
Skila skal haustskýrslum fyrir lok vikunnar
18.11.2016
Matvælastofnun minnir á að frestur til að skila haustskýrslu rennur út sunnudaginn 20. nóvember. Matvælastofnun hefur sent þeim sem eru skráðir umráðamenn/eigendur búfjár tölvupóst eða bréf þar sem minnt er á að samkvæmt lögum um búfjárhald nr. 38/2013 skulu umráðamenn búfjár skila árlegri haustskýrslu fyrir 20. nóvember um búfjáreign, fóður og landstærðir. Eins og síðustu ár skal skrá haustskýrslu með rafrænum hætti á vefsíðunni Bústofni, á vefslóðinni www.bustofn.is.
Vakin er athygli á skyldu eigenda hesta, jafnt í þéttbýli sem dreifbýli, að þeir skili inn tölum yfir fjölda hrossa í eigu þeirra. Búfjáreigendur sem ekki eru skráðir í Bústofn er bent á að hafa samband við dýraeftirlitsmenn eða Búnaðarstofu sem annast nýskráningar og leiðréttingar. Þeir umráðamenn/eigendur búfjár sem ekki hafa tök á því að skila sjálfir í gegnum Bústofn er einnig bent á að Ráðgjafarmiðstöð landbúnaðarins (RML) veitir aðstoð við að ganga frá haustskýrslu. Fyrir þá þjónustu er innheimt samkvæmt gjaldskrá RML.
Matvælastofnun vekur athygli á að haustskýrsluskil eru grundvöllur stuðningsgreiðslna sem og undirstaða hagtalna í landbúnaði. Búfjáreigendur eru minntir á að Matvælastofnun skal fara í skoðun til þeirra umráðamanna búfjár sem ekki skila inn fullnægjandi upplýsingum í haustskýrslu og er slík heimsókn framkvæmd á kostnað umráðamanns/SS-af vef MAST.