Beint í efni

Sigríður Bjarnadóttir ráðin mjólkureftirlitsmaður á Norður- og Austurlandi

12.06.2013

Sigríður Bjarnadóttir, búfjárfræðingur og ráðunautur hjá Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins hefur verið ráðin mjólkureftirlitsmaður SAM á Norður- og Austurlandi frá 1. september n.k. Sigríður tekur við af Kristjáni Gunnarssyni sem þá lætur af störfum eftir 32 ára starf.

 

Sigríður lauk meistaraprófi í búfjárfræði frá Landbúnaðarháskólanum í Ási í Noregi árið 1993, öðlaðist kennsluréttindi frá Háskólanum á Akureyri árið 2002 og lauk námi í hestafræði frá Landbúnaðarháskóla Íslands og Hólaskóla árið 2010. Hún hefur starfað sem ráðunautur hjá Búgarði á Akureyri frá 2005. Sigríður býr í Hólsgerði í Eyjafjarðarsveit ásamt fjölskyldu sinni. 

 

Landssamband kúabænda býður Sigríði velkomna til starfa á nýjum vettvangi og óskar henni velfarnaðar. Jafnframt eru Kristjáni Gunnarssyni þökkuð framúrskarandi vel unnin störf í þágu íslenskra kúabænda undanfarinn aldarþriðjung./BHB