Beint í efni

Skólamjólkurdagurinn í 17. skipti

17.09.2016

Sautjándi alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn verður haldinn hátíðlegur víða um heim þann 28. september næstkomandi en það er stofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO (Food and AgricultureOrganization) sem hvetur til hátíðarhalda á þessum degi ár hvert og á Íslandi er haldið upp á hann undir kjörorðunum “Holl mjólk og heilbrigðir krakkar”.

Með deginum vill Fræðslunefnd mjólkuriðnaðarins vekja athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægi mjólkur í daglegu fæði barnanna. Í tilefni dagsins verður þeim leik- og grunnskólum sem óska eftir að taka þátt í deginum boðið upp á mjólk á Skólamjólkurdaginn, miðvikudaginn 28. september og fá allir skólastjórnendur í skólum landsins sendar upplýsingar um hvernig þeir skuli bera sig að ef þeir vilja taka þátt og þiggja mjólk fyrir nemendur sína þann dag. Á undanförnum árum hafa í kringum 70.000 íslensk skólabörn drukkið um og yfir 16.000 lítra af mjólk þennan eina dag.

 

Eins og undanfarin ár er, í tengslum við Skólamjólkurdaginn, hleypt af stokkunum teiknisamkeppni sem öllum nemendum 4. bekkjar er boðið að taka þátt í. Sem fyrr er myndefnið frjálst en má gjarnan tengjast mjólk, hollustu og heilbrigði. Þessi keppni hefur notið mikilla vinsælda undanfarin ár, bæði meðal nemenda og kennara og margir skólar leggja mikinn metnað í hana, en þess má geta að í síðustu keppni bárust um 1.300 myndir í hús frá 71 skóla, en það er um 300 myndum meira en árið áður. Dómnefnd skipuð menntamálaráðherra og fulltrúum frá Mjólkursamsölunni velur svo 10 bestu myndirnar sem í framhaldinu eru verðlaunaðar með 40.000 kr. sem renna í bekkjarsjóð teiknaranna og því til mikils að vinna fyrir krakkana. Auk þess verða vinningsmyndirnar notaðar til myndskreytingar á veggspjöld og annað kynningarefni vegna Skólamjólkurdags næsta árs.  Skilafrestur í teiknisamkeppninni er til 20. desember 2016 og skal skila myndunum á A-3 blaði en hægt er að skoða myndir sem áður hafa unnið til verðlauna á www.skolamjolk.is /SS-fréttatilkynning.