Beint í efni

Skýlaus krafa formanns LK til fjármálastofnana: Bú sem voru rekstrarhæf fyrir hrun verði tryggður rekstrargrundvöllur

26.03.2010

Í setningarræðu sinni við upphaf aðalfundar Landssambands kúabænda ræddi Sigurður Loftsson formaður, um skuldastöðu kúabænda í kjölfar bankahrunsins. „Það hefur verið skilyrðislaus krafa Landssambands kúabænda í þessu efni, að öll þau bú sem voru rekstrarhæf fyrir hrun verði það áfram. Undir þessu liggur krafa um að leiðréttur verði eftir því sem aðstæður leyfa sá forsendubrestur sem þarna varð“. Formaður kom einnig inn á í ræðu sinni að mikilvægt væri að jafnræðis verði gætt við úrlausn þessara mála, „miklu skiptir við aðstæður eins og nú að viðhalda trú þeirra, sem þennan rekstur stunda, á framtíðina. Því skiptir miklu hvernig staðið verður að úrvinnslu skulda greinarinnar hjá lánastofnunum og að jafnræðis sé gætt“. Um breytingarnar á mjólkursamningnum sem gerðar voru á síðasta ári sagði Sigurður: „Kosið var um þessar breytingar í almennri atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda og voru þær samþykktar með 83% greiddra atkvæða. Í framhaldi af því samþykkti Alþingi svo samninginn fyrir sitt leiti með verulegum meirihluta allra þingflokka. Með þessu má segja að bændur hafi slegið tóninn í þeirri sátt sem nauðsynleg er í efnahagslífi landsins svo að hér náist á ný efnahagslegur stöðugleiki. Framlag kúabænda í þessu samhengi er umtalsvert, en nærri lætur að umræddar breytingar á mjólkursamningnum kosti greinina 400 milljónir á árinu 2009“ og áfram „Í tengslum við þær breytingar sem gerðar voru á Mjólkursamningi lýsti þáverandi Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  yfir vilja til að gerðar yrðu nauðsynlegar breytingar til að styrkja ákvæði Búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði. Það er þó fyrst nú eftir áramót sem málið fer fyrir ríkisstjórn. Þaðan var það afgreitt til þingflokka stjórnarinnar í byrjun þessa mánaðar. Þar hefur það setið síðan þá. Kúabændur undirgengust skerðingu á samningum sínum m.a. í trausti vilyrða um að gengið yrði frá lausum endum í lagaumhverfi þeirra og ekki verður við annað unað, en að því máli verði lokið frá hendi stjórnvalda“. Um aðlögunarviðræður Íslands við Evrópusambandið sagði formaður LK þetta: „Engum vafa er undirorpið að þessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda, er einhver sú stærsta sem tekin hefur verið hin seinni ár. Það hlýtur því að vekja athygi að ákvörðunin er tekin á sama tíma og stjórnsýsla og atvinnulíf landsins háir harða baráttu við endurreisn efnahagslífsins. Samhliða þessu er mikill niðurskurður á fjárlögum sem augljóslega mun veikja stjórnsýsluna í þessu vandasama verkefni“ og áfram segir „niðurfelling tolla mun leiða af sér verulegan markaðssamdrátt íslenskra mjólkurafurða og þar með munu núverandi rekstarforsendur greinarinnar bresta. Verst er þó að aðildarumsóknin sem slík skapar óvissu í starfsumhverfi greinarinnar, því ekki mun liggja fyrir fyrr en við undirskrift, hvað leynist í mjölpoka aðildarsamningsins“.

 

 

Setningarræða formanns Sigurðar Loftssonar á aðalfundi LK 2010 fer hér á eftir í heild sinni.

