Sjálfvirka hringekjan frá GEA í sölu
29.07.2015
GEA Technology, sem er næst stærsti framleiðandi mjaltatækja í heiminum, hefur nú hafið formlega sölu á sjálfvirkri mjaltahringekju sem kallast DairyProQ og eru kýrnar mjólkaðar í úthring hennar en ekki í innhring eins og hjá DeLaval. Þessi hönnun þykir afar hentug og hafa tilraunir gengið vel með búnaðinn. Í raun er hringekjan byggð upp þannig að hvert pláss í hringekjunni hefur sinn eigin ásetningsarm og er því í raun um að ræða ótal marga litla mjaltaþjóna í einum hring.
Hringekjan hefur verið í nokkur ár í prófun og eru nú þegar fjórar DairyProQ hringekjur í gangi: 2 í Þýskalandi og 2 í Kanada. Margir telja að um hreina byltingu sé að ræða og næsta rökrétta skref í þróun mjaltatækninnar enda afköstin miklu meiri en hefðbundinna mjaltaþjóna. Hægt er að mjólka 200 kýr á klukkutíma með DairyProQ sem eru afköst sem flestir væru sáttir við en alls eru 40 mjaltatæki í hringekjunni/SS.