
Sindri svarar félagsmálaráðherra varðandi matvælaverð og innflutning matvæla
10.08.2017
Sindri Sigurgeirsson, formaður Bændasamtaka Íslands, svarar á Facebook-síðu sinni hugleiðingum Þorsteins Víglundssonar félagsmálaráðherra um matvælaverð sem hann viðraði á sinni Facebook-síðu á þriðjudaginn síðastliðinn. Félagsmálaráðherra lætur þar uppi skoðanir sínar þess efnis að fátt geti tryggt Íslendingum lægra matvælaverð en aukin samkeppni í landbúnaði – með meiri innflutningi matvæla. Segir hann innkomu Costco sýna fram á þetta.
Svar Sindra fer hér á eftir:
„Félagsmálaráðherra virðist skauta fram hjá því að ástæða þess að Costco sá tækifæri á íslenskum markaði var hin ótrúlega arðsemi í verslun á Íslandi sem var keyrð áfram af hárri álagningu. Sérstaklega hefur þetta átt við um innfluttar vörur eins fram hefur komið í skýrslu sem Bændasamtökin gerðu. Hagar stýrðu markaðnum í krafti einokunarstöðu sem Costco virðist nú vera að brjóta niður að einhverju leyti.
Að því sögðu þá kemur það á óvart að ráðherra ríkisstjórnar sem vinnur að aðgerðaráætlun í loftslagsmálum skuli boða óheftan innflutning á matvælum með tilheyrandi kostnað fyrir umhverfið. Við gerð aðgerðaráætlunarinnar hlýtur að þurfa að horfa til þess hvernig hægt er að stuðla að því að matvörur sé framleiddar sem næst neytendum til þess að lágmarka útblástur vegna flutninga og annan umhverfiskostnað. Gott dæmi um Costco-áhrifin er að Costco selur ekkert íslenskt grænmeti. Það er allt flutt inn. Ef innflutningur á kjöti myndi lúta sömu lögmálum og innflutningur á grænmeti má leiða að því líkum að því að allt kjöt í Costco væri innflutt.
Svo virðist sem félagsmálaráðherra telji að kröfur um dýravelferð, takmarkanir á lyfjanotkun og umhverfisáhrif skipti engu máli skipta svo framarlega sem hægt sé að tryggja lægsta verðið. Það er afar ólíklegt að þær ódýru innfluttu landbúnaðarafurðir sem félagsmálaráðherra vill setja á borð íslenskra neytenda uppfylli þessar kröfur því að matvara sem það gerir kostar meira. Ég á reyndar bágt með að trúa því að þetta sé skoðun ráðherrans, miklu frekar yfirsjón af hans hálfu, því að ef þetta er hans skoðun þá er hann væntanlega líka tilbúinn til að gefa eftir eitthvað af réttindum venjulegs verkafólks og öðru sem auðvitað hefur líka áhrif á vöruverð. Því mun ég seint trúa upp á hann.
Síðan má einnig gagnrýna heimildanotkun ráðherrans. Heimild hans er síðan numbeo.com sem byggir upplýsingum sem notendur skrá sjálfir inn. Ekki ætla ég að draga þær skráningar í efa, en það er allt annað mál að draga af þeim eins víðtækar ályktanir og ráðherrann gerir, án þess að bera þær einu sinni saman við opinber gögn, sem hljóta að vera ábyggilegri heimildir. Skoðanakannanir með sjálfvöldu úrtaki eru sjaldnast taldar merkilegar.“