 

Ekki verður annað sagt en að gengið hafi á ýmsu í lífi okkar Íslendinga í nábýlinu við landið gegnum tíðina. Óblíð náttúruöfl og rysjótt veðurfar gekk oft á tíðum nærri þjóðinni hér fyrr á öldum og felldi bæði fólk og búsmala. Þrátt fyrir þetta náðum við, með tilkomu tækninnar, að byggja á undra skömmum tíma upp öflugt velferðarsamfélag sem er með því besta sem þekkist. Auðlindirnar, sjórinn, gróska landsins og orkan sem býr í iðrum þess hefur verið það afl sem þetta hefur drifið áfram. Atburðir síðustu daga hafa þó minnt okkur á aflið sem býr í náttúru landsins og getur á örskammri stund snúist í andhverfu sína og truflað taktinn í þeim lífsgæðum sem okkur þykja annars sjálfsögð. Það er samt athylisvert að sjá hversu mótuð og skipulögð viðbrögð okkar eru orðin við slíkum aðstæðum. Allt kapp er lagt á að tryggja öryggi fólks og bjarga verðmætum. Í framhaldinu er síðan kappkostað að koma samfélagsmynstrinu í samt lag, svo að lífið nái að halda áfram sinn vana gang. Þekking okkar á eðli náttúrunnar og reynsla liðinna alda í sambýlinu við landið er ekki síst það sem gerir okkur þetta mögulegt.


Þegar bankakerfi landsins hrundi fyrir um einu og hálfu ári síðan, brustu um leið margar af undirstöðum samfélagsins. Margir hafa orðið til þess að líkja þessum atburðum við hamfarir og þó tekist hafi með bráðaaðgerðum að halda samfélaginu gangandi, fer því þó fjarri að geta þeirra sem stýra þar aðgerðum,  séu jafn markvissar og hinna sem fást við náttúruöflin.


Eitt versta birtingarform þessa er sú gríðarlega skuldastaða sem blasir við mörgum heimilum og fyrirtækjum, svo að ekki er hægt að segja annað en að um algeran forsendubrest sé að ræða. Kúabændur eru þar engin undantekning, en sérstaða bænda almennt er þó sú að þar er hvorutveggja undir í senn heimili og atvinnurekstur. Lánastofnanir hafa á síðustu mánuðum kynnt lausnir á vanda þessara aðila, sem saman standa annarsvegar af almennum og hinsvegar sértækum aðgerðum. Fullvíst má telja að flest þau bú þar sem almennu aðgerðirnar duga til, séu í þokkalegum málum rekstrarlega. Verr hefur hinsvegar gengið að vinna úr málum hinna, enda skuldirnar á tíðum langt fyrir ofan veðhæfi og dreift á margar lánastofnanir með misjafna veðstöðu. Það er vissulega ásættanlegt úrræði að lánum þessara bænda sé stillt þannig upp að þau falli að greiðslugetu þeirra. Eins má vel vera að ekki sé annað fært, en að einhver hluti lánapakkans fari í bið til seinni tíma úrlausnar. Það er hinsvegar ekki ásættanlegt að fyrirvaralaust sé hengd yfir höfuð fólks lánakúla til skamms tíma, sem síðan er háð duttlungum eigenda bankans hvort verði látin falla eða ekki. Það hefur verið skilyrðislaus krafa Landssambands kúabænda í þessu efni, að öll þau bú sem voru rekstrarhæf fyrir hrun verði það áfram. Undir þessu liggur krafa um að leiðréttur verði eftir því sem aðstæður leyfa sá forsendubrestur sem þarna varð. Væntanlega leiðir þetta af sér að ekki verði öllum bjargað. Ljóst er að sumir okkar félaga gengu fram af meiri bjartsýni í fjárfestingum og rekstri en góðu hófi gengdi, þann kaleik verðum við að drekka þó beiskur sé.


