Sigurður Loftsson gefur ekki kost á sér til formennsku fyrir LK
27.02.2016
Sigurður Loftsson ritar nýjan leiðara á naut.is. Í pistilinum fer formaður yfir helstu atriði nýrra búvörusamninga og samspil þeirra við tollasamning Íslands og ESB, tækifæri til bættrar afkomu með öflugri bústjórn, mikilvægi stefnumörkunar landbúnaðarins í umhverfis- og loftslagsmálum og nýjan veruleika í fjármögnun samtaka bænda.
Síðan segir formaður LK: „Aðalfundur Landssambands kúabænda verður settur í ráðstefnusal Íslenskrar erfðagreiningar fimmtudaginn 31. mars n.k. Þann sama dag verður Fagþing nautgriparæktarinnar haldið með þremur málstofum þar sem m.a. verður fjallað um nautgriparækt á tímamótum. Að þessu sinni munum við fá sem aðal fyrirlesara Kees de Koning, forstöðumann Dairy Campus, Leeuwarden í Hollandi og mun hann fjalla um hollenska nautgriparækt, loftlagsáhrif nautgriparæktar og erfðatæknirannsóknir á fóðurnýtingu. Þá munu þau Emma Eyþórsdóttir og Jón Viðar Jónmundsson fjalla um úrval á grunni erfðamarka í nautgriparækt. Á fagþinginu verða auk þess fleiri spennandi erindi þar sem fjallað er um nautakjötsframleiðslu og bútækni. Aðalfundi LK verður síðan framhaldið síðdegis og daginn eftir á Hótel Sögu. Eins og komið hefur fram eru þann 4. apríl n.k. liðin 30 ár frá stofnun Landssambands kúabænda og verður þess minnst með margvíslegum hætti laugardaginn 2. apríl og þá um kvöldið verður síðan árshátíð kúabænda haldinn á Hótel Sögu.
Ágætu lesendur, á komandi aðalfundi verður að venju gengið til kosninga og fólk valið til trúnaðarstarfa fyrir samtökin næsta árið. Mér þykir rétt að geta þess nú að ég mun ekki gefa kost á mér áfram til formennsku fyrir Landssamband kúabænda. „Hratt flýgur stund“ er stundum sagt, en á komandi aðalfundi eru liðin 14 ár frá því að ég var fyrst kjörinn í stjórn samtakanna“. Sigurður Loftsson hefur gengt formennsku í Landssambandi kúabænda frá 2009./BHB