Beint í efni

Skýrsla Spretthóps – Nautgripabændur

16.06.2022

Síðastliðinn þriðjudag skilaði spretthópurinn, sem Svandís Svavarsdóttir, matvælaráðherra, skipaði vegna alvarlegrar stöðu í matvælaframleiðslu á Íslandi, tillögum sínum. Tillögur að beinum aðgerðum á árinu 2022 eru í sex liðum og snerta þrír þeirra nautgriparæktina.

Samkvæmt fyrsta lið verður greitt 65% álag á jarðræktarstyrki og landgreiðslur. Álagsgreiðslurnar í heild sinni verða um 517 milljónir, sem skiptist á milli allra þeirra bænda sem stunda jarðrækt og hirða tún sín. Kemur þessi aðgerð öllum þeim greinum sem nýta ræktunarland sitt til góða.

Í öðrum lið skýrslunnar eru lagðar fram tillögur að álagsgreiðslum sem samtals nema 1.354 milljónum króna og deilast milli sauðfjárræktar, nautgriparæktar og geitfjárræktar. Undir þessum lið eru lagðar fram þrjár tillögur sem snúa beint að nautgriparæktinni og nema samtals 399 milljónum króna.

Í lið 2 b) í skýrslu spretthóps um beinar aðgerðir á árinu 2022 segir „Greitt verði 75% álag á nautakjötsframleiðslu. Greiðslunni verði deilt á UN gripi sem koma til slátrunar með sama hætti og gert var með sérstökum stuðningi snemma árs 2021“. Áætlaður kostnaður við þennan lið er um 164 milljónir. Uppi er mismunandi túlkun meðal bænda hvort aðgerðin feli í sér að 75% álag verði aðeins greitt á sláturálag og falli því ekki á UN gripi sem eru eldri en 30 mánaða, undir 250 kg og flokkist í P-, P eða P+ flokk eða hvort fjármunirnir deilist á alla UN gripi sem komi til slátrunar á árinu 2022. Mat stjórnar Nautgripabænda BÍ er að fjármununum sé best varið með því að greiða fjármunina út á alla UN gripi sem koma til slátrunar 2022 þar sem aukinn framleiðslukostnaður kemur niður á öllum nautakjötsframleiðendum. Því mati verður komið á framfæri við ráðuneytið. 

Miðaða við áætlaðan fjölda UN-sláturgripa á árinu 2022 mun viðbótargreiðslan verða um 14.000 krónur á grip greiðist hún á alla UN sláturgripi á árinu 2022.

Í lið 2 c) og d) í skýrslu spretthópsins er lagt til að greitt verði 20% álag á gripagreiðslur holdakúa og 12% álag á gripagreiðslur mjólkurkúa. Heildarkostnaður við viðbótar gripagreiðslur nema um 36 milljónum hjá holdakúm og 199 milljónum hjá mjólkurkúm. Ef miðað er við áætlaðan fjölda mjólkur- og holdakúa verður álagið á gripagreiðslur um 9.800 krónur á hverja holdakú en 7.600 krónur á hverja mjólkurkú.

 

Samantekið verða greiðslur er snerta nautgriparæktina eftirfarandi:

65% álagasgreiðslur á jarðræktar- og landgræðslustyrki

Auka 14.000 krónur* á hvern UN sláturgrip.

Auka 9.800 krónur* í gripagreiðslur á hverja holdakú.

Auka 7.600 krónur* í gripagreiðslur á hverja mjólkurkú.

*Athygli er vakin á því að tölurnar miðast við áætlaðan fjölda á árinu 2022.

Í sjötta lið skýrslunnar leggur spretthópurinn síðan til að veitt verði tímabundin heimild í lögum, t.d. til fjögurra ára, fyrir sláturleyfishafa og frumvinnslu afurðastöðva í kjötvinnslu til samstarfs um sameiningu eininga, samninga sín í millum og verkaskiptingu. Slíkt ætti að skila bæði bændum og neytendum ávinningi með en á þessu hagræðingartímabili yrði sláturleyfishöfum skylt að tryggja bændum opinberlega ákvarðað lágmarksverð a.m.k. til kinda– og nautakjötsframleiðenda. Telur hópurinn ríka þörf á að hefjast þegar handa og leggur til að lagaheimilda verði aflað eins fljótt og mögulegt er.

Jákvætt er að sjá að matvælaráðherra og Ríkisstjórn Íslands leggur áherslu á mikilvægi innlendrar matvælaframleiðslu og stuðla að því að framleiðslugetu landbúnaðarins sé viðhaldið á fordæmalausum tímum. Verkefni búgreinadeildar nautgripabænda er þó hvergi nærri lokið þar sem við erum full meðvituð um að búgreinarnar, þá sérstaklega nautakjötsframleiðslan, stóðu margar veikar fyrir þegar fordæmalausar aðfangahækkanir síðustu missera komu fram og við þurfum að halda áfram að finna aðrar og varanlegri lausnir.

Ítarlegri greining á áhrifum tillagna spretthópsins á nautgriparæktina stendur yfir og munum við upplýsa bændur um niðurstöður greininganna þegar þær liggja fyrir.

Gleðilega þjóðhátíð!