Setningarræða Þórólfs Sveinssonar á aðalfundi 2009
27.03.2009
Stofnfundur Landssambands kúabænda var haldinn 4. apríl 1986. Þennan fund sátu 20 fulltrúar frá 9 félögum kúabænda. Einn af þessum fulltrúum var Oddur Gunnarsson, Dagverðareyri, sem lést hinn 30. nóvember sl. Hann var kjörinn í fyrstu stjórn samtakanna og var í stjórninni til ársins 1994. Oddur var fæddur árið 1943, kona hans var Gígja Snædal og eignuðust þau fjórar dætur. Landssamband kúabænda þakkar Oddi Gunnarssyni samfylgdina og sendir fjölskyldu hans innilegar samúðarkveðjur. Ég bið fundarfólk að rísa úr sætum og votta Oddi þannig virðingu sína.
Nautgriparæktin byggir annars vegar á náttúrulegum ferlum og hins vegar hagfræðilegum lögmálum. Þeir þættir sem snúa að náttúrunni voru okkur hagstæðir á síðasta starfsári. Þannig var sumarið með afbrigðum gott og líklega hefur íslenskt ræktarland aldrei skilað eins miklum og eins góðum forða til næsta vetrar eins og gerðist síðasta sumar. Þetta skiptir mjög miklu máli núna, því að í þessu efnahagsumhverfi þolum við illa aukakostnað vegna erfiðrar veðráttu. Hagrænar aðstæður voru hins vegar mun sviptingasamari og verður komið nánar að því síðar. Gleymum því samt ekki að tekjur kúabænda hafa haldist betur en tekjur margra annarra stétta. Afkomuvandi kúabænda er útgjaldavandi, sem getur vissulega verið mjög erfiður viðureignar, en er samt miklu viðráðanlegri heldur en að missa tekjurnar. Mér finnst skipta miklu að þetta sé ljóst. Þrátt fyrir mikinn skuldavanda einstakra kúabænda og fjölmörg úrlausnarefni, þá er staða nautgriparæktarinnar að mörgu leyti sterk. Tekjuflæðið er nokkuð öruggt og fyrirsjáanlegt, staða varanna á markaði er sterk og öll rök hníga til þess að bankakerfið greiði fyrir áframhaldandi rekstri búanna þar sem sérstök þörf er á því.
Á starfsárinu hafa gerst fjölmargir ánægjulegir atburðir og vil ég sérstaklega nefna tvo þeirra. Annars vegar var haldin glæsileg Landbúnaðarsýning á Suðurlandi, og hins vegar var tekin í notkun ný Nautastöð á Hesti í Borgarfirði. Hvort tveggja til fyrirmyndar og eru þeim sem að stóðu færðar þakkir fyrir.
Okkur fannst víst flestum að síðasti aðalfundur Landssambands kúabænda væri haldinn við óvenjulegar aðstæður. Það sem þá hafði gerst var þó bara eins og létt upphitun fyrir það sem á eftir kom.
Í mörg ár hefur okkur orðið tíðrætt um yfirvofandi áhrif WTO-samninga sem væru rétt handan við hornið. Sl. sumar virtist þetta samkomulag reyndar alveg vera að nást, en niðurstaðan varð þó önnur. Frá sjónarhóli þeirra sem berjast fyrir umræddu samkomulagi er líklega aldrei meiri þörf en nú að þessir alþjóðasamningar náist. Í efnahagsþrengingum verða þjóðernisleg sjónarmið yfirleitt mjög sterk og því þykja mér litlar líkur á að umræddir samningar verði að veruleika alveg á næstunni. Það er hins vegar mikið umhugsunarefni hversu róttækar breytingar það hefði haft í för með fyrir nautgriparæktina ef drögin sem til umfjöllunar voru í sumar hefðu orðið að bindandi samningi.
