Beint í efni

Skila þarf inn umsóknum um fjárfestingastuðning á morgun

30.03.2017

LK minnir á að skilafrestur umsókna um fjárfestingastuðning í nautgriparækt rennur út á morgun. Umsóknum skal skila inn rafrænt í Þjónustugátt Matvælastofnunar eigi síðar en 31. mars vegna framkvæmda á árinu. Vakin er athygli á að umsóknum skal fylgja framkvæmda- og kostnaðaráætlun, ef um byggingu sé að ræða skulu fylgja teikningar.

Matvælastofnun annast úthlutun fjárfestingastuðningsins. Fjárfestingastuðningur fyrir hvern framleiðanda getur að hámarki numið 40% af stofnkostnaði ef heildarkostnaður fer yfir eina milljón króna. Hver framleiðandi getur þó ekki fengið hærra framlag árlega en 10% af heildarframlögum stuðningsins samkvæmt fjárlögum. Heildarframlög stuðningsins fyrir árið 2017 er 193 milljónir króna.

Markmið stuðningsins er að hraða því að framleiðendur standist kröfur skv. reglugerð um velferð nautgripa nr. 1065/2014. Stuðningurinn er veittur bæði vegna nýframkvæmda og endurbóta á eldri byggingum sem stuðla að hagkvæmari búskaparháttum, bættum aðbúnaði nautgripa og aukinni umhverfisvernd. Hægt er að lesa nánar um skilyrði umsóknar hér í kafla VII.