Miklu skiptir við aðstæður eins og nú að viðhalda trú þeirra, sem þennan rekstur stunda, á framtíðina. Því skiptir miklu hvernig staðið verður að úrvinnslu skulda greinarinnar hjá lánastofnunum og að jafnræðis sé gætt. Við þekkjum af sögunni inngrip bankanna í framleiðslu t.d. svínaræktarinnar, þar sem ákveðin bú hafa komist í þrot vegna skulda. Í þeim tilfellum hafa þau á tíðum verið snyrt til skuldalega, jafnvel gefið færi á að stækka og síðan send að nýju út í fulla samkeppni við aðra framleiðendur sem enga slíka meðferð hlutu. Sumir þeirra voru jafnvel viðskiptamenn þessa sama banka. Við getum ekki sætt okkur við að þessi þróun komi upp við úrlausn á skuldavanda kúabænda. Þessi grein þarf á öllu sínu hæfasta fólki að halda eigi hún að vera samkeppnisfær til framtíðar litið. Möguleikar þessa fólks verða ekki tryggðir með rekstrarlegum tilfærslum og loftfimleikum innan bankakerfisins, eða íhlutunum opinberra aðila. Öllu skiptir að jafnræðis sé gætt í þessum málum, sem öðrum í rekstarumhverfi greinarinnar.


Annað birtingarform hrunsins er gríðarleg skuldaaukning og tekjufall ríkissjóðs. Í aðhalds aðgerðum vegna fjárlaga 2009 var frá hendi ríkisins meðal annars brotið á verðtryggingarákvæðum búvörusamninga. Þessum aðgerðum var að sjálfsögðu mótmælt kröftuglega af hendi samtaka bænda og ítrekað bent á að um samningsrof væri að ræða. Í kjölfar samningaumleitanna milli ríkis og bænda var síðan þann 18. apríl s.l. undirritað samkomulag milli LK og BÍ annarsvegar og ríkisins hinsvegar um breytingar á mjólkursamningnum. Tilgangur samkomulagsins var að eyða þeirri óvissu sem komin var um réttarstöðu samningsins eftir að umrædd verðtryggingarákvæði hans voru afnumin við gerð fjárlaga fyrir árið 2009. Umræddar breytingar á samningnum fela eftirfarandi í sér:


► Framlög á árinu 2009 verði samkvæmt fjárlögum.
► Framlög ársins 2010 verði 2% hærri en 2009, óháð verðlagsþróun.
► Árið 2011 hækki framlög aftur um 2%, en auk þess bætist við helmingur af því sem upp á vantar til að framlag ársins uppfylli ákvæði gildandi samnings. Þó verði hækkun milli ára ekki umfram 5%.
► Árið 2012  verði greitt samkvæmt gildandi samningi, en þó með fyrirvara um 5% há¬marks¬hækkun eins og árið 2011.
► Gildandi samningur er fram¬¬lengdur til 31. desember 2014, eða um 28 mánuði með óbreyttum forsendum, þannig færast verðlagsáramót að almanaksáramótum. Með samkomulaginu er opnuð heimild á tilfærslu milli flokka í samningnum. Þannig er ekki stefnt að frekari formbreytingu stuðnings frá beingreiðslum yfir í óframleiðslutengdan stuðning á árunum 2010 – 2011, eins og gert var ráð fyrir. Hvað síðan verðu er svo samningsatriði.
Kosið var um þessar breytingar í almennri atkvæðagreiðslu meðal mjólkurframleiðenda og voru þær samþykktar með 83% greiddra atkvæða. Í framhaldi af því samþykkti Alþingi svo samninginn fyrir sitt leiti með verulegum meirihluta allra þingflokka. Með þessu má segja að bændur hafi slegið tóninn í þeirri sátt sem nauðsynleg er í efnahagslífi landsins svo að hér náist á ný efnahagslegur stöðugleiki. Framlag kúabænda í þessu samhengi er umtalsvert, en nærri lætur að umræddar breytingar á mjólkursamningnum kosti greinina 400 milljónir á árinu 2009. Það gerir u.þ.b. 3,50 krónur á framleiddan lítra innan greiðslumarks og er það nálægt því að vera sú hækkunarþörf sem verðlagsgrundvöllur kúabús sýnir 1. desember 2009. 
Það samkomulag sem gert var um breytingar á mjólkursamningi felur ekki í sér neinar skuldbindingar frá hendi bænda varðandi störf Verðlagsnefndar og jafnframt lýstu forustumenn ríkisstjórnarinnar yfir að ekki verði lagðar frekari byrðar á mjólkurframleiðendur í þeirri efnahagsuppbyggingu sem framundan er. Við hljótum að treysta því að við það verði staðið.


