Setti sýru í tankmjólkina
05.11.2015
Víða erlendis eru gerðar kröfur um að mjólkurtankar séu læstir svo ekki sé hætta á að einhver geti sett eitthvað út í mjólkina og spillt henni. Það að slíkt gerist er sem betur fer afar sjalfdgæft en hefur þó gerst, m.a. í Missisippi í Bandaríkjunum í fyrra. Alfred Thornhill, starfsmanni á kúabúi einu sem sést hér á mynd með fréttinni, hafði þá lent saman við eiganda kúabúsins þar sem hann vann og ákvað Alfred að hefna sín á bóndanum. Tók hann sig til og hellti sýru út í mjólkurtankinn og ætlaði sér þannig að valda bóndanum miklu tjóni með ófyrirsjáanlegum afleiðingum.
Sem betur fer uppgötvuðu aðrir starfsmenn búsins að ekki væri allt með felldu og að mjólkin í tankinum væri ekki í lagi og gátu komið í veg fyrir að mjólkin yrði flutt í afurðastöð. Alfred var umsvifalaust tekinn höndum af laganna vörðum og hefur fengið að dúsa í húsnæði á vegum hins opinbera frá því 28. mars í fyrra. Nú stefnir í að dómur í málinu falli en saksóknari í Missisippi hefur farið fram á hámarks refsingu, 3 ár og greiðslu á 250 þúsund dollurum eða um 32ja milljóna króna í sekt fyrir athæfið. Fullyrða má að um hóflegar kröfur er að ræða enda hefði getað farið mjög illa ef ekki hefði komist upp um athæfið í tíma/SS.