Beint í efni

Sitthvað um áhrif hugsanlegrar aðildar Íslands að ESB

21.11.2008

Það er að eðlilegt og nauðsynlegt að velta fyrir sér hver yrðu áhrif þess fyrir Íslendinga ef landið gengi í ESB. Einn þáttur þess máls eru áhrif á framleiðendur og neytendur búvara. Stefnumörkunarhópur Landssambands kúabænda hefur velt þessu fyrir sér, nú síðast á fundi 19. nóvember. Í vor fékk hópurinn Evu Heiðu Önnudóttur til að kynna þá nýútkomna skýrslu um líkleg áhrif aðildar fyrir íslenska neytendur. Sú skýrsla er aðgengileg á vefnum bifrost.is  Þar er skýrslan undir Evrópufræðasetur. Bestu úttektina á þessum málun hvað varðar áhrif á landbúnaðinn er væntanlega að finna í skýrslu starfshóps sem starfaði á vegum Utanríkisráðuneytisins en sú skýrsla kom út 2003 og er aðgengileg á vef ráðuneytisins undir stjr.is.   Stuttar tilvitnanir í umræddar skýrslur fylgja hér á eftir.
 Það er ekki einfalt að draga upp einfalda mynd af þessu flókna viðfangsefni en við getum þó sagt að almennt virðist myndin vera þessi:  Af búgreinunum virðist sauðfjárræktin koma til með að bíða minnsta hnekki ef Ísland gengi í ESB en svína- og alifuglarækt drægist hins vegar mjög verulega saman og líklegt að sama gildi um nautakjötsframleiðsluna. Mjólkurframleiðslan drægist saman en flókið að meta hversu mikið. Það má orða þetta öðruvísi; Afkoma bænda í öllum búgreinum mun versna við aðild Íslands að ESB, það er hins vegar breytilegt eftir búgreinum og eftir því hvernig samningum Ísland myndi ná við inngöngu í ESB. Margfeldisáhrif í gegnum afurðastöðvar og þjónustuaðila eru óljós.

Ekki þarf að fjölyrða um þann mikla áhuga sem nú virðist á því að Ísland sæki um aðild að ESB. Við þessar aðstæður þarf að átta sig sem best á því hvaða úrræði gætu helst dregið úr þeim skaða sem aðild mun hafa á íslenskan landbúnað, í okkar tilviki íslenska nautgriparækt. Það skiptir máli að þær upplýsingar liggi fyrir áður en Ísland mótar samningsmarkmið sín vegna aðildarviðræðna, ef til slíks kemur. Að þessu verkefni verður unnið næstu vikur.

                                           Þórólfur Sveinsson, Ferjubakka II

 

 


Úr skýrslunni  Hverju myndi ESB aðild breyta fyrir íslenska neytendur ?   Höfundar: Eiríkur Bergmann Einarsson og Eva Heiða Önnudóttir.  Útg. 2008.

(Feitletranir Þórólfur Sveinsson)

Samkvæmt skýrslu Hagfræðistofnunnar frá árinu 2004 ætti heildsöluverð á landbúnaðarvörum að lækka við ESB-aðild Íslands. Til dæmis er talið líklegt að heildsöluverð mjólkurafurða frá afurðastöð myndi í það minnsta lækka um 10-15 krónur á lítra. Kindakjöt myndi einnig lækka, en þó minna en mjólk. Áhrif á nauta- og svínakjötsverð eru óljós að hluta til vegna sjúkdómahættu, en verð á svínakjöti hér á landi er 50% hærra samanborið við verð í Svíþjóð. Væntanlega myndi fjarlægðin verja íslenska kjúklingabændur að einhverju leyti fyrir erlendri samkeppni, en líklegt er að ódýr, frosinn kjúklingur yrði fluttur inn til landsins í stórum stíl. Verð á eggjum myndi væntanlega lækka þar sem tiltölulega auðvelt er að flytja þau á milli landa og hér á landi fá eggjabú um það bil helmingi hærra verð fyrir afurðir sínar heldur en í Svíþjóð. Afurðaverð til bænda myndi lækka en þó ekki verða jafnlágt og í öðrum ESB ríkjum. Þetta er vegna þess að víða í Evrópu er stunduð jarðyrkja sem hefur mun lægra afurðaverð heldur en kjötframleiðsla sem Íslendingar stunda í meira mæli.


Úr skýrslunni Íslenskur landbúnaður í alþjóðlegu umhverfi.  Starfshópur á vegum Utanríkisráðuneytisins 2003. 

