Beint í efni

Setningarræða formanns LK

22.03.2013

Ræða Sigurðar Loftssonar, formanns LK, á aðalfundi 2013

 

Sem stormur hreki skörðótt ský,

svo skunda burt vor ár.

Og árin koma ný og ný,

með nýja gleði og tár.

Því stopult, hverfult er það allt,

sem oss er léð, svo tæpt og valt,

jafnt hraust og veikt, og fé og fjör,

það flýgur burt sem ör.

 

Þetta erindi í áramótasálmi Sigurjóns Guðjóssonar kom upp í huga formanns þegar litið var yfir þau fjögur ár sem hann hefur sinnt þessu starfi. Ára sem um margt hafa verið sérstæð í Íslensku þjóðlífi og einkennst af samdrætti og á köflum sundurþykkju í kjölfar skipbrots mislukkaðra veltiára. Þegar sá er hér stendur var fyrst kosin formaður þessara samtaka stóðu fyrir dyrum alþingiskosningar og hans fyrsta verk í embætti var að ljúka framlengingu búvörusamninga. Nú fjórum árum síðar eru aftur komið að alþingiskosningum og nýlega búið að framlengja búvörusamninga í annað sinn. Þannig eru líka verkefnin næsta keimlík ár frá ári og tilfinningin stundum eins og tíminn standi í stað. Þó líða dagarnir einn af öðrum, senn komnir páskar og áramótapistill formanns enn á forsíðuni.

 

Tíðarfar liðins árs var á köflum nokkuð rysjótt og gæðum misskipt milli landshluta. Þurrkar háðu jarðargróðri víða um norðan- og norðvestanvert landið og olli uppskerubresti. Um sunnanvert landið gætti þurrkanna einnig en víðast varð þó heyfengur mikill magni og gæðum og metuppskera fékkst af kornökrum. Þá haustaði óvenju snemma með miklu hríðarveðri um Norðanvert landið í byrjun september sem olli miklum fjársköðum og rafmagnsleysi auk samgöngutruflana. Veturinn hefur síðan verið ærið köflóttur.

 

Framleiðsla mjólkur hefur hvað sem öðru líður gengið vel og var innvigtun mjólkur til samlaga innan SAM árið á síðasta ári um 125 milljónir lítrar á móti, en það er aukning um 1,6%  milli ára. Eins hefur miðað vel í sölu mjólkur og mjólkurafurða, en umreiknuð á fitugrunni nam hún á liðnu ári um 114 milljónum lítra, sem er aukning um tæp 2,4% milli ára. Sala á próteingrunni gekk einnig vel og varð um 115,5 milljónir lítrar árið 2012 og jókst þannig um tæp 1,6% frá árinu 2011. Ánægjulegt er að sjá aftur aukningu í sölu á próteingrunni, eftir samdrátt milli ára 2010 og 2011. Þá benda síðustu tölur til þess að sala mjólkurafurða sé enn vaxandi og er það mikið ánægjuefni, eftir talsverðan samdrátt í kjölfar bankahrunsins. Nú er svo komið að munur á prótein- og fitusölu er nær enginn, enda hefur sala á smjöri á innanlandsmarkað aukist yfir 50% á síðasta áratug og mun slíkt vera fádæmi meðal þróaðra ríkja á þessu tímabili. Sú jákvæða þróun sem hér er lýst gaf tilefni til að hækka að nýju greiðslumark og var það ákveðið 116 milljónir lítra fyrir yfirstandandi ár og vonandi mun sú þróun halda áfram.

