Beint í efni

Skyrið selst vel í Bandaríkjunum

14.05.2006

Góð sala er á skyri í verslunum Whole Foods Market í Bandaríkjunum, segir í frétt Morgunblaðsins í dag. „Skyrið rennur út. Við erum með tvær bragðtegundir, vanillu og bláberja, og á næstunni bætast við jarðarberjaskyr og hreint skyr. Skyrdós sem kostar 90 krónur á Íslandi selst á 2,99 dali stykkið (212 krónur) meðan sambærileg dós af bandarískri jógúrt kostar einn dollara,“ segir Baldvin Jónsson, framkvæmdastjóri Áforms.

Þá hafa WFM-verslanirnar ákveðið að kaupa 140 tonn af íslensku smjöri í stórpakkningum og munu nota það í bakaríum sínum og við framleiðslu á tilbúnum réttum. Þeim þykir íslenska smjörið einkar gott til matargerðar. Fyrsti 20 tonna smjörgámurinn fer til Bandaríkjanna í þessari viku.

 

Efnt verður til Íslandsdaga í 29 WFM-verslunum í haust sem standa munu í þrjár vikur. Þá verða íslenskt kjöt, fiskur, ostar, grænmeti, súkkulaði, snyrtivörur, drykkjarvörur og fæðubótarefni kynnt sérstaklega.

 

Fyrsta verslun WFM var opnuð í Austin í Texas árið 1980. Í dag eru verslanirnar 184 á meginlandi Norður-Ameríku og í Bretlandi. Frá upphafi hefur það verið stefna keðjunnar að selja aðeins úrvals matvæli af miklum gæðum, afurðir sjálfbærs landbúnaðar, af því er kemur fram á heimasíðu WFM.