Um BÍ
Búgreinadeildir
Málaflokkar
Til baka
Um Alifuglabændur
Upplýsingar
Kolefnisspor
Til baka
Til baka
Um Hross BÍ
Fræðsla
FHB
Til baka
Um NautBÍ
Upplýsingar
LK
Til baka
Sauðfjárbændur
Upplýsingar
Til baka
Starfið
Stjórnsýsla
Til baka

Setningarræða formanns LK á aðalfundi 2014

28.03.2014

Ekki þarf í það að sjá
-þér ég aftur gegni –
ég er bóndi, allt mitt á
undir sól og regni.

Þetta stutta erindi úr ljóði „Klettafjallaskáldsins“ Stephans G Stephanssonar „Eftirköst“ koma upp í hugann þegar rifjað er upp veðurlag liðins árs. Reyndar heilsaði árið með óvenjulegum hlýindum og í heild varð árið nálægt meðaltali hvað hitafar áhrærði. Hinsvegar var mikill og þrálátur snjór víða um landið norðanvert og óvenju snarpt kuldakast gerði um mánaðamótin apríl/maí, með meira frosti en áður hefur mælst hér á landi í maímánuði. Sumarið var síðan fremur óhagstætt um landið sunnan- og vestanvert, með þungbúnu veðri og þrálátri úrkomu, en hagstæðari tíð var á landinu norðan og austanverðu. Mikið kal var víða í túnum bænda, einkum á norður og austurlandi síðastliðið vor og þurfti mikið átak í endurræktun á þeim svæðum. Þá reyndist heyskapartíð mörgum erfið og heyforði því rýrari að magni og gæðum en oft áður, eins var kornuppskera með allra minnsta móti. Við aðstæður sem þessar skipta miklu mál þær gríðarlegu framfarir sem orðið hafa í afköstum og vinnubrögðum við fóðuröflun á íslenskum kúabúum síðustu áratugi, með aukinni tækni og nýjum fóðurjurtum.  Þó er það svo að mjólkurframleiðsla, eins og flest önnur búfjárrækt, byggir á líffræðilegum ferlum sem að stórum hluta eru háðir veðurfari og er þá sama hvar í heiminum hún er staðsett.

 

Innlögð mjólk á árinu 2013 var 122,9 milljónir lítra, samanborið við 125,1 milljón lítra árið 2012 og er það samdráttur um 1,7% á milli ára. Framleiðsla mjólkur gekk þó samkvæmt áætlunum fyrrihluta ársins og var unnið að birgðastýringu út frá því. Um mitt ár fór hinsvegar framleiðslan að dragast verulega saman og hélst sú þróun langt fram á haust. Í sumarlok var ljóst að í óefni stefndi að óbreyttu, vegna gríðar mikillar sölu og í kjölfar þess var lofað fullri greiðslu fyrir 3 milljónir lítra umfram greiðslumark og síðar fyrir alla umframmjólk ársins. Þetta dugði þó ekki til og því miður reyndist nauðsynlegt að flytja inn smjör svo unnt yrði að tryggja nægt framboð allra mjólkurvara á markaði. Sú staða var auðvitað afleit og vakti upp mikla umræðu, ekki síst meðal bænda sjálfra þar sem ýmislegt var sagt á missterkum forsendum, um um tímasetningu ákvarðana, ábyrgð og forspár getu forystumanna okkar. Auðvitað eru allir frjálsir skoðana sinna og í gagnrýni felst mikilvægt aðhald fyrir þá sem ábyrgðarstörfum gegna. Þó er samt mikilvægt að menn gefi sér tíma til að íhuga orð sín og áhrif þeirra áður en þau eru látin falla á opinberum vettvangi. Nú í upphafi árs varð síðan mikil umræða í samfélaginu um upprunamerkingu matvæla. Hvort sem það var sanngjarnt eða ekki var þessi smjörinnflutningur dreginn upp í fjölmiðlum og lagður að jöfnu við innflutt kjúklinga og svínakjöt sem selt hafði verið sem íslenskt. Í framhaldi af þessu beittu Bændasamtökin sér fyrir því að koma á samstarfi meðal samtaka neytenda, matvælafyrirtækja og bænda um upprunamerkingu matvæla. Ástæða er til að þakka fyrir þetta framtak enda um mikilvægt sanngirnis mál neytenda að ræða.    