 

Síðasta ár var útflutningur mjólkur 13,5 milljónir lítra á próteingrunni og var hún sem fyrr langmest flutt út á formi undanrennudufts. Skyrútflutningur fer þó vaxandi, einkum til Finnlands, en skyrútflutningur til Bandaríkjanna hefur verið stöðugur eða minnkandi. Nú er svo komið að 380 tonna skyrkvóti til landa ESB dugar ekki til að sinna Finnlandsmarkaði og þreifingar eru í gangi varðandi stækkun hans. Útflutningur á fitugrunni var 13,5 milljónir lítra og er þar nær eingöngu um að ræða smjör í stórumbúðum. Afar brýnt er að leita allra mögulegra leiða til að auka arðsemi þessa útflutnings. Spurningin er hinsvegar sú hvort við erum reiðubúin að leggja í alvöru markaðs átak með íslenskar mjólkurafurðir erlendis og freista þess þannig að verða þátttakendur í hinum öra vexti sem markaður með mjólkurafurðir eru um þessar mundir í heiminum. Fram kom á síðasta ársfundi alþjóða samtaka mjólkuriðnaðarins IDF að eftirspurn eftir mjólkurafurðum á heimsvísu aukist um 20 milljónir tonna á ári. Það er sem nemur allri framleiðslu Nýja-Sjálands. Því hefur verið spáð að verð mjólkurafurða muni verða afar sveiflukent næstu árin, en að jafnaði er líklegra að það fari stígandi. Reyndar hefur verðið stígið mjög ört síðustu misseri og sem dæmi má nefna að á einungis hálfum mánuði hækkaði það um 25% á uppboðum Global Dairy Trade og hefur ekki verið hærra síðan í desember 2007. Þessar miklu hækkanir nú eru raktar til mikilla þurrka á Nýja-Sjálandi um þessar mundir, en veðurfarssveflur hafa mjög mikil áhrif á það framleiðsluskipulag sem þar er stundað. Því hlýtur að vekja athygli að þar í landi sjást nú merki þess bændur séu farnir að byggja yfir kýrnar og auka áherslu á hækkaða nyt með innifóðrun. Verði það reyndin getur þetta fremur en hitt dregið úr aðstöðumun okkar ef vel er á málum haldið. Tækifærin eru til staðar, spurningin er bara sú hvort við höfum vilja og getur til að nýta þau.

 

Í kjölfar ályktana síðasta aðalfundar og búnaðarþings 2012 var leitað hófana um framlengingu gildandi búvörusamninga. Tilboð barst síðan frá Atvinnuvegaráðuneyti þar að lútandi síðla sumars og var unnið út frá þeim forsendum að samningum á vettvangi Framkvæmdanefndar búvörusamninga. Þann 28. september sl. skrifuðu síðan fulltrúar bænda og ríkisvaldsins undir samkomulag um breytingu á gildandi samningum um starfsskilyrði mjólkur-, sauðfjár- og garðyrkjuframleiðenda. Með samkomulaginu eru samningarnir allir framlengdir um tvö ár og „vatnshallinn“ svokallaði afnumin, en á móti kemur nokkur skerðing á upprunalegum framlögum þeirra auk þess sem nokkur breyting er gerð á framkvæmd verðbóta. Þetta þýðir hvað mjólkursamninginn áhrærir að gildistími hans framlengist til ársloka 2016. Eins er með þessu samkomulagi gert ráð fyrir að sjálfvirkum tilfærslum milli einstakra liða samningsins verði hætt og hlutfallsleg skipting milli þeirra verði sú sama og birtist í fjárlögum fyrir árið 2012.

 

Þá fylgir breyttum samningi svofeld bókun: „Samningsaðilar eru sammála um, á grundvelli greinar 8.2 samningsins, að hefja vinnu við stefnumótun fyrir greinina með því markmiði að efla samkeppnishæfni og treysta afkomu hennar til lengri tíma. Til undirbúnings þessu verði skipaður starfshópur samningsaðila til að meta þá reynslu sem komin er af framkvæmd samningsins, þ.á.m. kostnaðarþróun í greininni, áhrif kvótakerfisins og stöðu verðlagningar og tolla. Starfshópurinn skal skila niðurstöðu sinni í síðasta lagi 31. desember 2013“. Þann 1. september s.l. voru liðin 7 ár frá gildistöku samningsins og nú hefur hann verið framlengdur í annað sinn. Í árslok 2016 verða því liðin ellefu ár og fjórum mánuðum betur frá því að samningurinn tók gildi. Þá verður einnig hálfnað það tímabil sem stefnumörkun Landssambands kúabænda, sem samþykkt var á síðasta ári, nær yfir. Í henni er m.a. stefnt að “breytingu á kvótakerfinu þannig að ríkisstuðningur nýtist betur til lækkunar framleiðslukostnaðar.” Einnig er í stefnumörkuninni lögð áhersla á við gerð nýs mjólkursamnings, “að stefnt verði að breyttu fyrirkomulagi ríkisstuðnings í þá átt að draga úr tilhneigingu hans til að eigngerast. Nauðsynlegt er þó að áður en til þessara breytinga komi verði unnin úttekt á áhrifum þeirra með tilliti til:

·                     Áhrifa á samkeppnisstöðu greinarinnar.

·                     Lengri tíma áhrifa á vöruverð til neytenda.

·                     Afkomu búgreinarinnar.

·                     Nýliðunar í búgreininni.

·                     Skilvirkni kerfisins”.

 

Landssamband kúabænda hefur ætíð lagt á það áherslu, að breytingar af þessu tagi eigi sér nokkurn aðdraganda og framleiðendur fái nauðsynlegt svigrúm til aðlögunar að nýjum veruleika. Með því að hefjast nú þegar handa við framangreinda úttekt, gefst greininni talsvert andrúm til að takast á við þær breytingar sem kunna að verða. Það er hinsvegar afar mikilvægt að sú greiningarvinna sem kveðið er á um komist í gang nú í vor og staðið verði við þann tímaramma sem kveðið er á um. Í aðdraganda núverandi mjólkursamnings var unnin ítarleg skýrsla á vegum Rannsóknaráðs Íslands sem bar nafnið „Staða og þróunarhorfur í nautgriparækt á Íslandi“, en hún kom út á haustdögum 2001 og er þar að finna einhverja vönduðustu greiningu á stöðu greinarinnar sem gerð hefur verið. Í henni eru margar tillögur og ábendingar að leiðum til að styrkja rekstrargrundvöll Íslenska nautgriparæktar. Eftir sumum þeirra var farið, ekki öðrum og nauðsynleg er að leggja mat á árangur þeirra ákvarðana. Að mínu mati er þó einn sterkasti kostur RANNÍS skýrslunar, eins og hún hefur verið kölluð, sá að í henni er horft með gagnrýnum og uppbyggjandi augum á stöðu greinarinnar, en litið framhjá allri rómantík. Þau vinnubröggð þurfum við að hafa að leiðarljósi í þeirri vinnu sem framundan er.

 

Mjög dýrmætt var að ná framlengingu búvörusamninganna og með henni er bændum tryggður bærilegur fyrirsjáanleiki í rekstrarumhverfi sínu til ársloka 2016. Eins og lög gera ráð fyrir fór umrædd breyting í almenna kosningu meðal kúabænda og voru niðurstöður hennar þær að af 1.229 aðilum á kjörskrá greiddu 443 atkvæði eða 36%. Atkvæði féllu þannig að Já sögðu 386, eða 87,1%, en Nei sögðu 49, eða 11,1%. Auðir seðlar voru 8, eða 1,8%. Vissulega veldur þessi dræma þátttak í atkvæðagreiðsluni vonbrigðum, hverju sem hún sætir. Hinsvegar er það athyglisvert að í viðhorfskönnun LK þar sem þátttakan var um 60% og kynnt verður hér á eftir, kemur fram afgerandi stuðningur við það fyrirkomulag sem í gildi er.