(Feitletranir Þórólfur Sveinsson)

Innganga Íslendinga í Evrópusambandið (ESB) nú, í samanburði við núverandi
stuðningskerfi ríkisins við landbúnaðinn, mun m.a. leiða til samdráttar og tekjumissis
í landbúnaði og afurðastöðvum. Þessu valda einkum breytingar sem gera má ráð fyrir
að verði á markaðshlutdeild innlendrar framleiðslu og innfluttrar.
Þó eru
samningstækifæri varðandi innlendan stuðning að nokkru marki.
Stefnuákvarðanir Alþjóðaviðskiptastofnunarinnar (WTO), sem að líkindum koma til
framkvæmda eftir 2006, munu líklega breyta öllum viðhorfum í íslenskum
landbúnaðarmálum og m.a. verður þá einnig að endurmeta hugsanleg áhrif ESB og
aðildar Íslendinga að ESB. Jafnframt er ljóst að ESB sjálft mun breytast á þessu sama
tímabili.
Nýlega hefur forysta ESB lokið mikilvægum áfanga með endurskoðun sameiginlegu
landbúnaðarstefnunnar (CAP). Ákveðið hefur verið að draga mjög úr beinum
ríkisstuðningi við búvöruframleiðsluna og mæta því og fækkun starfa, með auknum
stuðningi við byggðaþróun, umhverfisverkefni og aðra nýsköpun á landsbyggðinni.
Enn fremur mun „grænn“ stuðningur koma í stað framleiðslutengingar og
framleiðsluhvata. Væntanlega munu íslensk stjórnvöld reyna svipaðar leiðir og slík
úrræði eru í samræmi við stefnu WTO.
— —
Ef Íslendingar ganga í ESB verður búvörumarkaður hér á landi hluti af innri markaði
ESB með tilheyrandi niðurfellingu tolla. Þessu munu fylgja verulegar lækkanir á verði
til framleiðenda hérlendis.
Reynsla Finna bendir einnig til nokkurrar verðlækkunar til
neytenda.
Hver áhrifin á framleiðslu búvara verða ræðst annars vegar af því hve
miklar þessar verðlækkanir verða og hins vegar hvort auknum styrkjum verður beint
til landbúnaðarframleiðslu og hvernig þeir dreifast milli framleiðenda.
Miðað við núverandi aðstæður má gera ráð fyrir að framleiðsla á mjólkurvörum muni
minnka nokkuð við inngöngu Íslands í ESB og kjúklinga- og svínakjötsframleiðsla
hlutfallslega enn meira. Ætla má að samdráttur verði einnig í framleiðslu og sölu
kinda- og nautakjöts. Þetta veltur þó m.a. á reglum um sjúkdómavarnir og innflutning
á hráu kjöti. Auk þessara greina hefur verið bent á að samdráttur verði í garðyrkju við
inngöngu í ESB.
Til skamms tíma skipti framleiðslumagn miklu varðandi möguleika til að fá styrki
samkvæmt CAP en við nýlega endurskoðun landbúnaðarstefnunnar minnkar slík
tenging verulega. Reyndar er framleiðslumagn, sem grunnur stuðningsaðgerða, einnig
samningsatriði í aðildarsamningum að ESB.
Ólíklegt er að heimildir fáist til að auka heildarstuðning við búvöruframleiðsluna frá
því sem nú er.
Aðild að ESB færir landbúnaðinum aðstoð sem flokkast einkum á þennan hátt:
* Framleiðslutengdir styrkir samkvæmt sameiginlegu landbúnaðarstefnunni, og
fjármagnar ESB þá að fullu. Eftir endurskoðun landbúnaðarstefnu ESB dregur mjög
úr framleiðslutengdum styrkjum en í staðinn koma styrkir ótengdir framleiðslu, sem
þó byggjast á sögulegri viðmiðun.
* Stuðningur við byggðaþróun, samfélög og atvinnusköpun á landsbyggðinni,
svonefndir „grænir“ styrkir. Þessi stuðningur beinist ekki aðeins að landbúnaði, heldur
fremur að búháttabreytingum, framleiðniaukandi verkefnum og annarri atvinnusköpun
á landsbyggðinni.
* Umhverfisstyrkir samkvæmt skilyrðum ESB, en t.d. í Finnlandi fjármagnar ESB
um 55% þeirra.
* Styrkir til harðbýlla svæða (LFA). Í Finnlandi greiðir ESB um 30% þeirra; þess má
vænta að allt Ísland verði flokkað sem harðbýlt svæði.
* Heimildir til norðurslóðaaðstoðar (Nordic aid) líkt og Finnar og Svíar hafa en eins
og þeir verða Íslendingar sjálfir að kosta þessa aðstoð. Semja verður sérstaklega um
þetta, umfang og ráðstöfun.
Miðað við óbreytt stuðningskerfi hér á landi verður að telja að staða íslensks
landbúnaðar væri verri innan ESB en utan þess. Ekki er þó hægt að útiloka að einhver
sóknartækifæri og betri útflutningsmarkaðir geti skapast fyrir íslenskan landbúnað
innan Evrópusambandsins.
Flest bendir til þess að Íslendingar haldi meira sjálfræði til mótunar eigin
landbúnaðarstefnu utan ESB en innan þess. Þessa ályktun má m.a. draga af
