Beint í efni

Skipting á sæðingafjármunum búnaðarlagasamnings endurskoðuð

02.08.2011

Síðasti aðalfundur Landssambands kúabænda samþykkti svofellda tillögu varðandi útdeilingu fjármuna úr búnaðarlagasamningi til sæðingastarfseminnar: „Aðalfundur Landssambands kúabænda haldinn á Akureyri dagana 25.-26. mars 2011 hvetur stjórn BÍ að hlutast til að þeim fjármunum sem úr Búnaðarlagasamningi koma og ætlaðir eru til kynbótastarfs í nautgriparækt verði deilt út með það að leiðarljósi að jafna kostnað við kúasæðingar.“ Í kjölfar þessa unnu Magnús B. Jónsson, nautgriparæktarráðunautur BÍ og Baldur H. Benjamínsson, framkvæmdastjóri LK, tillögu að breyttri útdeilingu þessara fjármuna, sem stjórn Bændasamtaka Íslands afgreiddi á fundi sínum í júní sl. Áður var skipting þessara fjármuna í grófum dráttum þannig, að um þrír fjórðu hlutar voru greiddir eftir sk. stöðugildaskiptingu frjótækna, sem verið hefur í gildi um áratugaskeið, afgangurinn, um 25%, var greiddur út eftir fjölda sæðinga á hverju búnaðarsambandssvæði.

Samkvæmt búnaðarlagasamningi eru framlög í þennan málaflokk 30,8 m. kr. á yfirstandandi ári. Tillaga að nýrri skipan mála er á þá leið, að 65% fjármunanna verði greidd út skv. stöðugildaskiptingunni, 20% verða greidd út á akstur á dreifbýlli svæðum, þar sem akstur pr. sæðingu er >20 km (hann er að jafnaði 28 km, frá 15 upp í 51 km), 10% skv. fjölda sæðinga og 5% fjármunanna verði nýttir til að þjálfa staðbundna verktaka á dreifbýlli svæðum. Það er mat þeirra sem að tillögunni standa, að með þessu sé komið til móts við mismunandi aðstæður á einstökum svæðum, án þess þó að taka í burtu þá hvatningu sem er og þarf að vera, til að skipuleggja starfsemina sem hagkvæmast og efla sem mest sæðingastarfsemina í viðkomandi landshluta./BHB