Beint í efni

Sindri Sigurgeirsson nýr formaður BÍ og konur í meirihluta stjórnar

05.03.2013

Sindri Sigurgeirsson, bóndi í Bakkakoti, er nýr formaður Bændasamtaka Íslands en hann var kjörinn á Búnaðarþingi í dag. Ný stjórn var kosin til næstu þriggja ára og urðu þau tíðindi að í fyrsta sinn eru konur í meirihluta.

Sindri hlaut 31 atkvæði en Guðbjörg Jónsdóttir sem bauð sig fram rétt fyrir formannskjör hlaut 13 atkvæði. Tveir seðlar voru auðir og einn ógildur. 

Átta höfðu gefið kost á sér til stjórnarsetu, en auk formanns sitja sex manns í stjórn Bændasamtakanna.

Úrslit kosninganna urðu þau að Guðný Helga Björnsdóttir á Bessastöðum hlaut 41 atkvæði, Fanney Ólöf Lárusdóttir á Kirkjubæjarklaustri 37 atkvæði, Guðbjörg Jónsdóttir á Læk 36 atkvæði, Þórhallur Bjarnason á Laugalandi 36 atkvæði, Einar Ófeigur Björnsson í Lóni 35 atkvæði og Vigdís M. Sveinbjörnsdóttir á Egilsstöðum 35 atkvæði. Teljast þau sex réttkjörin sem stjórnarmenn Bændasamtakanna til næstu þriggja ára. Björn Halldórsson á Akri hlaut 24 atkvæði og Guðrún Lárusdóttir í Keldudal 21 atkvæði en þau höfðu einnig gefið kost á sér. Aðrir hlutu færri atkvæði.

Uppstillingarnefnd gerði svo tillögu að varamönnum fyrir hvern stjórnarmann og var tillaga nefndarinnar samþykkt. Varamaður Sindra Sigurgeirssonar er Guðmundur Davíðsson í Miðdal, varamaður Guðnýjar Helgu er Guðrún Lárusdóttir í Keldudal, varamaður Fanneyjar Ólafar er Ólafur Þ. Gunnarsson á Giljum, varamaður Guðbjargar er Guðrún Stefánsdóttir í Hlíðarendakoti, varamaður Þórhalls er Jón Magnús Jónsson á Reykjum, varamaður Einars Ófeigs er Jóhannes Ævar Jónsson á Espihóli og varamaður Vigdísar er Skúli Þórðarson á Refstað.


Frá vinstri: Fanney Ólöf, Guðbjörg, Einar Ófeigur, Vigdís, Þórhallur, Guðný Helga og Sindri.