íslandi sé sambærilegur við nágrannalönd.

Helstu styrkleikar íslenskrar kornræktar í samanburði við erlenda eru mikið, frjósamt og ódýrt ræktarland, lágur raforku- og heitavatnskostnaður, og lágur kostnaður við varnarefni. Hagkvæmni þess að nota jarðvarma til að þurrka korn var einnig metin og benda niðurstöður til að nýting jarðvarma sé bæði raunhæfur og hagkvæmur kostur. Greining á kostnaði við uppbyggingu þurrkstöðva og geymslna sýndi mikla stærðarhagkvæmni.

Aðgerðaáætlunin er lögð fram í 30 liðum og eru meðal annars gerðar tillögur um sérstakan stuðning við kornrækt, bæði við framleiðslu og fjárfestingar í nauðsynlegum innviðum.

„Með því að stuðla að fjölbreyttari framleiðslu búvara hérlendis rennum við styrkari stoðum undir samfélög um allt land,“ sagði Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra. „Ég hef miklar væntingar til þessarar skýrslu og tel hana vera mikilvægt skref á leiðinni til aukins fæðuöryggis og fjölbreyttari landbúnaðarframleiðslu“.

Helgi Eyleifur Þorvaldsson, aðjúnkt og brautastjóri búfræðibrautar hjá LbhÍ mun kynna skýrsluna og sitja fyrir svörum ásamt þeim Agli Gautasyni, lektor við deild ræktunar og fæðu hjá LbhÍ og Hrannari Smára Hilmarssyni, tilraunastjóri í jarðrækt hjá LbhÍ.

Fundurinn verður opinn almenningi en jafnframt verður hægt að fylgjast með honum í streymi á heimasíðu matvælaráðuneytisins, mar.is og fréttamiðlum.