 

Lágmarksverð mjólkur til bænda hækkaði þann 1. júlí s.l. um 2,80 kr/ltr, eða 3,6% og er þar með komið í 80,43 kr/ltr. Á sama tíma hækkaði vinnslu- og dreifingarkostnaður mjólkurafurða um tæp 4,4%. Síðustu ár hefur verið viðvarandi spenna í kostnaðarhækkunum þó styrking krónunnar s.l. sumar hafi tímabundið unnið þar á móti. Nú í haust og vetur hefur þó sótt að nýju í sama far með hækkun aðfanga, einkum á kjarnfóðri, en sem dæmi má nefna að kjarnfóðurliður verðlagsgrundvallar hækkaði um 14% frá 1. júlí til 1. desember s.l. Heldur virðist þó vera að hægjast um á ný í þeim efnum. Verðskrár áburðarsala benda síðan til um 5% meðal hækkunar, en áhrif þeirra munu ekki koma fram í mælingum fyrr en nær dregur vori. Sem betur fer bendir margt til batnandi afkomu og að margt hafi áunnist í þeim efnum. Enn glímir þó talsverður hópur kúabænda við þungan rekstur og erfiða skuldastöðu. Auk þess að ekki er ljóst með hvaða hætti verður tekið á svo kölluðum biðlánum hjá þeim bændum sem farið hafa í gegnum sértæka skuldaaðlögun og fjarri er að allri óvissu sé eytt um lögmæti einstakra lánagerninga. Það fer kannski að verða margtuggin rulla að benda á mikilvægi þess að ljúka úrvinnslu mála sem tengjast bankahruninu haustið 2008 svo fólk búi ekki lengur við óvissu um stöðu sína og framtíð. Mikilvægi þess verður þó síst minna eftir því sem tímin líður og rétt að minna á að á hausti komanda verður liðin hálfur áratugur frá þeim atburðum sem leiddu af sér þennan vanda.  

 

Sala nautakjöts hefur verið viðvarandi góð síðasta ár, en síðustu 12 mánuði er sala á íslensku nautakjöti ríflega 4.100 tonn sem er um 6,6% aukning frá fyrra ári og hefur hún aldrei verið meiri. Eftirspurn virðist þó vera nokkuð meiri, enda ræðst salan nú um stundir fyrst og fremst af framboði sláturgripa. Þegar horft er til aukningar á innlendri framleiðslu og innflutningur reiknaður yfir í heila skrokka, sést að markaður fyrir nautakjöt hefur stækkað nálægt um 10% á síðustu tveimur árum. Þessari stækkun á markaði fylgja margvísleg tækifæri sem mikilvægt er að nýta til aukinnar verðmætasköpunar í íslenskum sveitum, en samtals nemur heildarverðmæti nautakjötsframleiðslunnar um 2,2 milljörðum króna á síðasta ári. Innflutningur á nautakjöti árið 2012 var 197 tonn, sem er tæplega helmings minnkun frá fyrra ári. Hakkefni og lundir eru sem fyrr yfirgnæfandi meirihluti þess nautakjöts sem flutt er inn og nemur verðmæti þessa innfluttnings um 300 milljónir króna. Gleðilegt hefði verið ef þeir fjármunir hefðu nýst til að auka umfang íslensks landbúnaðar. Hvað sem því líður hefur skilaverð fyrir nautgripakjöt farið hækkandi og sem dæmi má nefna að frá því í janúar 2011 og til ársloka 2012 hækkaði verð á UN1A um 15%, auk þess sem nokkur hreyfing hefur verið á verðum frá áramótum. Eftir sem áður er ástæða til að hafa talsverðar áhyggjur af stöðu greinarinnar næstu misserin. Má í því sambandi nefna að ásetningur nautkálfa til kjötframleiðslu hefur þróast með afar neikvæðum hætti allt síðasta ár og er þegar orðin talsvert mikið minni en undanfarin ár. Vafalaust skiptir slakur heyfengur um norðan- og vestanvert landið undangengin tvö ár miklu máli í þessu efni, auk þess að burðum virðist hafa seinkað og jafnvel fækkað frá fyrri árum. Ljóst er að þessi samdráttur í ásetningi mun að óbreyttu valda talsverðri niðursveiflu í framleiðslunni á síðustu mánuðum nýhafins árs og árið 2014. Þeim samdrætti verður varla mætt öðru vísi en með innflutningi og mjög er miður að íslenskir kúabændur geti ekki nýtt sér þau markaðstækifæri.

