Beint í efni

Skólamjólkurdagurinn á morgun!

23.09.2003

Á morgun verður haldið upp á fjórða alþjóðlega skólamjólkurdaginn víða um heim, en hann er ávalt haldinn síðasta miðvikudag í september ár hvert. Markaðsnefnd mjólkuriðnaðarins ákvað að taka upp þessa góðu hefð og verður haldið upp á daginn hér eftir.

 Í tilefni dagsins verður grunnskólabörnum á Íslandi boðið upp á mjólk í skólanum, en börnin eru um 45 þúsund. Þá verður jafnframt á morgun haldin ráð stefna um mikilvægi mjólkur fyrir börn. Meðal fyrirlesara eru m.a. frú Vigdís Finnbogadóttir og Dr. Michael Griffin, yfirmaður hjá matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna og hugmyndasmiður alþjóðlega Skólamjólkurdagsins.

 

Alþjóðlegi Skólamjólkurdagurinn er haldinn til að stuðla að aukinni mjólkurneyslu ungs fólks enda hefur mjólkurdrykkja barna og unglinga dregist verulega saman víða um heim á síðustu árum, þar á meðal hér á landi.  Hart er sótt að mjólkinni og mikið drukkið af alls konar söfum, saft, djúsi og gosdrykkjum.  Mjólk er mjög próteinrík og auk þess mikilvæg uppspretta 11 lífsnauðsynlegra vítamína og steinefna í fæðunni.  Sérstaða mjólkur felst þó fyrst og fremst í því hve góður kalkgjafi hún er en kalk er mjög mikilvægt fyrir byggingu beina.  Vart er því hægt að hugsa sér betri og næringarríkari drykk en mjólk til að gefa börnum og unglingum og full ástæða til að hvetja þau til að auka mjólkurneyslu sína.

 

Einkunnarorð dagsins eru:  Mjólk er máttur!