niðurstöðum nýrrar skýrslu frá hagfræðideild rannsóknastofnunar landbúnaðarins í
Noregi (NILF). Eftir sem áður verða Íslendingar að fylgja nýjum stefnuákvörðunum
WTO. Innan ESB kynni þó að vera að Íslendingar gætu notfært sér hluta af
heildarsvigrúmi sambandsins til tiltekinna stuðningsaðgerða við landbúnað.
ESB hefur gert samninga í aðildarviðræðum um tímabundinn aðlögunarstuðning og
um sérlausnir vegna staðbundinna aðstæðna. Í sumum tilvikum hafa slíkar sérlausnir
síðan orðið hluti CAP. Til viðbótar þessu koma byggða- og þróunarstyrkir ESB
(Structural Funds), en þeir renna ekki aðeins til þeirra sem stunda landbúnað. Slíkir
styrkir skiptast með allt öðrum hætti milli framleiðenda búvöru en sá stuðningur sem
þeir njóta nú hérlendis í formi tollverndar og styrkja.
Ekki er óhugsandi að Íslendingar geti fengið viðurkennda sérstöðu varðandi
dýraheilbrigði sem varanlega reglu innan ESB. Finnar og Svíar hafa fengið sérstök
svæði viðurkennd sem verndarsvæði en að öðru leyti fengið aðlögunartíma. Malta og
Kýpur hafa einnig fengið viðurkennda sérstöðu á þessu sviði.
Aðildarsamningar Finna og Svía að ESB gera ráð fyrir að þeir megi sjálfir styrkja
landbúnað sinn sem nemur 35% umfram önnur aðildarlönd, en ESB greiðir nú um
40% af heildarstuðningi við finnskan landbúnað. Innanlandsstuðningi Finna er beint
fremur til norðurhéraðanna en til Suður-Finnlands og hækkar eftir því sem norðar
dregur.
Umræður um endurskoðun sameiginlegu landbúnaðarstefnunnar hafa einkum beinst
að því að draga úr heildarstuðningi við atvinnugreinina og minnka tengsl aðstoðar við
framleiðslu og framleiðslumagn, en auka í staðinn framlög til umhverfisverndar,
byggðafestu og búháttabreytinga. Við austurstækkun ESB var samið um
byrjunaraðstoð sem nemur fjórðungi þeirrar aðstoðar við landbúnað sem hingað til
hefur fylgt sameiginlegu landbúnaðarstefnunni. Gert er ráð fyrir að þessi aðstoð hækki
síðan á aðlögunartímabili uns fullum CAP-stuðningi verður náð. Á meðan geta
umsóknarríkin greitt hluta þess sem upp á vantar samkvæmt aðlögunarsamningum. Í
þessu samhengi má einnig geta þess að Malta fær styrki til byggðamála úr síðari stoð
(„byggðastoð“) CAP á tímabilinu 2004 til 2006, en þeir nema 23 milljónum evra.
Meginmarkmiðið er að aðlaga landbúnaðinn breyttum aðstæðum sem skapast við
aðild.
— —
Alþjóðaviðskiptastofnunin (WTO) er drifkraftur í endurskoðun landbúnaðarstefnu á
heimsvísu. Búast má við samningum um minnkandi hindranir gegn innflutningi
landbúnaðarafurða og einnig um strangar takmarkanir á ríkisstuðningi við landbúnað.
Austurstækkun ESB hefur augljós áhrif á viðleitni ESB til að skapa sér samningsstöðu
og til að leggja línur fyrir ríki sem hingað til hafa stutt eigin landbúnað til jafns við
eða meira en ESB.
Heildarstuðningur við landbúnað á Íslandi árið 2000 var meira en 80% af
hámarksheimildum samkvæmt reglum WTO. Ýmislegt bendir til að heildarstuðningur
frá ESB eftir hugsanlega inngöngu Íslands geti orðið tæplega helmingur þeirra
beingreiðslna sem nú eru veittar hér til framleiðenda. Af þeim sökum er ljóst að til
viðbótar þessu munu umsamin viðbótarframlög skipta miklu máli sbr. reynslu Finna.
Auk þess má telja víst að innlendar stuðningsaðgerðir og framlög muni hafa mikla
þýðingu á sviði landbúnaðarmála hvort sem Ísland gerist aðildarland ESB eða ekki.
— —
Í aðalsáttmála ESB eru sérstök ákvæði í 2. málsgrein 299. greinar um sérstöðu
Azoreyja, Madeira og Kanaríeyja og stjórnsýsluhéraða Frakklands utan Evrópu.
Samkvæmt þessum ákvæðum hafa úteyjar og fjarlæg úthéruð ESB víðtæka sérstöðu á
sviði landbúnaðar, fiskveiða o.fl. Þessi sérstaða er hluti aðalsáttmálans en ekki
sértúlkun eða undanþága.
Ekki verður fullyrt að þessi ákvæði gætu átt við um Íslendinga í hugsanlegum
viðræðum við ESB. En samkenni Íslands með þessum úteyjum og úthéruðum eru svo
sterk að efni 299. greinar aðalsáttmála ESB hlýtur að verða eitt af þeim atriðum sem
Íslendingar hafa til hliðsjónar í samskiptum og samningum við ESB í framtíðinni.