Beint í efni

Skeljungur birtir áburðarverð – hækkun um 3-9%

09.02.2012

Skeljungur birti í gær verðlista á áburði fyrir árið 2012. Verðlista má sjá með því að smella á hlekkinn hér neðst í pistlinum. Ein tegund, Sprettur N26+S, lækkar örlítið milli ára, um fjórðung úr prósenti, annars er hækkunin á bilinu 3-9%, meiri eftir því sem tegundirnar eru fosfórríkari. Sprettur 27%N hækkar um 3,1%, Sprettur 25-5 + Avail + Se hækkar um 4,3% og Sprettur 20-12-8 hækkar um 7,6%. Að jafnaði er hækkunin 5,7%.   

 

Félagið hefur einnig sent svofellt bréf til bænda:

 

„Kæri viðtakandi

Reykjavík, 8. febrúar 2012

 

Meðfylgjandi er nýr verðlisti þar sem fram koma upplýsingar um framboð af áburði sem viðskiptavinum okkar stendur til boða í ár. Skeljungur býður sem fyrr mikið úrval af áburðinum Spretti frá áburðarframleiðandanum Carrs í Skotlandi. Við bjóðum upp á fjórar tegundir sem innihalda selen, tvær þeirra innihalda einnig Avail sem hefur reynst mjög vel. Skeljungur býður nú upp á mesta úrval landsins af áburði sem inniheldur Selen.

Að gefnu tilefni skal þess getið að framleiðandi okkar, Carrs, er þegar búinn að festa kaup á fosfór sem ætlaður er fyrir Íslandsmarkað og hefur Skeljungur fengið staðfestingu á því að kadmíum-magn í áburðinum verði lægra en 5 mg Cd/kg P, sem er langt undir leyfðum mörkum hér á landi. Til viðbótar við þessa staðfestingu frá Carrs þá mun Skeljungur láta óháðan aðila gera mælingar á áburðinum áður en honum verður dreift og verða þær niðurstöður birtar á heimasíðu Skeljungs um leið og þær berast.

Í lok janúar héldum við vel heppnaða bændafundi í hverjum landsfjórðung í þeim tilgangi að hitta og ræða við bændur. Í ljósi ábendinga sem fram komu á fundunum og góðrar reynslu bænda undanfarin ár, þá verður bætt við einni nýrri áburðartegund sem inniheldur Avail. Þær eru því orðnar 7 talsins. Á fundunum kom fram mikil ánægja með Avail áburðinn og þykir hann henta sérstaklega vel við íslenskar aðstæður. Með þessu bréfi fylgir bæklingur sem skýrir virkni Avail ásamt upplýsingum um selen, dreifigæði og fleira. Við hvetjum bændur til þess að kynna sér efni hans.

Í Spretti sameinast gæði og gott verð og kostir hans eru margir:


• Sprettur inniheldur hágæða hráefni
• Sprettur inniheldur fosfór með mjög miklum vatnsuppleysanleika eða 92 til 95 %
• Sprettur er sigtaður og húðaður, sem lágmarkar ryk
• Sprettur hefur jafna kornastærð sem tryggir jafna og góða dreifingu á áburðinum
• Sprettur inniheldur selen í fjórum tegundum, bæði í tví- og þrígildum áburði
• Sprettur með Avail er nú í sjö tegundum, Avail tryggir betri nýtingu fosfórs sem hraðar sprettu á vorin, flýtir uppskeru og gefur heilbrigðari plöntur og betra fóður.

Við afgreiðum áburðinn á átta stöðum um landið: Þorlákshöfn, Grundartanga, Hvammstanga, Sauðárkrók, Akureyri, Húsavík, Reyðarfirði og Höfn í Hornafirði.

Kær kveðja – áburðarsölumenn Skeljungs „

 

Verðskrá Skeljungs á áburði 2012