Beint í efni

Skólamjólkurverkefni Fonterra skilar árangri

18.01.2017

Niðurstöður rannsóknar á vegum háskólans í Auckland í Nýja-Sjálandi sýna að 12% fleiri börn í landinu ná nú ráðlögðum dagsskammti af næringarefnum eftir að þarlenda samvinnufélagið Fonterra byrjaði með svokallað skólamjólkurverkefni í landinu. Verkefnið snýst um að kynna mjólkurvörur í skólum landsins en í Nýja-Sjálandi er börnum ráðlagt að neyta 250 ml. mjólkur á dag eða 150 grömmum af jógúrti. Því fór fjarri að þetta viðmið næðist á landsvísu og því var skólamjólkurverkefnið sett af stað en það felst í því að börnin fá mjólk að drekka með máltíðum í skólum landsins.

Það sem niðurstöðurnar sýna núna er að börn sem hafa vanist mjólkurdrykkju í skólunum drekka einnig meira af mjólk um helgar, nokkuð sem þau gerðu ekki áður. Fyrir vikið fá nú fleiri börn uppfylltar þarfir sínar fyrir nauðsynleg prótein, vítamín og steinefni. Frá því að Fonterra hóf þetta verkefni hefur félagið afhent rúmlega 70 milljónir af drykkarfernum í grunnskóla landsins/SS.