Í samræmi við áðurnefndar breytingar á mjólkursamningi gaf Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið út “Reglugerð um greiðslumark mjólkur“. Samkvæmt henni nær yfirstandandi verðlagsár frá 1. september 2009 – 31. desember 2010 og er greiðslumark mjólkur á þessu tímabili 155 milljónir lítra. Jafngildir það um 116,25 milljónum lítra miðað við hefðbundið 12 mánaða verðlagsár. Greiðslumark síðasta verðlagsárs var hinsvegar 119 milljónir lítra og er því um nokkurn samdrátt að ræða, en þó minni en útlit var fyrir um tíma síðast liðið vor. Salan það sem af er þessu ári hefur hinsvegar fyllilega staðið undir væntingum, en athygli vekur að umtalsverð tilfærsla er að eiga sér stað milli vöruflokka. Tólf mánaða sala á próteingrunni nú í lok febrúar er komin í tæplega 117,5 mill/ltr. Fitusalan er hinsvegar í 115,2 mill/ltr og stefnir því að óbreyttu í að kominn verði á jöfnuður í sölu beggja efnaþátta mjólkur á innanlandsmarkaði innan tíðar.


Nokkrar breytingar voru gerðar á skiptingu C-greiðslna fyrir nýhafið verðlagsár. Greiðslur á sumarmánuðum falla út, auk þess sem dregið er úr vægi þeirra í janúar og febrúar. Þess í stað er hlutfall C-greiðslna á haustmánuðum 2010 aukið. Tilgangur þessara greiðslna er þó að jafna framboð mjólkur, svo að sem best samræmi náist milli framleiðslu og sölu mjólkur. Ástæða er til að skoða hvernig þessum greiðslum verði best fyrir komið í framhaldinu svo að þessi árangur náist. Nauðsynlegt er að fá um það umfjöllun hér á fundinum. Eins er mikilvægt að fá umræðu um hvort og þá hvernig staðið skuli að tilfærslum milli flokka samningsins.

 

Í tengslum við þær breytingar sem gerðar voru á Mjólkursamningi lýsti þáverandi Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra  yfir vilja til að gerðar yrðu nauðsynlegar breytingar til að styrkja ákvæði Búvörulaga um forgang greiðslumarksmjólkur að innanlandsmarkaði. Það er þó fyrst nú eftir áramót sem málið fer fyrir ríkisstjórn. Þaðan var það afgreitt til þingflokka stjórnarinnar í byrjun þessa mánaðar. Þar hefur það setið síðan þá. Kúabændur undirgengust skerðingu á samningum sínum m.a. í trausti vilyrða um að gengið yrði frá lausum endum í lagaumhverfi þeirra og ekki verður við annað unað, en að því máli verði lokið frá hendi stjórnvalda.

Annað atriði sem snýr að stjórnvöldum er að enn hefur ekki verið gengið frá endurnýjun Búnaðarlagasamnings sem rennur út 31. desember n.k. Sá dráttur sem orðin er á þessu máli setur í óvissu þau verkefni sem unnin eru á forsendum Búnaðarlaga og því brýnt að úr því verði bætt hið fyrsta.

 

Verðlagsnefnd búvara tók á fundi sínum 7. júlí s.l. samhljóða ákvörðun um  breytingar á heildsöluverði mjólkur og mjólkurafurða, sem nefndin verðleggur og tóku þær gildi 1. ágúst s.l. Við þessa ákvörðun tók verð mjólkurvara mismiklum breytingum t.d. hækkaði heildsöluverð á nýmjólk um 9%, léttmjólk um 4,6% og mjólkurdufti til iðnaðar um 13,5%. Hinsvegar lækkaði heildsöluverð á rjóma um 0,7%. Með þessum breytingum má gera ráð fyrir að leiðrétt hafi verið u.þ.b. 40% af reiknaðri framlegðarskekkju drykkjarmjólkur, en að meðaltali hækkaði heildsöluverð mjólkurvara um 3,47%.
 
