Skólamjólkin sækir á í samkeppni við safa og gosdrykki
30.09.2009
Skólabörn á Íslandi drekka 4% meiri mjólk en í fyrra eftir að byrjað var að bjóða ískalda mjólk úr sérstökum mjólkurkælum Mjólkursamsölunnar í skólum landsins. Í dag, 30 september, býður Mjólkursamsalan öllum 50 þúsund grunnskólabörnum landsins endurgjaldslaust uppá mjólk í grunnskólum í tilefni af Skólamjólkurdegi matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna. Dagurinn er haldinn hátíðlegur hér undir kjörorðunum „Holl mjólk og heilbrigðir krakkar“. Reikna má með því að krakkarnir drekki um 12 þúsund lítra af mjólk í skólanum þennan dag .
Með skólamjólkurdeginum vill íslenskur mjólkuriðnaður vekja athygli barna, foreldra og starfsfólks skólanna á mikilvægi mjólkur í fæði barnanna. Mjólkurneysla barna og unglinga hefur dregist verulega saman víða um heim á síðustu árum, þar á meðal hér á landi. Hart hefur verið sótt að mjólkinni með markaðssetningu og sölu alls kyns safa og gosdrykkja. Aukin neysla mjólkur í skólum landsins er til marks um að hægt er að snúa þessari þróun við.
Mjólk er mjög próteinrík og auk þess mikilvæg uppspretta 14 lífsnauðsynlegra vítamína og steinefna í fæðunni. Sérstaða mjólkur felst meðal annars í því hve góður kalkgjafi hún er, en kalk er mjög mikilvægt fyrir byggingu beina, ekki síst á uppvaxtarárum. Mjólkin er einnig rík af öðrum steinefnum sem hafa margvísleg hlutverk í líkamanum, svo sem kalíum, magníum, fosfór og sink. Vart er hægt að hugsa sér næringarríkari drykk en mjólk til að gefa börnum sínum og unglingum og full ástæða til að hvetja þau til að auka mjólkurneyslu sína.
Samtímis því að skólamjólkurdagurinn er haldinn hátíðlegur er árlegri teiknisamkeppni hleypt af stokkunum. Öllum nemendum 4. bekkjar er boðið að taka þátt í samkeppninni. Myndefnið er algjörlega frjálst en æskilegt er að myndefnið tengist hollustu mjólkurinnar fyrir ungt fólk.
Nánari upplýsingar veitir: Baldur Jónsson, verkefnastjóri hjá MS, í síma 892-4913
Fréttatilkynning frá MS