Beint í efni

Sindri Sigurgeirsson gefur kost á sér til formennsku í BÍ

22.01.2013

Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson, sauðfjárbóndi í Bakkakoti í Stafholtstungum og fyrrum formaður Landssamtaka sauðfjárbænda, hefur ákveðið að gefa kost á sér til formennsku í Bændasamtökum Íslands. Nýr formaður verður kosinn á Búnaðarþingi í byrjun mars. Eins og fram hefur komið ætlar Haraldur Benediktsson að láta af formennsku í BÍ á sama fundi en hann skipar nær öruggt þingsæti á lista Sjálfstæðisflokksins í Norðvesturkjördæmi fyrir komandi alþingiskosningar. Sindri segist hafa tekið ákvörðun þessa á grundvelli þess að hann hefur mikla trú á íslenskum landbúnaði og þeim möguleikum sem hann búi yfir. „Ég vil beita mér fyrir því að greinin hafi sem bestar aðstæður til að nýta tækifæri sín og styrkja sig í sessi til framtíðar. Mikið uppbyggingarstarf hefur verið unnið innan Bændasamtakanna undanfarin ár og á því mun ég byggja, nái ég kjöri, auk þess að efla enn frekar samtakamátt bænda í fjölbreyttum búgreinum.“ Sindri segist hafa fengið mikla hvatningu úr röðum bænda til að gefa kost á sér í formannsembættið.

Sigurgeir Sindri er 38 ára, fæddur í Reykjavík en af ættum Skagfirðinga og Dalamanna. Hann er kvæntur Kristínu Kristjánsdóttur og eiga þau tvö börn. Sindri er búfræðingur frá Bændaskólanum á Hvanneyri og hefur verið viðloðandi búskapinn í Bakkakoti í tæpa tvo áratugi. Samhliða búskap hefur hann stundað viðskiptafræðinám við Háskólann á Bifröst. Auk bústarfa hefur Sindri m.a. kennt við LbhÍ á Hvanneyri, rekið fyrirtæki í skólaakstri, er varaþingmaður Framsóknarflokksins og var um þriggja ára skeið formaður Landssamtaka sauðfjárbænda.

 

www.skessuhorn.is greindi frá.