 

Ársins 2013 verður vafalaust minnst sem eins hins sérstæðasta á síðari tímum, á vettvangi  framleiðslu og sölu mjólkurafurða. Greiðslumark ársins hafði verið ákveðið 116 milljónir lítra og var sú ákvörðun byggð á söluspá, sem trúlega var helst til varfærin. Hinsvegar var með öllu útilokað að sjá fyrir þá þróun sem varð í sölu á fituríkum mjólkurvörum á seinnihluta ársins, enda verður hún að teljast fordæmalaus með öllu. Heildarsala mjólkur og mjólkurafurða árið 2013 umreiknuð á fitugrunn nam um 120,8 milljónum lítra, samanborið við 114,1 milljón lítra árið 2012. Það er vöxtur sem nemur um um 5,8% og er það meiri söluaukning á mjólkurafurðum en áður hefur þekkst milli ára. Í þessu sambandi má geta þess að söluaukning á smjöri var 12,7% og rjóma um 11,1% milli þessara ára. Þá gerðist það á árinu að sala á nýmjólk jókst um 0,9% eftir viðvarandi samdrátt svo árum og áratugum skiptir. Sala á próteingrunni var um 117,6 milljónir lítrar árið 2013, á móti 115,5 milljónum lítra árið 2012, en það er aukningin milli ára sem nemur 1,9%. Eins og sjá má á þessu urðu þau umskipti á liðnu ári að sala á fitugrunni varð meiri en sala á próteingrunni, í fyrsta skipti í áratugi.

 

Til að mæta þessum mikla vexti í sölu mjólkurafurða og vegna lágrar birgðastöðu, var greiðslumark yfirstandandi árs ákveðið 125 milljónir lítra sem er aukning um 9 milljónir lítra frá fyrra ári. Jafnframt var framleiðsluskylda, til að fá fullar A greiðslur, hækkuð úr 90% í 95%. Við þær aðstæður sem nú eru uppi, er full ástæða til að ganga enn lengra í þessu efni til að auka framleiðsluhvata innan greinarinnar. Fyrir fundinum liggja tillögur frá stjórn um að framleiðsluskyldan verði hækkuð í 100% og jafnframt verði hlutdeild C greiðslna aukin umtalsvert, á kostnað A greiðslna. Í þessu sambandi er mikilvægt að hafa í huga, að það starfsumhverfi sem okkur er búið, leggur okkur þær skyldur á herðar að uppfylla þarfir markaðarins fyrir mjólk og mjólkurvörur, í staðinn er greininni tryggð afkoma og starfsöryggi. Því verðum við að vera viðbúin breytingum á þessu fyrirkomulagi til að svara kalli markaðarins.

 

Síðustu tölur um sölu mjólkurafurða nú í lok febrúar sýna að salan fer enn hratt vaxandi og er salan nú í febrúarlok komin í 118,3 milljón lítra á próteingrunni og 123 milljónir lítra á fitugrunni. Innvigtun undanfarna 12 mánuði er 123,7 milljónir lítra og fer hún enn vaxandi. Hins vegar hefur fituhlutfall mjólkur farið lækkandi, þannig að í heild er framleiðsla á fitugrunni svipuð milli ára. Það má því hvergi slaka á við framleiðsluna ef við eigum að hafa í við markaðinn. Ýmislegt hefur verið gert til að styðja við bændur í þessu krefjandi verkefni. Starfsmenn Ráðgjafarmiðstöðvar landbúnaðarins og framleiðendaþjónustu Mjólkursamsölunnar hafa unnið skipulega að ráðgjöf, auk þess sem fengnir hafa verið erlendir sérfræðingar á sviði fóðrunar og mjólkurgæða.  

 

Fjölgi íbúum og ferðamönnum eins og spáð hefur verið og aukning í sölu á fitu verður áfram eins og undanfarin 10 ár, má gera ráð fyrir að fram til ársins 2020 þurfi framleiðslan að vaxa um 20 milljónir lítra. Það er nálægt 3 milljónum lítra að jafnaði á ári.  Ef söluaukning hægir á sér og verður í takt við fjölgun ársneytenda þarf 15 milljónir lítra sem er nær því að vera 2 milljónir lítra á ári.  Þá hefur ekki verið gert ráð fyrir neinni birgðaaukningu, en hún þyrfti að vera um 2 milljónir lítra til viðbótar árlega næstu 3 ár. Eftir þessum spám má gera ráð fyrir að árið 2020 þurfi a.m.k. 145 milljónir lítra mjólkur til að fullnægja innanlandsþörf fyrir fituríkar mjólkurvörur, það er aukning um 20% frá yfirstandandi ári. -og takið eftir: Í þessum áætlunum hefur ekki verið gert ráð fyrir neinni skipulegri framleiðslu til útflutnings, einungis því sem til fellur af próteini umfram innanlandsþarfir. Þetta er ögrandi og spennandi staða og æði ólík þeim harða samdrætti sem blasti við forsvarsmönnum Landssambands kúabænda í árdaga samtakanna. En í grunninn stöndum við þó frammi fyrir sama viðfangsefni, sem er hvernig auka má hagkvæmni íslenskrar mjólkurframleiðslu, til hagsbóta fyrir bændur og neytendur. Það er okkur lífsnauðsyn.