 

Á grundvelli stefnumörkunar LK og ályktunar síðasta aðalfundar, hefur verið unnið að aðgerðum til að styrkja stöðu nautakjötsframleiðslunar. Í kjölfar aðalfundar var ákveðið að koma upp faghópi nautakjötsframleiðenda til að styðja við starf stjórnar í málaflokknum og hefur reynslan af því verið góð. Þá tók Fagráð nautgriparæktar málefni greinarinnar til sérstakrar umfjölunar á ársfundi sínum s.l. vor. Nokkuð hefur verið beðið eftir  niðurstöðu starfshóps Atvinnuvegaráðuneytisins um endurnýjun erfðaefnis holdanautastofnanna. Hópurinn skilaði síðan niðurstöðu sinni í lok janúar án þess að þar kæmu fram beinar tillögur um með hvaða hætti væri unt að standa fyrir innflutningi nýs erfðaefnis í holdanautastofnanna. Í kjölfarið skipaði svo Atvinnuvegaráðherra nýjan starfshóp sem ætlað er að móta aðgerðir til eflingar nautakjötsframleiðslu á Íslandi. Í honum sitja Magnús B Jónsson, formaður, Guðný H Björnsdóttir frá BÍ, Sigurður Jóhannesson frá Landssatökum sláturleyfishafa og Sigurður Loftsson frá LK. Samkvæmt skipunarbréfi hópsins má skipta verkefni hans í fjögur megin viðfangsefni.

 

1. Móta tillögur um hvernig standa skuli að innflutningi á erfðaefni til eflingar holdanautastofnsins í landinu.

2. Gera tillögur að kynbótaskipulagi svo innflutningur erfðaefnis komi að tilætluðum notum.

3. Koma fram með tillögur að breyttu og bættu kjötmati, þar sem hugsað til EUROP-matskerfisins.

4. Móta tillögur um hvernig megi stuðla að aukinni fagmennsku í nautakjötsframleiðslunni.

 

Hópurinn hefur fundað tvisvar og er nú þegar komið nokkur hreyfing á hluta þessara verkefna, en samkvæmt skipunarbréfi skal hann ljúka störfum fyrir 1. júní n.k.

 

Kynbótastarfið er einn helsti drifkraftur aukinnar hagvæmni mjólkurframleiðslunnar. Það er því ekki óeðlilegt að um það séu skiptar skoðanir innan greinarinnar hvernig best sé að þeim málum staðið og vissulega takmarkar stærð stofnsins umtalsvert þá möguleika sem við höfum til að hraða erfðaframförum samanborið við nágrannalöndin. Hugmyndir um að ýta undir framfarir í kúastofninum með innfluttningi erfðaefnis hafa verið til umræðu á vettvangi LK nú um langt árabil og tekist á við sjónarmið þeirra sem vilja halda stofninum hreinum í því tilliti. Niðurstaða viðhorfskönnunar LK á afstöðu bænda til þessa máls er hinsvegar nokkuð afgerandi og athyglisverð, en tæp 60% hópsins vill ekki að notuð sé innblöndun í íslenska kúastofninn við framræktun hans. Það er því ljóst að ekki getur orðið að neinni innblöndun á vettvangi hins sameiginlega kynbótastarfs meðan svo er og þá niðurstöðu ber að virða.

 

