Beint í efni

Sjóðsstreymislíkan vegna greiðslumarkskaupa

26.07.2007

Á heimasíðu BÍ er að finna sjóðssteymislíkan vegna greiðslumarkskaupa. Líkanið hefur Sigurður Eiríksson ráðunautur smíðað. Hægt er að breyta forsendum líkansins eftir eigin aðstæðum, en t.d. breytilegur kostnaður á lítra er mjög mismunandi eftir búum, sem og nythæð kúnna. Þá er kaupverð á greiðslumarkinu að sjálfsögðu mishátt og þau vaxtakjör sem bændum bjóðast.

Líkanið tekur einnig tillit til þess hvort niðurfærsla á greiðslumarki nýtist til lækkunar á skattgreiðslum og hversu hátt hlutfall gripagreiðslna er greitt út á þær viðbótarkýr sem koma til með að framleiða upp í hið keypta greiðslumark. Framangreindir þættir sem breyta má í líkaninu eru því táknaðir með rauðum tölum.

 

Ef gert er ráð fyrir því að verð á greiðslumarki sé 290 kr, vextir 7,7% (kjörvextir verðtryggðra krónulána), að nyt í samlag sé 5.500 lítrar og að viðbótarkýrnar njóti 75% gripagreiðslna (verði á bilinu 41-60 talsins eftir stækkun), kúafjöldi í landinu sé alls 25.500, búið hafi ekki skattalegt hagræði af fjárfestingunni og að breytilegur kostnaður á lítra sé 30 kr, þá tekur rúmlega 8 ár að greiða niður fjárfestinguna, miðað við að allar tekjur af keyptu greiðslumarki fari í að greiða hana niður.

 

Miðað við aðstæður á fjármagnsmarkaði nú, mjög háa vexti á verðtryggðum lánum, kjörvextir hafa hækkað um rúm 50% á rúmlega ári (úr ca. 5,05% í 7,70%) og veiking krónunnar er fyrirsjáanleg og þar með hækkun á greiðslubyrði lána í erlendri mynt, þá sýnist einboðið að besta fjárfestingin sé niðurgreiðsla á skuldum.