 

Lágmarksverð mjólkur frá afurðastöð til bænda hækkaði þann 1. október s.l. um 3,1% eða 2,49 kr/ltr og er nú 82,92 kr/ltr. Vinnslu- og dreifingarkostnaður mjólkur hækkaði frá þessum sama tíma um 2,85 kr/ltr, eða 3,1%, en vegin heildar hækkun heildsöluverðs út á markað er samkvæmt þessu 5,34 kr/ltr. Þessi hækkun var sem nam allri mældri hækkunarþörf verðlagsgrundvallar tímabilið 1. júní 2012 til 1. september 2013, en mæld hækkunarþörf vinnslu og dreifingakostnaðar var hinsvegar 4,8%. Nokkurt jafnvægi virðist vera um þessar mundir í aðfangakostnaði og flest bendir til að áburðarverð á komandi vori lækki frá síðasta ári. Óskandi er að áframhald verði á þeirri þróun.

 

Þá ákvað Veðlagsnefnd um síðustu áramót að breyta hlutföllum milli efnaþátta í verði grundvallarmjólkur. Þannig var vægi próteins lækkað úr 75% í 50% og fitu hækkað úr 25% í 50%. Þetta er gert vegna verulega aukinnar eftirspurnar eftir fituhluta mjólkurinnar eins og áður hefur komið fram.

 

Áfram hefur verið unnið að því að hækka skilaverð fyrir útfluttar mjólkurafurðir. Markaðir í Finnlandi hafa tekið afar vel við íslensku skyri og er með því nú þegar fullnýttur 380 tonna tollkvóti okkar inn til Evrópusambandsins. Nýlega hefur svo verið gengið frá samningum við Sviss um ótakmarkaðan útflutninga á skyri þangað gegn takmörkuðuminnflutningi á ostum.Útflutningur á árinu 2013 var hinsvegar verulega minni en síðasta ár. Á próteingrunni voru fluttar út 5,8 milljónir lítra, samanborið við 13,5 milljónir lítra árið 2012. Fluttar voru út vörur á fitugrunni sem námu um 2,1 milljón lítra á fyrri hluta ársins, en afar ólíklegt er að til útflutnings komi í þeim efnum næstu misseri eða ár.

 

Verulega dró úr framboði nautgripa til slátrunar á síðari hluta liðins árs, einkum á kúm. Hefur ástandið hvað þetta varðar verið sérstaklega slæmt á fyrstu mánuðum þessa árs og er birgðastaða hjá sláturleyfishöfum í algöru lágmarki. Samtals nam innvegið nautgripakjöt í sláturhús 4.082 tonnum árið 2013, á móti 4.113 tonnum árið 2012. Ljóst er að framboð á innlendu nautakjöti er ekki nægjanlegt og því var gefinn út opinn tollkvóti á hakkefni í október 2013 og opinn tollkvóti á öllum tegundum nautgripakjöts var síðan gefinn út með reglugerð þann 3. mars s.l. og gildir hún til 30. september n.k., þá liggur fyrir að umtalsverður þrýstingur er á að heimilaður verði innflutningur á heilum og hálfum skrokkum. Samdráttur var í ásetningi nautkálfa allan fyrrihluta síðasta árs, en jókst hins vegar á síðasta fjórðungi ársins um 4-6%, samanborið við sömu mánuði árið áður. Þær tölur sem fyrir liggja nú í upphafi nýs árs benda til að áframhald sé á þeirri þróun.

