Beint í efni

Sjálfvirkar bindingar fyrir básafjós!

23.07.2011

Það þekkja það allir kúabændur með kýr í básafjósum að það getur verið tímafrekt og í sumum tilfellum erfitt að binda kýrnar eftir útiveru. Þá eru til dæmi um að slys hafi orðið á bændum við þetta reglubundna verk. Þessar staðreyndir leiddu til þess að í Svíþjóð var ákveðið að fara í gang með nýtt þróunarverkefni til þess að sjálfvirknivæða þetta verk. Nú hafa verið kynntar til sögunnar bindingar, sem eru nánast sjálfvirkar!

 

Hinar nýju bindingar virka þannig að þegar kýrnar setja hausinn fram á fóðurgang, þá dregst neðsti hluti þeirra yfir band. Við það leggst aftur smá flipi á bindingunni og bandið eða spottinn húkkast inn í miðhluta bindingarinnar (sjá mynd).

 

Bindingarnar hafa verið í prófun hjá kúabændum í Svíþjóð og hafa komið vel út. Með einu handtaki er mögulegt að losa kýrnar allar í einu og svotil allar kýr (86%) ná einnig að festa sig sjálfar þegar þær koma inn í fjós á ný. Þetta nýja kerfi er að sjálfsögðu mun öruggara í notkun en hefðbundnar bindingar og meira að segja óvant fólk á nú auðvelt með að binda upp kýr! Þess utan sýna mælingar að vinnutíminn við að binda kýr á bása helmingast og á 40 kúa búi svara það til 10 mínútna vinnusparnað á hverjum degi sem svara til einnar viku vinnu á ári!

 

Þessar bindingar geta flestir smíðað sér sjálfir og er hægt að nálgast fínar skýringarmyndir og leiðbeiningar um smíðina á heimasíðu hinnar sænsku bútæknideildar (www.jti.se). Þá er hægt að fá sendar teikningar og nánari leiðbeiningar frá sömu aðilum og má benda áhugasömum um að gera það beint eða fá aðstoð bútækniráðunautar BÍ. Hér fyrir neðan má nálgast frekara efni um sjálfvirkar bindingar fyrir básafjós:

 

Smelltu hér til þess að lesa kynningu á verkefninu og niðurstöðum þess (ath. mjög þungt skjal í niðurhali)

 

Hér er svo skýrsla um sjálfvirkar bindingar (frá árinu 2004)

 

Hér má svo lesa skýrslu um þróun bindingarinnar (frá árinu 2009)

 

/SS