Beint í efni

Skosku holdanautakynin ná ekki að keppa við Mið-Evrópukynin

07.07.2011

Í ferð bænda um Skotland nú á dögunum, í tilefni af sýningunni Royal Highland Show, var farið í fjölmargar heimsóknir til þarlendra bænda. Athygli vakti á ferð hópsins um Skotland, stórar hjarðir holdakúa af Mið-Evrópukyni og mun færri, en búist hafði verið við, af enskum eða skoskum uppruna.

 

Á þremur búum sem voru heimsótt voru einmitt m.a. holdakýr en enginn bændanna var með bresk kyn, heldur Charolai og Simmental kýr. Aðspurðir um skýringuna á þessu og þeirri staðreynd að svo virtist sem hin gömlu og þekktu kyn væru á útleið, sögðu bændurnir að vaxtargeta hinna skosku og ensku gripa væri einfaldlega miklu minni en hinna. Algengt væri í dag að slátra graðnautum við 12-14 mánaða aldur og væru þau þá 700-750 kg. á fæti eða 320-350 kg. í fallþunga! Slíka vaxtargetu væri ekki hægt að ná nema með öflugum stórum gripum með mikla gróffóðurnýtingareiginleika og mjólkurlagni eins og t.d. Simmental er í dag. Auk þess væri bæði Simmental og Charlolai mun skapbetri en t.d. Angus og því auðveldari í meðhöndlun.

 

Þess má geta að bændur sem senda naut í slátrun sem eru þyngri en 400 kg/fallið fá ekkert fyrir aukakílóin, þ.e. umfram 400 kg. Það er skýringin á hinum unga aldri við slátrun/SS.