Þessari ákvörðun Verðlagsnefndar fylgdu tvær bókanir og eru þær svo hljóðandi.
1. “Verðlagsnefnd mun á næstu 24 mánuðum leitast við að minnka þörf á verðtilfærslu í verðlagningu mjólkurvara sem undir hana heyra”.
2. “Bændur falla frá hækkun afurðaverðs að þessu sinni vegna erfiðrar rekstrarstöðu mjólkuriðnaðarins”.
Afar mikilvægt var að ná fram þessum breytingum til að tryggja rekstrarstöðu iðnaðarins. Verð til framleiðenda hefur hinsvegar verið óbreytt síðan 1. nóvember 2008 þrátt fyrir talsverðar hækkanir á aðföngum síðast liðið ár. Vaxtaliður Verðlagsgrundvallar hefur á móti lækkað mikið á þessum tíma og unnið þannig á móti hækkunum annarra liða. Nauðsynlegt er að farið verði að nýju yfir forsendur vaxtaliðarins svo að sem raunsönnust mynd fáist af þessum kostnaðarlið í rekstri greinarinnar.


Framleiðsla og sala nautgripakjöts hefur haldist í góðu jafnvægi síðustu mánuði og hafa þessar afurðir náð að halda markaðshlutdeild sinni, þrátt fyrir mikið framboð annara kjöttegunda á markaði. Þarna verður þó einnig vart breytinga í neyslumunstri yfir til ódýrari vöruflokka,og að innflutningur hefur dregist mjög saman. Engar breytingar hafa orðið á verði til framleiðenda síðustu tvö ár og á síðustu tíu árum hefur verð til framleiðenda lækkað um fjórðung að raungildi. Miklar hækkanir á aðföngum einkum áburði síðustu ár hittir þessa framleiðslu mjög illa fyrir og því er ljóst að afkoman fer hraðversnandi.


Þegar ljóst var s.l. sumar að stjórnvöld hygðust leggja fram tillögu um aðildarumsókn að ESB ákváðu Landssamband kúabænda og Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði að hafa samvinnu við úrlausn þeirra verkefna sem sköpuðust vegna þessa. Skipaður var verkefnahópur um málið sem í eiga sæti fulltrúar beggja aðila, auk þess sem Þórólfur Sveinsson, fyrrverandi formaður LK, var ráðinn. Fyrsta verkefni hópsins var síðan umfjöllun um þingsályktunartillögur þess efnis að Ísland sækti um aðild að ESB.  Var Alþingi send greinargerð vegna málsins og lagt fram minnisblað á fundi utanríkismálanefndar, þar sem mælt var eindregið gegn aðildarumsókn. Niðurstaða Alþingis var þó önnur þar sem tillaga meirihluta Utanríkismálanefndar um aðildarumsókn að ESB var samþykkt. Síðan þá hefur framkvæmdastjóri LK tekið sæti sem fulltrúi BÍ í samningahópi um landbúnaðarmál og starfi verkefnahópsins komið í ákveðinn farveg.


Engum vafa er undirorpið að þessi ákvörðun íslenskra stjórnvalda, er einhver sú stærsta sem tekin hefur verið hin seinni ár. Það hlýtur því að vekja athygi að ákvörðunin er tekin á sama tíma og stjórnsýsla og atvinnulíf landsins háir harða baráttu við endurreisn efnahagslífsins. Samhliða þessu er mikill niðurskurður á fjárlögum sem augljóslega mun veikja stjórnsýsluna í þessu vandasama verkefni.

 

Hvað er það sem ræður ákvörðun af þessu tagi? Menn hafa einna helst nefnt gjaldmiðlamál, þó er flestum ljóst að langur tími mun líða þar til við fáum að taka evru upp sem gjaldmiðil. Eru kannski til aðrar lausnir í því máli? Hefur verið fullreynt að ná samkomulagi við ESB um samstarf í efnahags og peningamálum á grundvelli EES samningsins? Er ekki nærtækara að reyna það fyrst?