Sl. haust voru helst líkur á því að Ísland myndi sækja um aðild að ESB árið 2009. Þessi atburðarás breyttist þegar slitnaði upp úr stjórnarsamstarfi Sjálfstæðisflokks og Samfylkingar. Þó svo fjórar vikur séu langur tími í stjórnmálum, þá gæti nú stefnt í samstjórn Samfylkingar og Vinstrihreyfingarinnar- græns framboðs eftir kosningar. Eftir Landsfundarályktun þess síðarnefnda, sem er nú reyndar túlkuð með misjöfnum hætti, sýnist það raunhæfur möguleiki að þessir flokkar komi sér saman um einhver fyrstu skref í þessu máli, hvort sem það verður atkvæðagreiðsla um aðildarumsókn, eða umsókn án undangenginnar atkvæðagreiðslu. Tæplega verður atburðarásin svo hröð að Ísland sendi aðildarumsókn á þessu ári, en það er raunhæfur möguleiki að sótt verði um aðild á næsta kjörtímabili. Við þurfum því að halda áfram að vera virk í umræðunni og upplýst um staðreyndir sem tengjast viðfangsefninu. Enginn vafi leikur á því að ef Ísland gengi í ESB, hefði það gríðarlegar breytingar í för með sér fyrir íslenska nautgriparækt. Gott yfirlit er til um stuðningskerfi ESB. Óvissan tengist annars vegar áhrifum af tollfrjálsum innflutningi á innlenda markaðinn, og hins vegar mögulegum undanþágum sem gætu náðst í aðildarsamningi. Nauðsynlegt er að minna á að ESB gengur nú í gegnum tímabil mikilla erfiðleika. Það mun hafa mikil áhrif á afstöðu Íslendinga til mögulegra aðildarviðræðna, og þó enn frekar til mögulegrar aðildar, hvernig sambandinu gengur að vinna sig út úr þessum erfiðleikum.
Þeir efnahagslegu erfiðleikar sem Ísland gengur í gegnum núna hafa þegar haft margvíslegar og ófyrirsjánlegar afleiðingar í för með fyrir mjólkurframleiðsluna. Ein hlið þess máls er skerðingu stjórnvalda á umsömdum greiðslum samkvæmt gildandi samningi um starfsskilyrði mjólkurframleiðslunnar. Þegar sú ákvörðun var tekin, var gert ráð fyrir að tap mjólkurframleiðenda gæti orðið um 400 -500 milljónir, háð verðbólgustigi. Síðustu tölur um verðlagsþróun benda eindregið til þess að verðbólgan sé að dragast hratt saman og tapið verði mun minna en þessar spár gerðu ráð fyrir. En þessi ákvörðun er ekki bara slæm vegna þeirra fjármuna sem við töpum, heldur ekki síður og kannski enn frekar, er hún slæm vegna þess að hún brýtur niður nauðsynlegt traust milli bænda og stjórnvalda. Ekkert liggur fyrir um hvort/hvenær verður snúið af þessari braut og staðið við gerða samninga.
Efnahagserfiðleikarnir koma líka fram þannig að á skuldsettari búunum hafa skuldir og þar með afborganir, hækkað langt umfram það sem tekjur búsins standa undir. Við þessu hefur einkum verið brugðist með frestun afborgana, að hluta eða öllu leyti. Á síðasta aðalfundi ræddum við um það, að ef gengisvísitalan yrði yfir 150 í nokkurn tíma, væri það óhagstæð verðlagsþróun. Eftir umtalsverða styrkingu krónunnar í febrúar hefur nú sigið á ógæfuhliðina aftur og gengisvísitalan er um 200. Styrking krónunnar er því eitt af okkar mestu hagsmunamálum. Óljóst er hvernig framvinda þessara mála verður, þ.e. hvort skuldsettari kúabúin muni komast í gegnum yfirstandandi erfiðleikatímabil án áfalla. Ef svo færi að þvingaðar yrðu fram sölur á jörðum/greiðslumarki, við núverandi aðstæður á fjármags- og fasteignamarkaði, gæti það haft mjög alvarlegar afleiðingar fyrir íslenska mjólkurframleiðslu. Það leiðir af eðli máls að afkomumunur innan stéttarinnar er nú mikill. Ef þeir kúabændur sem tóku lán og skuldsettu sig mikið þegar krónan var mjög sterk, eiga að hafa einhver laun eftir hrun krónunnar og umtalsverða verðbólgu og hækkaða vexti, þá hlýtur afkoma þeirra sem eiga það fjármagn sem er bundið í rekstrinum, að vera mun skárri. Svo samtvinnaðir eru hagsmunir kúabænda og mjólkuriðnaðarins að nefna verður slæma afkomu mjólkuriðnaðarins sem mikið áhyggjuefni.
