
Skrúftappar úr plöntuleifum
06.06.2017
Sænska afurðafélagið Norrmejerier hefur nú hafið sölu á fernum með skrúftöppum sem eru búnir til úr plöntuleifum. Norrmejerier hefur þróað þessa tappa í samvinnu við hið þekkta fyrirtæki Tetra Pak en tilgangurinn var draga úr kolefnisfótspori afurðafélagsins með því að finna umhverfisvænni lausn en notkun á plasttöppum á fernur.
Þetta er í fyrsta skipti í heiminum sem þessi lausn er notuð á fernur en Tetra Pak hafði þegar þróað fernur sem unnar voru að fullu úr plöntuleifum og að fullu niðurbrjótanlegar í náttúrunni. Þessar fernur fjölluðum við um hér á naut.is árið 2015 en það var finnska afurðafélagið Valio sem var fyrst í heiminum til þess að taka fernurnar í notkun. Nú hefur s.s. verið þróaður tappi sem einnig brotnar niður og gerir það að verkum að umhverfisáhrif umbúðanna verða mun minni en ella/SS.