Það er hinsvegar fleira athyglisvert í þessari könnun. Núverandi kynbótaskipulagi var komið á laggirnar árið 1974 og frá þeim tíma hefur býsna mikill árangur náðst í kynbótum á íslenska kúastofninum. Í yfirliti greinar eftir þá Ágúst Sigurðsson og Jón Viðar Jónmundsson um árangur ræktunarstarfsins á umliðnum áratugum og sem vitnaða var til á þessum vettvangi fyrir ári síðan kom fram að: „Erfðaframfarir hin síðari ár hafa verið 11% af erfðabreytileika, en gætu verið 16% við bestu aðstæður, þar sem allir bændur tækju fullan þátt, ættfærslur fullkomnar og eingöngu notuð sæðinganaut. Það megi því segja að kerfið keyri á 11/16 afköstum, eða um 70%. Sú staða hlýtur að vera með öllu óviðunandi, greinin ætti ekki að sætta sig við minna en 90-95% afköst því þarna er um stórar upphæðir að tefla í aukinni hagkvæmni rekstrarins.“ Í þessu ljósi er athyglisverð sú niðurstaða viðhorfskönnunarinnar að tæp 60% svarenda notar heimanaut á kvígurnar og þegar spurt er um ástæður þessa, svarar sama hlutfall því til að þetta sé gert til þæginda. Einungis tæp 8% tilgreina háan sæðingakostnað og 9% að sæðinganautin uppfylli ekki kröfur þeirra. Í könnuninni kemur líka fram að heimanautanotkunin er mest meðal minnsu búanna og er þá sama hvort um er að ræða kvígur eða kýr. Á þessum sömu búum er samt andstaðan við innblöndun í stofnin líka áberandi mest. Kynbótastarfið eins og það er uppbyggt hér á landi er félagslegt verkefni og árangurinn í réttu samræmi við virkni þátttakenda. Samstaða er forsenda árangurs, þeir sem hana vilja ættu því að ganga á undan með góðu fordæmi.

 

Hér fyrir fundinum liggur skýrsla starfshóps um kosti þess og galla að sameina sæðingastarfsemina á landinu öllu, sem unnin var í kjölfar ályktana Búnaðarþings og aðalfundar LK á síðasta ári. All miklar umræður urðu um málið á nýliðnu búnaðarþingi og í ályktun þess um málið segir að „Vilji Búnaðarþings stendur til þess að áfram verði tryggt jafnt aðgengi að erfðaefni og að þeir fjármunir sem lagðir eru til starfseminnar verði sem best nýttir.“„Búnaðarþing telur að í skýrslunni komi fram tillögur sem nýta megi með niðurstöðum úr viðhorfskönnun LK sem kynntar verða á aðalfundi samtakanna og afstöðu kúabænda sem væntanlega mun koma fram á aðalfundi LK nú í mars.“ Niðurstaða könnunarinnar í þessu efni er athyglisverð, eins og margt annað þar, en tæp 60% svarenda vilja halda þessari starfsemi óbreyttri. Það er ljóst að í þessu máli eru aðstæður bænda breytilegar og skoðanir skiptar. Eins er forsvar þessara mála á margra höndum. Því skiptir miklu að gengið verði fram af yfirvegun en ekki offorsi í þessu máli og reynt verði að leita sameiginlegra lausna.

 

Umgengni og aðbúnaður nautgripa varð talsvert til umræðu nú undir lok árs í kjölfar þess að MAST afturkallaði mjólkursöluleyfi tveggja kúabúa. Ástæðulaust er að elta ólar við það afhverju þessar aðstæður koma upp hjá viðkomandi bændum, þar að baki geta legið ýmsar ástæður. Íslenskir neytendur hafa reynst okkur kúabændum tryggir kaupendur og vörurnar notið trausts. Það er grundvallar atriði að þetta traust haldist, en reyndin er sú að það er mest undir okkur sjálfum komið hvort svo verður. Síðustu misseri hafa aðbúnaðarmál verið mikið til umæðu innan félagasamtaka bænda og m.a. tókum við þátt í endurskoðun á starfsháttum við gæðaeftirlit Mjólkursamsölunnar og SAM. Eins og áður hefur komið fram er í tengslum við gerð nýrrar aðbúnaðarreglugerðar unnið að gerð leiðbeiningar um góða búskaparhætti í samstarfi LK og SAM. Þessi vinna hefur tekið nokkrum breytingum í ferlinu og er nú unnið að þýðingu og staðfærslu Arla gården sem grunn þessa verkefnis. Snorri Sigurðsson hefur haft með höndum verkstjórn í þessu efni og mun hann kynna stöðu þess hér á eftir, auk þess sem málið mun fá efnislega umfjöllun hér á fundinum. Mikilvægt er að vanda hér vel til verks og því rétt að gefa verkefninu ár til viðbótar og stefna að afgreiðslu þess á næsta aðalfundi.