En efnahagserfiðleikunum hefur líka fylgt viðhorfsbreyting og þá sérstaklega gagnvart matvælaöryggi þjóðarinnar. Vonandi er það varanlegur skilningsauki en reynslan sýnir okkur að almennt viðhorf getur verið fljótt að breytast. Það er þó vissulega áleitin spurning í ljósi þess sem gerst hefur hvernig eigi að skilgreina þær grunnstoðir sem hvert samfélag byggir á, og hvernig eigi að tryggja að þessar grunnstoðir séu í lagi. Að hve miklu leyti er innlend matvælaframleiðsla grunnstoð sem út frá öryggissjónarmiðum þarf að standa vörð um ?
Á þessum fundi verður til umfjöllunar stöðumat frá Stefnumörkunarhópi LK. Eitt af þeim grundvallaratriðum sem þar hefur verið til umfjöllunar er framleiðslustýringin, gjarnan kallað ,,kvótakerfið’’. Umræður um þetta mikilvæga mál færast því miður gjarnan frá því að vera á rökrænum forsendum, yfir í fyrirfram ákveðna frasa. Þetta má ekki henda okkur. Við verðum að ræða bæði kosti og galla núverandi kvótakerfis. Það skipulag var sett á við tilteknar aðstæður, ýmsar forsendur hafa breyst og munu væntanlega halda áfram að breytast, allt kallar þetta á endurmat á skipulaginu. En, það er ekki nóg að finna það út að kvótakerfið hafi sem slíkt ýmsa galla. Það þarf að átta sig á í hvaða starfsumhverfi nautgriparæktin verður og hvaða aðrar leiðir eru mögulegar. Síðan þarf að velja skástu leiðina því örugglega er engin leið gallalaus. Möguleikar á útflutningi mjólkurvara eru eitt af þeim grundvallaratriðum sem ráða því hvort skynsamlegt muni að vera með kvótakerfi í mjólkurframleiðslunni áfram. Útflutningurinn hefur því miður ekki gengið eins og væntingar stóðu til, en kannski höfum við ekki verið nægilega raunsæ í þessari umræðu. Lausleg, mjög lausleg athugun, gæti bent til þess að við þurfum 50 til 60 % hærra markaðsverð en danskir stéttarbræður okkar vegna hærra afurðastöðvaverðs og hærri vinnslu- og flutningskostnaðar. Það gefur auga leið að þetta er óhugsandi, nema þá gegnum framlegðarháa sérvöru og/eða með því að selja sérstöðu. Útflutningur á almennum vörum eins og undanrennudufti og smjöri mun aldrei skila því verði sem dugar, nema þá að framleiðslu- og vinnslukostnaður lækki stórkostlega frá því sem nú er.
Það þarf líka að framfylgja kvótakerfi til að það virki til lengri tíma, og nú er að líða enn eitt tímabil án þess að sett hafi verið skýr ákvæði í búvörulög um viðurlög og eftirfylgni með greiðslumarkskerfinu. Það er nánast ljóst að greiðslumark til mjólkurframleiðslu lækkar á næsta verðlagsári, líklega umtalsvert. Þá mun reyna meira á kerfið og þegar saman fer að ákvæði um eftirfylgni eru ófullægjandi, og að framlegð mjólkurvara er afar breytileg eftir vörutegundum, þá hlýtur að vera eðlilegt að hugleiða hversu lengi skipulagið heldur að óbreyttum búvörulögum.
