Beint í efni

Sjúkdómaskráning er þarfaverk

19.10.2006

Á heimasíðu Bændasamtaka Íslands er brot úr viðtali við Þorstein Ólafsson dýralækni, sem mun birtast í næsta Bændablaði sem út kemur þriðjudaginn 24. október n.k. Þar átelur Þorsteinn seinagang við uppsetningu gagnagrunns til að skrá sjúkdóma og kennir því um að Bændasamtökin, Landbúnaðarstofnun og Landssamband kúabænda vinni að málinu með hangandi hendi. Því er til að svara að LK hefur ítrekað ályktað um nauðsyn sjúkdómaskráningar, nú síðast á aðalfundi 2005. Þá hefur Landssambandið komið að þeirri vinnu sem lögð hefur verið í þetta mál.

Þorsteinn gleymir einu mikilvægu atriði í þessu samhengi, sem eru neikvæð viðbrögð dýralækna sjálfra. Þau hafa ekki orðið til að flýta málinu. Framkvæmdastjóra LK er t.d. í fersku minni fundur um þetta mál með dýralæknum sem haldinn var á Grand Hótel fyrir nokkrum misserum. Þar kom greinilega fram, að áhugi þeirra á þessari skráningu er ekki yfirþyrmandi.

Það má fyllilega taka undir með Þorsteini Ólafssyni um að sjúkdómaskráning er mikið þarfaverk og til margra hluta nytsamleg. Í því samhengi má t.d. benda á, að hinn mikil árangur sem náðst hefur á Norðurlöndunum í ræktunarstarfi heilsufarseiginleika nautgripa, hefur grundvallast á slíkri sjúkdómaskráningu. Þar var hún tekin upp í kringum 1980 og er nú grunnurinn að hinum ört vaxandi útflutningi á erfðaefni sem ræktunarfélögin stunda. Þá er ótalinn sá feikilegi kostnaður sem framleiðslusjúkdómar eins og t.a.m. júgurbólga veldur íslenskum mjólkurframleiðendum. Sá kostnaður mælist í hundruðum milljóna árlega. Skipuleg skráning sjúkdóma mun áreiðanlega verða haldgott tæki í baráttunni við að ná þeim kostnaði niður.