Beint í efni

Skrifað undir nýjan mjólkursamning í hádeginu í dag

10.05.2004

Í dag skrifuðu samninganefnd bænda, fjármálaráðherra og landbúnaðarráðherra undir nýjan mjólkursamning, með fyrirvörum um samþykki Alþingis og kúabænda landsins. Samningurinn er að nokkru leiti frábrugðinn fyrri samningi, en helstu atriði eru:

1.      Samningurinn gildir frá 1.9.2005 til 31.8.2012.

 

2.      Samningurinn gerir ráð fyrir óbreyttri framleiðslustýringu með ákvörðun heildargreiðslumarks sem byggir á innanlandssölu. Einnig eru óbreytt ákvæði um að heildargreiðslumark skiptist í greiðslumark lögbýla.

 

3.      Samningurinn gerir ráð fyrir óbreyttum ákvæðum um  skiptingu beinna greiðslna milli handhafa greiðslumarks.

 

4.      Sú breyting er gerð að beinar greiðslur lækka úr 100 % af stuðningi nú, í 80 % af heildarstuðningi í lok samningstímans.

 

5.      Greiðslumark hvers lögbýlis verður óbreytt hlutfall af heildargreiðslumarki.

 

6.      Gengið er út frá óbreyttum lagaákvæðum um viðskipti með greiðslumarkið. Til umræðu er að endurskoða reglur um framkvæmd aðilaskipta.

 

7.      Sú breyting er gerð að framlög ríkisins verða ein upphæð í upphafi samnings. Sú upphæð er verðtryggð frá 1.1.2004. Breytingar á verði mjólkur og breytingar á heildargreiðslumarki hafa ekki áhrif á framlögin. Þetta er breyting frá núverandi skipan.

 

8.      Upphafsviðmiðun fyrir stuðninginn er sambærileg upphæð og nemur beinum greiðslum nú. Eftir fyrsta ár hins nýja samnings lækkar stofnupphæðin um 1 % á ári til loka samningsins.

 

9.      Stuðningurinn tekur mánaðarlegum breytingum með vísitölu neysluverðs og er það nokkur sárabót á móti lækkun stofnupphæða. Vonandi verður hægt að bregða upp dæmum um líkleg/hugsanleg áhrif þessa á kynningarfundunum sem haldnir verða nú á næstunni.  Þó skal bent á hér að tafla 1 í samningnum gjörbreytist ef reiknuð eru inn í hana áhrif verðtryggingar í 3 til 5 % verðbólgu.

 

10.  Teknar verða upp greiðslur til kynbótastarfsins í nautgriparæktinni. Á móti á ,,auragjaldið“ sem samlögin innheimta, að falla niður.

 

11.  Teknar verða upp gripagreiðslur, sem verða þrepaskiptar eftir fjölda gripa. Óskertar á fyrstu fjörutíu kýrnar en enginn stuðningur greiddur á kýr umfram hundrað. Réttur lögbýlis til gripagreiðslna fer síðan lækkandi ef kúafjöldi fer yfir 170, og fellur niður ef kýr verða fleiri en tvöhundruð. Að öðru leyti er stuðningurinn óháður bústærð eins og verið hefur.

 

12.  Eftir er að gera samning um ráðstöfun á hluta þess fjár sem kemur til útgreiðslu frá og með 2007/2008 og út samningstímann. Þeirri samningsgerð skal lokið fyrir 1.9.2006. Þarna er m.a. gert ráð fyrir einhverjum greiðslum út á ræktun. Í umræðum um þetta atriði hefur gjarnan verið talað um ,,brotið land“. Þá er horft til þess að styðja endurræktun, grænfóðurræktun og kornrækt. Hugsanlega næst einnig samkomulag um skólamjólkurverkefni sem gæti fallið undir þennan lið.

 

13.  Verðlagning mjólkur verður með óbreyttum hætti, nema um annað verði samið á samningstímanum. Gerðar verða breytingar á lögum þannig að samningsaðilar geti samið um það sín á milli að hætt verði að ákveða lágmarksverð mjólkur til framleiðenda, enda þótt heildsöluverð verði áfram ákveðið af verðlagsnefnd.

 

14.  Samningurinn er gerður með fyrirvara um alþjóðasamninga. Sú grein er hans er þannig: ,,Samningur þessi er gerður með fyrirvara um hugsanlegar breytingar á þjóðréttarlegum skuldbindingum Íslands sem kunna að leiða af niðurstöðum samningaviðræðna á vettvangi Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar. Þegar yfirstandandi samningaviðræðum innan WTO lýkur skal samningur þessi endurskoðaður þannig að stuðningsfyrirkomulag ríkisvaldsins við íslenskan landbúnað rúmist hverju sinni innan þeirra heimilda sem skuldbindingar Íslands á vettvangi WTO kveða á um“.

 

Smelltu hér til að lesa samninginn í heild