Ekki þarf að rekja fyrir ykkur að hagsmunir mjólkurframleiðenda og mjólkuriðnaðarins eru mjög samtvinnaðir. Því hefði það mikil áhrif á mjólkuriðnaðinn ef horfið yrði frá kvótakerfi á núverandi formi. Með kvótakerfinu og opinberlega ákvörðuðu lágmarksverði mjólkur, vita bæði framleiðendur og afurðastöðvar forsendur viðskipta sín á milli fyrirfram, bæði það mjólkurmagn sem hver bóndi getur vænst að fá greitt fyrir, svo og liggur fyrir hvaða verð á að greiða. Ef skipulagi yrði breytt á þann veg að heildsöluverðsákvörðunun stæði ein eftir, nú eða engin verðákvörðun væri í gildi, þá færu greiðslur afurðastöðvanna eftir ákvörðunum eigenda fyrirtækjanna, sem aftur réðust af afkomu þeirra. Þetta myndi breyta samskiptaforsendum bænda og afurðastöðva í grundvallaratriðum. Úr því afurðastöðvar eru nefndar, væri ekki rétt að skoða möguleika íslensks mjólkuriðnaðar á samvinnu við mjólkuriðnað annarra landa ? T.d. við Arla sem kúabændur í Danmörku og Svíþjóð eiga ?
Á haustfundunum var kynnt yfirlit um þróun í sölu mjókurafurða sl. 5 ár. Þar sem markaðurinn er nú einu sinni grunnurinn að starfsemi okkar, er hér sýnt hvernig salan hefur þróast síðustu tíu ár. Allar forsendur um söluna og skiptingu hennar eru teknar úr ársskýrslum SAM fyrir viðkomandi ár.
Yfirlitið má sjá hér.
Það má draga þetta saman svona: Á þessum áratug eru það osturinn og skyrið sem standa undir aukningunni. Jógúrt, viðbit og rjómi eru í jafnvægi. Samdrátturinn í nýmjólkinni er mjög umtalsverður, þrátt fyrir að á þessu árabili hafi hún verið undirverðlögð í vaxandi mæli.
Samkeppniseftirlitið hefur látið í ljós það álit að Bændasamtök Íslands hafi gerst brotleg gagnvart samkeppnislögum. Umrætt meint brot má rekja til starfa búnaðarþings 2008 og hafa Bændasamtökin verið sektuð um 10 milljónir vegna þessa. Málinu hefur verið áfrýjað.
Í 3. grein ákvörðunarorða Samkeppniseftirlitsins segir: Með heimild í 2. mgr. 16. gr. samkeppnislaga beinir Samkeppniseftirlitið eftirfarandi fyrirmælum til Bændasamtaka Íslands: Bændasamtök Íslands skulu grípa til aðgerða sem miða að því að tryggt sé að á vettvangi samtakanna verði ekki fjallað um eða miðlað upplýsingum um verð, verðþróun, viðskiptakjör og önnur viðkvæm viðskiptaleg eða samkeppnisleg málefni með þeim hætti sem dregið getur úr viðskiptalegu sjálfstæði þeirra félagsmanna samtakanna sem samkeppnislög taka til. Í þessu skyni skal meðal annars aðgreina með skýrum hætti umfjöllun um búvörur sem lúta opinberri verðlagningu samkvæmt sérlögum frá umfjöllun um búvörur sem framleiðendum ber að verðleggja sjálfir og falla undir gildissvið samkeppnislaga. Fyrirmælin skulu koma til framkvæmda eigi síðar en þremur mánuðum frá dagsetningu þessarar ákvörðunar og skulu Bændasamtök Íslands upplýsa Samkeppniseftirlitið um framkvæmd fyrirmælanna fyrir sama tímamark.