 

Bændasamtökin hafa árum saman safnað upplýsingum um uppbyggingu og regluverk Evrópusambandsins. Út frá þeim upplýsingum er ljóst að störfum í landbúnaði og tengdum greinum mun stór fækka við aðild og leiða til mikillar röskunar í þeim byggðum þar sem landbúnaður er undirstöðu atvinnugrein. Sú vinna sem fram hefur farið frá hendi verkefnahóps LK og SAM leiðir það sama í ljós. Niðurfelling tolla mun leiða af sér verulegan markaðs samdrátt íslenskra mjólkurafurða og þar með munu núverandi rekstarforsendur greinarinnar bresta. Verst er þó að aðildarumsóknin sem slík skapar óvissu í starfsumhverfi greinarinnar, því ekki mun liggja fyrir fyrr en við undirskrift, hvað leynist í mjölpoka aðildarsamningsins. Þetta eitt dugar til að draga þróttin úr nauðsynlegri endurnýjun og framþróun þann tíma sem aðildarferlið stendur. Eðlilegast væri að stjórnvöld drægju umsóknina til baka, en meðan svo er ekki eru fáir kostir aðrir en að vinna áfram að þessu máli, svo hagsmuna landbúnaðrins verðigætt. Algjör samstaða bænda er lykil atriði í þessu verkefni.

 

Á síðasta aðalfundi var tekin til umfjöllunar samantekt vinnu stefnumörkunarhóps LK sem þá hafði starfað undangengin misseri. Í einni af ályktunum fundarins um þetta efni segir m.a. eftirfarandi.


„Gera verður ráð fyrir að í framtíðinni lendi innlend búvöruframleiðsla  í stóraukinni samkeppni við innflutning. Það gæti gerst á a.m.k. á þrennan hátt:
• Með aðild að ESB. Aðild myndi að öllum líkindum hafa í för með sér tollfrjálsan innflutning  á búvörum og ólíklegt að útflutningstækifæri, styrkjakerfi ESB og stuðningur innanlands dugi til að framleiðslan haldist í svipuðu horfi og verið hefur.
• Með WTO-samningum. Ef samningar nást munu þeir örugglega auka aðgengi erlendrar búvöru að íslenskum markaði.
• Óháð alþjóðasamningum er óvarlegt að gefa sér að pólitískur vilji sé ævarandi fyrir því að viðhalda sömu innflutningsvernd og verið hefur.


Undir þessa framtíðarsýn þurfa íslenskir kúabændur að búa sig með því að auka samkeppnishæfni sinnar framleiðslu. Það þarf að gerast bæði heimafyrir á búunum sjálfum og með bættu rekstrarumhverfi, s.s. með aðgengi að rekstrarfé á skikkanlegum vöxtum. Þá er hætta á að óvissa um framtíðina hamli uppbyggingu og þróun greinarinnar, ekki síst vegna mikils fasta kostnaðar. Af þeim sökum er m.a. nauðsynlegt að líta til endurskoðunar á kvótakerfinu.“  
Raunin er sú, hvort sem horft er til möguleika okkar í samkeppni utanlands frá eða til arðbærs útflutnings mjólkurafurða, þá er það framleiðslu og úrvinnslukostnaðurinn hér heima sem ræður útkomuni. Því er það svo að ef við ætlum að ná árangri í þessu efni þá  verðum við að horfast í augu við alla þætti rekstarins. Við verðum líka að gera okkur ljóst að eftir því sem gengið er lengra í að efla samkeppnisstöðuna, þá göngum við nær félagslega viðkvæmum þáttum. Við þekkjum viðfangsefnin: Kvótinn, stuðningskerfið, verðlagningar fyrirkomulagið, byggðasjónarmið, nýting fastafjármuna og framleiðslutækja; kúakynið. Það er ekkert nýtt í þessari umræðu.
Í skýrslu Rannsóknarráðs Íslands um “Stöðu og horfur í Íslenskri nautgriparækt segir á blaðsíðu 55.
“Í ljósi jákvæðrar tekjuþróunar tímabilsins veldur fjárfestingastefna búanna vonbrigðum. Rekstri þeirra stafar hætta af miklum fjárfestingum , aukinni skuldsetningu og hækkun fjármagnsliða. Greining á fjárfestingum sýnir, að 50% fjárfestinganna er í vélum og tækjum á tímabilinu. Á árinu 2000 var ráðstafað í heild til fjárfestinga sem nemur 35,26 krónum á lítra greiðslumarks, sem er nánast jafnhá upphæð og hluti afurðarstöðvarverðs. Um 29% fjárhæðarinnar voru greiddar út, en sem nemur 71% voru teknar að láni. Ljóst er að búin hafa kosið að auka skuldabyrði á kostnað eignastöðunar. Mikil fjárfesting leiðir þannig til rýrnunar á höfuðstól og eiginfjárhlutfalli. Framundan er aðhald í rekstri kúabúa. Sér í lagi þurfa búin að gæta aðhalds í fjárfestingum og greiða niður skuldir eins og kostur er”. Þessi skýrsla kom út í október 2001, við vitum öll hvað hefur gerst síðan.