 

Í samfélagi nútímans skiptir miklu fyrir starfsgreinar að hafa á sér góða ímynd og viðhalda henni. Það er þess vegna óþolandi þegar upp koma mál sem skerða traust almennings á gæðum framleiðslu íslenskra bænda. Sú fráleita endaleysa hins svokallaða fyrirtækis „Gæðakokkar“ að bjóða til sölu einhverskonar nautabökur sem ekki er hægt að finna kjöttutlu í er með algerum eindæmum, sæmilega hugsandi fólk ætti að vita að hráefni í slíka manneldisrétti á ekki að kaupa í fóðurvöruverslunum. Við viljum að neytendur treysti vörum okkar og með það að leiðarljósi eigum við að ganga fram í aðbúnaði og umhirðu gripa. En við eigum líka að gera kröfu til þess að þeir sem vinna úr og höndla með afurðir okkar séu traustsins verðir og séu ekki síður undir góðu eftirliti en við.

 

Nú um síðustu áramót var allt ráðgjafastarf sem áður heyrði undir BÍ og búnaðarsamböndin sameinuð undir einu sameiginlegu fyrirtæki, Ráðgjafamiðstöð landbúnaðarins ehf. Unnið hefur verið af krafti í að koma starfsemi hins nýja fyrirtækis í fullan gang og stjórnendum og öðrum starfsmönnum óskað velfarnaðar í starfi í sínu vandasama starfi. Miklu skiptir að vel takist til þegar á fyrstu dögum hins nýja fyrirtækis og að frá upphafi verði eftirspurn og raunverulegur greiðsluvilji notenda látin móta þjónustuna.

 

Á Búnaðarþingi nú fyrr í þessum mánuði urðu miklar breytingar í stjórn Bændasamtaka íslands. Þá hætti Haraldur Benediktsson sem formaður samtakanna eftir níu ár í því starfi. Eru honum hér færðar bestu þakkir frá Landssambandi kúabænda fyrir gott samstarf, en um leið óskað velfarnaðar á nýjum vettvangi. Í stað Haraldar var kjörin Sigurgeir Sindri Sigurgeirsson sem formaður BÍ, er honum árnað heilla í starfi og væntum við góðs af samstarfi við hann. Þá urðu einnig mikil umskipti í stjórn Bændasamtakanna, en fjórir stjórnarmenn hættu og þar af báðir varaformenn samtakanna. Nú er stjórnin að meirihluta skipuð konum og óhætt er að segja að með því sé talað á skemmtilegan hátt inn í tíðarandann. Hinsvegar bíður mikið starf hinnar nýju stjórnar Bændasamtakanna og nauðsynlegt er að treysta innviði félagskerfisins, einfalda það og gera skilvirkara. Mikilvægt er að Bændasamtökin taki sér stöðu sem regnhlífarsamtök búgreinanna og geri sér far um að tryggja félagslega samstöðu þeirra. Horfa þarf til þess að nýta sem best mannafla og forðast tvíverknað þannig að hámarks árangur náist fyrir lágmarks kostnað.

 

Góðir félagar, hér hefur verið drepið á það helsta sem borið hefur að garði í starfi Landssambands kúabænda á liðnu ári, en margt liggur þó enn óbætt hjá garði. Að venju hefur formaður átt samskipti við fjölda aðila bæði innan landbúnaðarins sem utan, hafa þau öll verið ánægjuleg. Fyrir það skal þakkað. Meðstjórnarmönnum mínum þeim  Guðnýju Helgu, Trausta, Jóhanni og Jóhanni Gísla þakka ég gott samstarf sem og varamönnunum Jóhönnu og Guðrúnu. Þá fá starfsmennirnir Snorri Sigurðsson og síðast en þó ekki síst framkvæmdastjórinn Baldur Helgi sérstakar þakkir fyrir afskaplega gott samstarf.

Megi starf aðalfundar verða greininni til heilla.

 

Takk fyrir.

 

/SS.