 

Innflutningur á nautakjöti árið 2013 var 265 tonn, samanborið við 197 tonn árið áður. Hakkefni og lundir eru sem fyrr yfirgnæfandi meirihluti þess nautakjöts sem flutt er hingað til lands, en reikna verður með að innflutningur muni verulega aukast á yfirstandandi ári. Heildarverðmæti íslenskrar nautakjötsframleiðslu var um 2,3 milljarðar króna árið 2013 og er það aukning um rúm 4% frá árinu áður, en verðlistar helstu flokka nautgripakjöts hækkuðu um 5 – 6% á liðnu ári. Áætla má verðmæti nautakjöts sem flutt var inn á liðnu ári nálægt 350 milljónum króna. Því má gera ráð fyrir að aukin framleiðsla á nautakjöti gæti skilað búgreininni veltuaukningu upp á eina milljón króna á dag, að minnsta kosti.

 

Okkur hefur á undanförnum aðalfundum LK orðið tíðrætt um stöðu nautakjötsframleiðslunnar og þá möguleika sem í henni felast. Því miður hefur okkur ekki auðnast enn sem komið er að ná nægjanlegri viðspyrnu til að styrkja stöðu þessa hluta nautgriparæktarinnar sem skyldi. Þó kann nú að vera að greina megi nokkrar glæður við sjóndeildarhringinn. Starfshópur um eflingu nautakjötsframleiðslunnar sem þáverandi Atvinnuvegaráðherra skipaði í febrúarmánuði 2013, skilaði skýrslu til nýbakaðs sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra 3. júlí s.l. þar sem helstu niðurstöður voru eftirfarandi:

·        Sköpuð verði aðstaða til þess að flytja inn nýtt erfðaefni í holdanautastofninn. Mælt er með Angus gripum frá Noregi.

·        Gerð verði ítarleg áhættugreining á fyrirkomulagi innflutnings á erfðaefni.

·        Kannaðir verði möguleikar á að koma upp sérstöku ræktunarbúi.

·        Nýtt kjötmat verði komið í gagnið 1. janúar 2015

·        Ráðgjöfí nautakjötsframleiðslu verði efld

·        Skýrsluhaldnautakjötsframleiðslu verði bætt

 

Í greiningu hópsins á mismunandi leiðum við endurnýjun á erfðaefninu kom í ljós að beinn innflutningur á sæði var lang hagkvæmasta aðferðin bæði hvað varðaði kostnað og skilvirkni. Aðrar leiðir sem til greina komu voru verulega kostnaðarsamari og óskilvirkari og ljóst að greinin sjálf hefði enga fjárhagslega burði til að framkvæma innflutninginn með þeim hætti. Í framhaldinu urðu nokkrar umræður milli samtaka bænda og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis um hvernig best væri staðið að framhaldi málsins. Niðurstaðan var sú að ráðherra landbúnaðarmála ákvað í lok september að láta Matvælastofnun gera áhættumat á fjórum leiðum: innflutningi sæðis eða fósturvísa á einangrunarbú og innflutningi sæðis eða fósturvísa beint á bú bænda, frá Geno global í Noregi. Niðurstaða áhættumats stofnunarinnar barst síðan Landssambandi kúabænda um miðjan þennan mánuð. Þá ákvað stjórn LK að láta Veterinærinstituttet í Noregi gera áhættumat á beinum sæðisinnflutningi til viðbótar áliti Matvælastofnunar og bárust drög að niðurstöðum þeirra nú stuttu fyrir aðalfund. Í áhættumati Matvælastofnunar vekur athygli hversu lítill munur er á áhættu af þeim leiðum sem hér voru til skoðunar. Eins má lesa úr mati Veterinærinstituttet að lítil eða hverfandi áhætta sé af innflutningi sæðis og sýnir það öðru fremur hversu ríkar kröfur eru gerðar til sjúkdómavarna þar á bæ. Landssamband kúabænda hefur lagt á það ríka áherslu að sem fyrst fáist niðurstaða um hvort unnt sé að hraða endurnýjun erfðaefnis holdanautastofnanna með beinum sæðisinnflutningi. Í máli Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra á Fagþingi nautgriparæktarinnar nú í gær kom fram að hraðað yrði niðurstöðu þessa máls. Svo sannarlega teystum við því að það verði gert.