Á þessu stigi er ekki ljóst hvað þetta þýðir fyrir kúabændur. Mjólkin er háð opinberri verðlagningu en í búvörulögum er heimilað að víkja frá henni. Í hvaða umhverfi yrðum við komin ef sú lagaheimild yrði nýtt, eða þýðir þetta að það sé eiginlega vonlaust að fara þá leið ? Búvörulög heimila útgáfu viðmiðunarverðs vegna nautakjötsins en við höfum ekki nýtt þá heimild. Hver er þá réttarstaðan núna, og er óhjákvæmilegt nýta heimild búvörulaga til útgáfu viðmiðunarverðs fyrir nautakjöt ? Þetta eru spurningar sem verður að leita svara við á næstu mánuðum. Það er umhugsunarefni hversu mikill núningur er af hálfu Samkeppniseftirlitsins í garð landbúnaðarins. Á sínum tíma var gerð húsleit hjá MS en niðurstaða úr því máli liggur ekki fyrir, fyrrnefnt álit um starfsemi BÍ er komið fram, og síðan er það svo að Samkeppniseftirlitið telur það ekki heppilegt að mjólk innan greiðslumarks hafi þann forgang að innanlandsmarkaði sem búvörulög gera ráð fyrir. Meðan þessi álitamál eru uppi og við vitum ekki skýrt hver réttarstaðan er, þurfa bændur að sýna ákveðna varfærni í umfjöllun um þau málefni sem kunna að falla undir Samkeppnislög. Þetta gildir um okkur á þessum fundi, og hugsanlega er ein af þeim tillögum sem liggur fyrir fundinum á mörkum þess leyfilega. Þetta bið ég fundarfólk að hafa í huga í umræðum hér á eftir.
Í síðustu aðalfundarræðu var langur kafli um breytingar sem orðið höfðu á skipan í trúnaðarstöður sem tengdust landbúnaðinum og þar með nautgriparæktinni. Nú er Einar Kristinn Guðfinnsson ekki lengur sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, heldur hefur Steingrímur J. Sigfússon tekið við því starfi. Þá hefur Atli Gíslason tekið við sem formaður sjávarútvegs- og landbúnaðarnefndar í stað Arnbjargar Sveinsdóttur. Því fólki sem skipt hefur um starf og horfið til annarra verka, þakka ég gott samstarf og óska því farsældar. Nýtt fólk býð ég velkomið til starfa.
Nú fer að ljúka þessari skýrslu til aðalfundar Landssambands kúabænda árið 2009. Ég tók við formennsku í þessum samtökum 27. ágúst 1998, á morgun verður kjörinn nýr formaður og ég verð hluti af sögunni eftir 3.866 daga í starfi. Á þessum tíma hafa kúabændur byggt upp af miklum stórhug og myndarskap og það er hreint frábært hversu margt hefur breyst til betri vegar á þessum árum, bæði hjá kúabændum og í mjólkuriðnaðinum. Sem vonbrigði stendur það upp úr að ég hefði viljað meiri, miklu meiri, árangur í að ná niður framleiðslukostnaði mjólkur, en hann er í raun eina vandamál íslenskrar nautgriparæktar.
Ég vil þakka öllum þeim fjölmörgu aðilum og stofnunum sem Landssamband kúabænda hefur átt samskipti við á liðnu starfsári. Mikil samskipti hafa verið við ráðuneyti landbúnaðarmála, Bændasamtök Íslands, SAM og hefur það samstarf verið með ágætum. Þá vil ég þakka stjórnarmönnunum Sigurði Loftssyni, Guðnýju Helgu Björnsdóttur, Jóhanni Nikulássyni og Sveinbirni Sigurðssyni mjög gott samstarf á starfsárinu. Sama gildir um varamennina Gunnar Jónsson og Guðrúnu Lárusdóttur, sem og ekki síst framkvæmdastjórann, Baldur Helga Benjamínsson. Þá vil ég þakka kúabændum sérstaklega fyrir haustfundina. Þeir fundir hafa gefið mér mikið og verið ómissandi tenging við grasrótina.
Á fyrsta starfsári mínu sem formaður LK færði ég því sem þá hefur líklega heitið Búnaðarháskólinn á Hvanneyri, afmæliskveðjur. Í því stutta ávarpi sagði m.a. ,, Bændastéttin endurnýjast því aðeins að viðunandi markaðir séu fyrir hendi fyrir framleiðsluvörurnar og að landbúnaðurinn sé samkeppnisfær um fólk, fjármagn og land’’. Ég er enn sömu skoðunar og vil með þessum orðum þakka fyrir samstarfið þessi ár og óska ykkur sem hér eruð stödd, kúabændum öllum, og Landssambandi kúabænda, velfarnaðar á komandi árum.
Megi aðalfundur Landssambands kúabænda skila góðu verki.