Beint í efni

Skilvirkni efnagreininga Landbúnaðarháskólans verði í lagi!

13.05.2005

Landssamband kúabænda hefur farið þess á leit við Landbúnaðarháskólann að skólinn tryggi skilvirkni efnagreininga. Margir kúabændur hafa kvartað yfir löngum tíma sem liðið hefur frá því þeir senda frá sér sýni og þar til niðurstaða liggur fyrir. Í dag geta sýnin í raun tafist á nokkrum stöðum í kerfinu s.s. hjá búnaðarsambandi, á Hvanneyri og svo að lokum á Keldnaholti. Vegna þessa

máls sendi LK Landbúnaðarháskólanum eftirfarandi áskorun:

 

„Undanfarin ár hafa margir af umbjóðendum Landssambands kúabænda kvartað til sambandsins vegna tafa við afgreiðslur á niðurstöðum hirðingar- og heysýna frá LBH og RALA. Oft hafa bændur hafið gjöf á viðkomandi fóðri löngu áður en greiningar skila sér til baka og því ómögulegt að gera raunhæfar fóður- og fóðrunaráætlanir. Á undanförnum árum hafa afurðir mjólkurkúa aukist umtalsvert og við slíkar breytingar er enn mikilvægara en áður var að efnainnihald þess fóðurs sem notað er á hverjum tíma sé þekkt og að kúabændum sé tryggð sú þjónusta á þeim tíma sem þörf er á vegna fóðrunar yfir  innistöðuna. Hækkandi afurðastig mjólkurkúa krefst aukinnar nákvæmni í fóðrun og því er meiri þörf en áður var að kúabændum verði nú þegar boðið upp á fleiri mælistærðir en gert hefur verið í hefðbundinni fóðurefnagreiningu líkt og starfsbræðrum kúabænda er boðið upp á í nágrannalöndum okkar.

 

Nú hafa efnagreiningarnar sameinast undir eina stjórn í LBHÍ og því horfa kúabændur til stórbættrar skilvirkni þessara mála. Ljóst má vera að fyrstu hirðingarsýnin í ár verða tekin um næstu mánaðarmót eða þar um bil og því skammur tími til stefnu. Jafnframt liggur fyrir að nokkur búnaðarsambönd (t.d. Búnaðarsamband Eyjafjarðar og Búnaðarsamband Suðurlands) munu í ár hvetja kúabændur landsins til töku hirðingarsýna m.a. með því að senda kúabændum á viðkomandi starfssvæði poka til sýnatöku, merkimiða og tilheyrandi eyðublöð. Ætla má að fjöldi hirðingarsýna muni vaxa þessu samhliða og því enn brýnna en áður að LBHÍ verði tilbúið að takast á við þetta verkefni af festu. Í þessu sambandi vill LK benda á eftirfarandi atriði sem telja má líkur á að auðveldi skipulag málanna:

 

1. LBHÍ geri þjónustusamninga við búnaðarsamböndin í landinu þess efnis að ábyrgðin á efnagreiningunum verði beggja. Búnaðarsamböndin tryggi festu og hraða við að koma sýnunum til efnagreininga og LBHÍ að sama skapi greiningar og skil niðurstaðna.

 

2. Settur verði fram og kynntur, t.d. í Bændablaðinu, sá ferill sem nær yfir greiningar sýna og bændum tryggð skil niðurstaðna ákveðnum vikum eftir skil sýnanna til LBHÍ. Gangi þetta ferli ekki eftir, verði bændum boðið lækkun kostnaðar enda ljóst að gagnsemi niðurstaðnanna dalar eftir því sem lengra líður á fóðrunartímann.

 

3. Bændur verði hvattir til þess að skila sýnum til greininga fyrr en verið hefur, enda sjáanlega mikill kostur ef næst að koma í greiningu fyrstu sýnum fyrir sumarleyfi starfsmanna rannsóknarstofa LBHÍ

 

4. Þá er afar brýnt að bændur fái upplýsingar um trénisinnihald fóðursins sem ekki hefur verið greint í raðgreindum sýnum til þessa. Trénisinnihald gefur mikilvægar upplýsingar til bóndans um flæðihraða og fleira og þrátt fyrir það að nýtt fóðurmat sé væntanlegt og muni ná yfir þennan þátt, er enn brýnt að fá þessar upplýsingar.“