 

Eins og reglugerð kveður á um voru haldnir tveir kvótamarkaðir á síðasta ári, þann 1. apríl og 1. nóvember. Á apríl markaði seldist allt framboðið greiðslumark samtals 711.781 lítrar og var kauphlutfall viðskipta 57,49%, en jafnvægisverð 320 krónur fyrir hvern lítra mjólkur. Á nóvember markaði urðu síðan viðskipti með 874.438 lítra og kauphlutfall viðskipta var 96,44%. Jafnvægisverðið á þessum markaði var það sama eða 320 kr. fyrir hvern lítra mjólkur. Frá því að núverandi fyrirkomulag var tekið upp árið 2010 hafa verið haldnir sjö markaðir og hafa viðskipti heldur verið að aukast í seinni tíð. Óneitanlega vekur þó nokkra athygli að verðið skuli ekki hafa lækkað á síðasta markaði, þegar svo mikill vöxtur er í sölu afurðanna og góðar horfur varðandi greiðslur fyrir umframmjólk. Í þessu efni tekur þó hver og einn sína ákvörðun og verður að bera ábyrgð á henni. Landssamband kúabænda hefur frá upphafi barist fyrir fjölgun markaðsdaga, lengi vel fyrir daufum eyrum. Nú í haust varð þó loks að samkomulagi milli Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytis og LK að fjölga markaðsdögum á yfirstandandi ári í 3, 1. apríl, 1. september og 1. nóvember. Hefur reglugerð verið gefin út þar um og ástæða til að fagna þeirri viðhorfsbreytingu sem orðið hefur innan ráðuneytisins til málsins.

 

Á nýliðnu búnaðarþingi voru gerðar nokkrar breytingar á samþykktum Bændasamtaka Íslands, en þær eru helstar að kjörtímabil stjórnar og fulltrúa er stytt úr þremur árum í eitt og hverju aðildarfélagi er gert að kosta setu sinna fulltrúa á búnaðarþingi. Ekki náðist samkomulag að þessu sinni um neinar grundvallar breytingar á skipulagi og félagsuppbyggingu Bændasamtakanna, en ákveðið var að skipa starfshóp sem ætlað er að finna leiðir til fjármögnunar samtaka bænda og koma með tillögur að fulltrúafjölda einstakra aðildarfélaga á búnaðarþingi. Þessi vinna er sett af stað frá hendi búnaðarþings í ljósi yfirlýsinga Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra um að hann hyggist leggja fram lagafrumvarp um búnaðargjald þar sem ekki verði áfram heimilt að nýta það til hagsmunagæslu. Þetta þýðir í raun að öll starfsemi félagssamtaka bænda er að óbreyttu í uppnámi.

 

Það er mat stjórnar Landssambands kúabænda að nauðsynlegt sé að hefja þegar undirbúning og aðlögun að þessum nýja veruleika. Í ljósi þess eru nú á þessum aðalfundi gerðar tillögur að breytingum á samþykktum samtakanna, þar sem öðrum þræði er verið að samræma þær samþykktum Bændasamtakanna en jafnframt stíga skref til lækkunar kostnaðar með fækkun fulltrúa á aðalfund. Jafnframt leggur stjórn ríka áherslu á að hér á fundinum verði teknar ákvarðanir um hvert stefna beri í ljósi þeirra breytinga sem framundan eru. Horfa þarf yfirvegað til allra átta í þessu efni, en meðal þess sem leggja þarf áherslu á er eftirfarandi:

·        Vinna að uppbyggingu félagsgjaldskerfis sem undirstöðu í grunnstarfi Landssambands kúabænda og aðildarfélaga þess. Jafnframt verði leitað annara leiða til að fjármagna einstaka þætti starfsins að hluta, eða öllu leiti s.s. rekstur naut.is.

·        Tryggja fjármuni til markaðs og kynningarstarfs með öllum þeim leiðum sem færar eru.

·        Vinna markvist að lækkun kostnaðar í yfirstjórn og starfsemi LK jafnframt því að treysta sem kostur er ganvirk samskipti við aðildarfélögin.

·        Leita eftir eftir því við Bændasamtök Íslands að endurskoða verkaskiptingu milli samtakanna með það markmið að stytta boðleiðir og auka skilvirkni.

·        Farið verði í viðræður við Bændasamtök Íslands um framtíðar skipulag og rekstur Nautastöðvar BÍ.

·         Farið verði yfir skipulag kynbóta og fagstarfs nautgriparæktarinnar með það fyrir augum að nýta sem best fjármuni og lágmarka sem kostur er kostnað bænda, án þess að gæðum starfsins verði fórnað.

 

Jafnframt þessu þarf að skoða hvort og þá með hvaða hætti staðið verði að innheimtu og ráðstöfun búnaðargjalds til þeirra verkefna sem heimilt verður að nýta það til. Ekki kemur til greina að fallast á að gjaldinu verði ráðstafað lögformlega til einstakra samtaka sem hafa verkefnin með höndum, til þess er of mikil gerjun í þessu umhverfi enn sem komið er. Ef vera á með gjaldtöku af þessu tagi er eðlilegast að það verði sett í búgreinatengdan sjóð með skýrri skipulagsskrá og fjármunum ráðstafað þaðan til einstakra verkefna í lengri eða skemmri tíma.

