Beint í efni

Síminn með lægsta tilboðið í háhraðanet

04.09.2008

Síminn átti lægsta tilboð í útboði Fjarskiptasjóðs en tilboð voru opnuð í húsnæði Ríkiskaupa fyrr í dag. Tilboð Símans nam 379 milljónum króna en Síminn átti aðild að þremur tilboðum á bilinu 379 milljónir króna til 5 milljarðar króna.

Markmið útboðsins er, sbr. Fjarskiptaáætlun 2005-2010, að allir landsmenn, sem þess óska, hafi aðgang að háhraðanettengingum. Verkefnið er því uppbygging á háhraðanettengingum á þeim stöðum þar sem markaðsaðilar eru ekki eða ætla ekki að bjóða upp á háhraðanettengingar á markaðslegum forsendum, samkvæmt tilkynningu frá Símanum.

Verkefnið felur í sér stuðning vegna viðbótarkostnaðar við uppbyggingu á háhraðanettengingum á skilgreindum stöðum, sem eru lögheimili með heilsársbúsetu og fyrirtæki með starfsemi allt árið þar sem háhraðanettengingar eru hvorki í boði né fyrirhugaðar á markaðslegum forsendum.

Tilboðin verða metin úr frá m.a. hraða við uppbygginguna, gagnaflutningshraða auk tilboðsfjárhæðar. Lægsta tilboð Símans gerir ráð fyrir að uppbyggingin taki 12 mánuði og gerir ráð fyrir að nýta 3G tæknina við uppbygginguna.

/mbl.is greindi frá.