Þegar hafist var handa við stefnumörkunarvinnuna á sínum tíma, var gengið út frá því að núverandi mjólkursamningur rynni út 1. september 2012. Umræður okkar og nálgun á síðasta aðalfundi miðuðust út frá þessum sama veruleika. Síðan þá hefur  samningurinn verið framlengdur til ársloka 2014, en jafnframt hafa stjórnvöld, eins og áður hefur komið fram, sótt um aðild að Evrópusambandindinu. Vinna við stefnumörkun lá síðan niðri mestan part síðasta árs vegna óvissu um framvindu þjóðmála. Í haust var síðan ákveðið að taka þráðinn upp að nýju í samstarfi við Auðhumlu, enda ljóst að hagsmunir mjólkurframleiðenda verða ekki skildir frá vinnslunni. Til verksins var skipaður nýr hópur frá báðum samtökunum og stefnt er að hann skili niðurstöðum eftir mitt ár. Ástæða er til að þakka því fólki sem tók þátt í vinnu fyrri hópsins fyrir framlag sitt, sú vinna sem þar var lögð fram mun nýtast í framhaldinu. Eitt mikilvægasta verkefni þessa fundar er að leggja drög að framhaldi þessarar vinnu.                      


Því verður ekki á móti mælt að þetta fyrsta ár mitt sem formaður LK hefur verið afskaplega annasamt, enda lifum við óneitanlega sérstaka tíma um þessar mundir og að mörgu að hyggja. Ég hef á þessu ári átt samskipti við fjölda fólks á ýmsum vettvangi innan landbúnaðarins sem utan og hafa þau öll verið góð. Fyrir það skal þakkað. Meðstjórnarmönnum  mínum þeim Sigurgeiri Bjarna, Sveinbirni, Guðnýju Helgu og Jóhanni þakka ég gott samstarf sem og varamönnunum Jóhönnu og Gunnari. Síðast en ekki síst fær framkvæmdastjórinn Baldur Helgi sérstakar þakkir fyrir gott samstarf og þolinmæði gagnvart formanni á sínum fyrstu skrefum í nýju starfi.


„Aftur kemur vor í dal“ var yfirskrift nýliðins Búnaðarþings og víst er að aldrei hafa náttúruöflin leikið þessa þjóð svo grátt, að ekki hafi um síðir vorað í íslenskum dölum. Hvort von er betri tíðar í efnahagslífi landsins, er hinsvegar undir okkur sjálfum komið. Ég vil að lokum taka undir orð Steingríms Thorsteinssonar þar sem segir í kvæði hans um komu Vorgyðjunnar.

Og kveð það fyr gumum í gróandi dal
við gullskæra hörpunnar strengi,
um þjóðvorið fagra, sem frelsi vort skal
með fögnuði leiða yfir vengi.
Þá vaxa þar meiðir hvar vísir er nú,
svo verður ef þjóðin er sjálfri sér trú.


Takk fyrir.