
Skýring fundin á salmonellusmituðu mjólkurdufti fyrir ungabörn
18.06.2018
Franska fyrirtækið Lactalis, sem er eitt stærsta fyrirtæki heims á sviði mjólkurafurða, sendi frá sér tilkynningu á föstudaginn þar sem skýringin var sögð fundin á því að innkalla hafi þurft mjólkurduft fyrir ungabörn í 83 löndum í desember og janúar. Alls þurfti fyrirtækið að draga 12 milljónir dósa af mjólkurdufti til baka eftir að 36 frönsk börn höfðu fengið salmónellusýkingu, en talið var að þau hefðu smitast af mjólk sem búin var til úr mjólkurduftinu frá Lactalis. Einnig bárust fregnir af smituðum ungabörnum í Grikklandi og á Spáni.
Frönsk yfirvöld rannsökuðu mjólkurduft frá vörumerkjunum Picot og Milumel og var smitið rakið til verksmiðju Lactalis í Craon i vestur Frakklandi. Forstjóri Lactalis, Emmanuel Besnier, var kallaður fyrir franska þingnefnd í liðinni viku og þar greindi hann frá því að um slys hafi verið að ræða en ekki krónískt smit. Fyrr á árinu 2017 hafi verið unnið að endurbótum á verksmiðjunni í Craon og þá hafi það gerst að smitefni hafi borist inn í vinnslutæki Lactalis. Enginn einstaklingur bæri þó einn ábyrgð á þessu, þetta hafi einfaldlega verið slys.
Lactalis stendur frammi fyrir hóplögsókn vegna þessa máls/SS.