Beint í efni

Skil á vorbókum 2008 í sauðfjárrækt

27.06.2008

Verulegur hópur skýrsluhaldara í sauðfjárrækt skilar enn skýrslum sínum til úrvinnslu í handskrifuðum fjárbókum, þó að hópurinn sem vinnur sitt skýrsluhald sjálfur í hinum miðlæga gagnagrunni Fjarvis.is stækki með hverjum degi. Þar til viðbótar er umtalsverður hópur sem líkt og áður notar forritið Fjárvísi fyrir einkatölvur til að skila skýrsluhaldi fyrir bú sitt á rafrænan hátt.
   Rétt er að vekja athygli á því að skýrslubókum fyrir handfærðar skýrslur var breytt á síðasta ári um leið og skýrsluhald sauðfjárræktarinnar var fært í nýtt uppgjörsumhverfið. Allir sem skila skýrslunum á þessu formi þurfa þess vegna að skila vorbók 2008 með upplýsingum til sauðburðarloka og fá í framhaldinu senda haustbók 2008 til að færa þar upplýsingar á komandi hausti. Ástæða er því til að hvetja alla sem skila skýrsluhaldi sínu á þennan hátt og hafa ekki enn lokið skýrsluskilum að gera það sem fyrst. Hér á vel við það gamla hollráð að því fyrr því betra. Rétt er um leið að minna á það sem áður hefur verið kynnt í Bændablaðinu að senn líður að því að gjaldtaka hefjist vegna skráninga á fjárbókum. Það verður frá 15. júlí eins og þar er kynnt.
   Um leið er rátt að koma því á framfæri að yfirfærsla á skýrsluhaldinu í nýtt uppgjörsumhverfi og lokavinnsla ársins 2007 varð heldur seinna á ferðinni en áætlað hafði verið. Vegna þess verður ekki mögulegt að hefja útsendingu haustbóka 2008 fyrr en um eða eftir miðjan júlí. Það er vegna þess að nýtt BLUP kynbótamat þarf að vinna áður en hægt er að vinna haustbækurnar 2008. Þeir útreikningar geta hins vegar ekki farið fram fyrr en lokavinnslur fyrir árið 2007 hafa verið gerðar.
/JVJ