
Skrifstofa matvæla og landbúnaðar sameinuð alþjóðasviði atvinnuvegaráðuneytis
28.09.2018
Atvinnuvega- og nýsköpunarráðuneytið hefur hætt við ráðningu í stöðu skrifstofustjóra á skrifstofu matvæla og landbúnaðar, sem auglýst var 1. júní sl. Þess í stað hefur verið ákveðið að sameina skrifstofu matvæla og landbúnaðar og skrifstofu alþjóðamála undir skrifstofustjóra þeirrar síðarnefndu.“
Þetta kom fram í bréfi sem umsækjendur um starfið fengu sent í gær, 27. september. Þar segir að eftir að ráðningarferlið hófst hafi skipulagsbreytingar verið til umfjöllunar í ráðuneytinu og sameina eigi skrifstofu matvæla og landbúnaðar, sem er ein þriggja fagskrifstofa sem heyra undir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, undir skrifstofu alþjóðamála. Markmið breytinganna sé að „efla stjórnun og samhæfingu, jafna álag og bæta nýtingu starfsfólks. Jafnframt hefur verið ákveðið að ráðast í vinnu við frekari skipulagsbreytingar á næstunni.“ eins og segir í bréfinu.
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtakanna, lýsir yfir verulegum vonbrigðum í samtali við bbl.is og hefur hann miklar áhyggjur af stöðu mála í ráðuneytinu. „Nú nýlega hættu tveir reynslumiklir starfsmenn ráðuneytisins á sviði landbúnaðar og það er alveg ljóst að stjórnsýsla landbúnaðarmála stendur veikari á eftir. Við finnum það sem erum í reglulegum samskiptum við ráðuneytið að þar eru alltof fáir starfsmenn. Það er slæmt fyrir hagsmuni landbúnaðarins.“ Segir Sindri sameiningu skrifstofu matvæla og landbúnaðar við skrifstofu alþjóðamála hljóma undarlega og að ráðherra verði að tala skýrar um framtíðarhlutverk og fyrirkomulag í ráðuneytinu. „Það sýnir kannski forgangsröðun ríkisstjórnarinnar að hún vill koma landbúnaðinum fyrir í skúffu á alþjóðasviði sjálfs atvinnuvegaráðuneytisins.“
Kristján Þór Júlíusson, landbúnaðarráðherra, segir í samtali við mbl.is að ákvörðun um að hætta við ráðningu í embætti skrifstofustjóra matvæla og landbúnaðar í atvinnuvegaráðuneytinu sé liður í því að styrkja stjórnsýslu landbúnaðarmála innan þess eins og kallað hafi verið eftir. Segir hann að með þessu opnist möguleiki á að ráða fleira sérfræðinga til þess að sinna landbúnaðarmálum í ráðuneytinu. „Það sem ég er að gera núna er að ég er að styrkja skrifstofuna með þeim hætti að leggja af eitt skrifstofustarf og færa skrifstofustjóra innan ráðuneytisins til í starfi. Ég geri ráð fyrir að við munum þá ráða einn til tvo starfsmenn í staðinn, sérfræðinga, inn á landbúnaðarskrifstofuna í staðinn til viðbótar við það góða fólk sem þar er fyrir ásamt því að færa til verkefni og mannskap inni í ráðuneytinu til enn frekari styrkingar.“
Sigurður Páll Jónsson, þingmaður Miðflokksins, hefur óskað eftir fundi í atvinnuveganefnd vegna málsins.