 

Nú hefur Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra ákveðið að skipa starfshóp um stefnumótun í mjólkurframleiðslu og mun hann væntanlega hefja störf innan tíðar. Óskað var tilnefninga í hópinn frá Landssambandi kúabænda, Bændasamtökum Íslands, Samtökum afurðastöðva í mjólkuriðnaði, Samtökum atvinnulífsins, Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja og Alþýðusambandi Íslands auk fulltrúa ríkisins. Hópurinn skal skila niðurstöðu fyrir 1. desember n.k. Fyrsta verkefni þessa hóps hlýtur að vera að leggja mat á stöðu greinarinnar og þann árangur sem hefur orðið af núverandi mjólkursamningi.

Undanfarið hefur verið í gangi innan samfélagsins býsna óvægin umræða í garð starfsumhverfis greinarinnar, einkum þá tollvernd sem greinin býr við. Hafa þar geysað hvað mest um ritvelli sterklærðir hagspekingar og ýmsir umræðustjórnendur samfélagsins, dragandi of sterkar niðurstöður af oft á tíðum óþægilega grunnum forsendum þar sem verulega skortir á vandaða rannsóknarvinnu. Því er jafnan haldið fram að landbúnaðarkerfið sé úrelt og þauljöpluð er sú tugga að ofurtollar á innfluttar landbúnaðarvörur séu ein helsta ástæðan fyrir bágri afkomu almennings. Ekkert er þó fjarri sanni og við hljótum að krefjast þess að þeir aðilar sem ætlast til að vera teknir alvarlega framkvæmi slíka samanburði á sanngirnisnótum. Í þeirri vinnu sem framundan er hlýtur að verða dreginn fram sá árangur sem náðst hefur, en hér vil ég einungis nefna eitt dæmi í því sambandi. Í samantekt sem Innform ehf gerði fyrir Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði nú fyrr í þessum mánuði, kemur eftirfarandi fram; „Verð á mjólk til neytenda hefur hækkað mun minna en vísitala frá 2004. Samstarf stjórnvalda, launþegahreyfinga og afurðastöðva við verðlagningu mjólkur og mjólkurvara hefur því ótvírætt skilað tilætluðum árangri. Frá árinu 2004 hefur árlegur vinnslukostnaður lækkað um 2 milljarða króna“. Þó fátt annað væri til að telja hlyti það að teljast mikill árangur.

 

En hvað sem líður samfélagsumræðunni þurfum við fyrst og fremst að horfa til framtíðar í þessari vinnu. Markaðsþróunin og tækifærin sem henni fylgja eru ekki hlutir sem hægt er að eiga í skúffu til seinni tíma nota, ef við nýtum þau ekki sjálf gera það einhverjir aðrir. Það hvílir á okkur mikil ábyrgð, nautgriparæktin stendur fyrir nálægt 45% allrar landbúnaðarframleiðslu á Íslandi, veltir nálægt tveimur tugum miljarða króna á ári. Starfsgrein af þeirri stærðargráðu verður að eiga sér langtímamarkmið og sóknarvilja.

 

Góðir félagar, það ár sem að baki er hefur verið býsna snúningasamt og hafa einungis umfangsmestu hlutar starfsins verið taldir upp hér að framan. Reyndar er það svo að talsverður hluti þessa starfs snýst um það eitt að halda hlutum í sínu rétta fari frá degi til dags, svo þeir sem greinina stunda geti tiltölulega áhyggjulaust gengið til sinna verka. Þá var formaður óvenju víðförull á liðnu ári, bæði hér heima og erlendis. Að venju hefur formaður átt samskipti við fjölda aðila bæði innan landbúnaðarins sem utan og hafa þau öll verið ánægjuleg.

Fyrir það allt skal þakkað. Meðstjórnarmönnum mínum þeim  Guðnýju Helgu, Trausta, Jóhanni og Jóhanni Gísla þakka ég gott samstarf sem og varamönnunum Jóhönnu og Guðrúnu. Þá fá starfsmennirnir Snorri Sigurðsson og framkvæmdastjórinn Baldur Helgi sérstakar þakkir fyrir mikið þolgæði í samstarfi.  

 

Megi starf aðalfundar verða greininni til heilla.

 

Takk fyrir.