Beint í efni

Sjálfboðaliðar hafa samband við Bændasamtökin

21.04.2010

Bændasamtökunum hafa borist fyrirspurnir frá ýmsum aðilum, almenningi og félögum sem vilja aðstoða þá bændur sem standa í ströngu um þessar mundir vegna eldgossins í Eyjafjallajökli. Samtökin vilja koma á framfæri kærum þökkum til þeirra sem hafa boðið fram krafta sína, beitarhaga eða húsakost. Hjá Bændasamtökunum hefur verið gripið til þess ráðs að skrásetja upplýsingar um þá sem vilja veita aðstoð með einhverjum hætti. Þær upplýsingar verða notaðar þegar og ef þörf krefur.

Eins og staðan er núna hafa viðbragðsaðilar fyrir austan unnið náið með bændum við að leysa aðkallandi vandamál. Björgunarsveitir, lögregla, ráðunautar og búfjáreftirlitsmenn hafa meðal annarra komið þar við sögu en samkvæmt yfirvöldum hefur allur viðbúnaður vegna náttúruhamfaranna gengið vel.

Skipulagt hjálparstarf með aðkomu almennings er ekki hafið á þeim svæðum sem eru verst leikin vegna ösku og ekki hefur verið ráðist í stórfellda flutninga á búpeningi á milli svæða.

Bændasamtökin leggja áherslu á að eingöngu er verið að safna saman upplýsingum en ekki hafa verið teknar ákvarðanir um skipulagt hreinsunarstarf eða aðrar aðgerðir þar sem almenningur verður kallaður til.

Þeir sem vilja skrá sig á lista hjá Bændasamtökunum er góðfúslega bent á að hringja í síma 563-0300 eða senda tölvupóst á netfangið bella@bondi.is með upplýsingum um nafn, símanúmer og netfang.