Beint í efni

Skýrsla starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslunnar

04.07.2013

Starfshópur um eflingu nautakjötsframleiðslunnar sem skipaður var af atvinnuvegaráðherra í mars sl., skilaði skýrslu sinni á fundi með ráðherra landbúnaðarmála í gær. Tillögur hópsins eru eftirfarandi:

 

       I.            Þegar verði hafist handa um að skapa aðstöðu til þess að flytja inn nýtt erfðaefni til innblöndunar í íslenska holdanautastofninn. Starfshópurinn telur að flytja eigi inn erfðaefni af holdakyninu Aberdeen Angus og á síðari stigum verði kannaðir möguleikar á innflutningi á erfðaefni Limousin gripa. Lagt er til að erfðaefnið verði flutt inn frá Noregi í samvinnu við ræktunarfélög þar í landi.

 

    II.            Gerð verði ítarleg áhættugreining varðandi fyrirkomulag innflutnings á erfðaefni. Sérstaklega verði skoðað hvort unnt verði að leyfa innflutning sæðis beint til einstakra bænda.

 

 III.            Kannað verði hvort unnt og þá hvernig sé að koma upp sérstöku ræktunarbúi til þess að framrækta Aberdeen Angus kynið og byggja upp hreinræktaðan stofn. Þar verði jafnframt aðstaða til sæðistöku til dreifingar gegnum Nautastöð BÍ til bænda.

 

 IV.            Þegar verði hafinn undirbúningur að upptöku á nýju kjötmati, með það að markmiði að innleiðing þess geti hafist í ársbyrjun 2014. Yfirkjötmatið komi á fót samráðshópi reyndra kjötmatsmanna frá stærstu sláturleyfishöfunum. Nýtt kjötmat verði síðan framkvæmt samhliða eldra kjötmati fram til ársloka 2014 og þá taki EUROP kjötmat við.

 

    V.            Gerð verði úttekt á stöðu allra hjarða sem stunda nautakjötsframleiðslu sem aðalbúgrein og metið hvaða aðgerðir skila mestum árangri. Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins er hvött til þess að koma á laggirnar skipulagðri ráðgjafarþjónustu við nautakjötsframleiðendur.

 

 VI.            Gerð verði gangskör að því að efla og bæta skýrsluhald í greininni og það verði gert að skilyrði fyrir því að fá innflutt erfðaefni til notkunar í viðkomandi hjörð. Skýrsluhaldsforritið HUPPA verði aðlagað að þörfum nautakjötsframleiðenda.

 

Starfshópinn skipuðu Magnús B. Jónsson, formaður sem tilnefndur var af ráðherra, Sigurður Loftsson, tilnefndur af Landssambandi kúabænda, Guðný Helga Björnsdóttir, tilnefnd af Bændasamtökum Íslands og Sigurður Jóhannesson, tilnefndur af Landssamtökum sláturleyfishafa. Á starfstíma hópsins hvarf Sigurður Jóhannesson til annarra starfa og tók þá Sigmundur Ófeigsson við sæti hans. Baldur Helgi Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK starfaði með hópnum. Skýrslu starfshópsins má nálgast í heild sinni með því að smella á hlekkinn neðst í pistli þessum.

 

Samkvæmt skipunarbréfi var hlutverk hópsins að móta tillögur um hvernig skuli standa að innflutningi á erfðaefni; gera tillögur að kynbótaskipulagi; koma með tillögu að nýju kjötmati; móta tillögur um hvernig megi stuðla að aukinni fagmennsku í nautakjötsframleiðslunni.

 

Landssamband kúabænda telur afar brýnt að unnið verði hratt og skipulega að því að hrinda tillögum hópsins í framkvæmd./BHB

 

Skýrsla starfshóps um eflingu nautakjötsframleiðslunnar