Setningarræða formanns á aðalfundi LK
23.03.2012
Brekkur eru oftast lægri
upp að fara en til að sjá.
Einstig reynast einatt hægri
en þau sýnast neðan frá.
Himinglæfur, brattar, breiðar
bátnum skila, ef lags er gætt.
Flestar elfur reynast reiðar,
Rétt og djarft ef brot er þrætt.
Tíðum eyðir allri samræmd
afls og þols: að hika sér.
Kvíðinn heftir hálfa framkvæmd.
Hálfur sigur þorið er.
Klíf í brattann! Beit í vindinn,
brotin þræð og hika ei!
Hik er aðal erfðasyndin.
Út í stríðið, sveinn og mey!
Tíðarfar liðins árs var lengst af hagstætt um meginhluta landsins. Síðari hluti vors og fyrri hluti sumars voru þó óhagstæð um stóran hluta landsins en þess gætti þó einna síst um landið suðvestanvert. Sérlega kalt var norðaustanlands síðari hluta maímánaðar og langt fram eftir júní og á Akureyri var til að mynda júní sá kaldasti síðan 1952, á Suðurlandi var hiti hinsvegar við meðallag. Vegna vorkuldans var heyskapur með seinna móti á ferðinni um mikinn hluta landsins og uppskera í minna lagi. Ofan í það bættust miklir þurrkar á Norðurlandi. Þá náðist víða ekki eðlilegur þroski á korni, einkum á norður og austurlandi. Um sunnanvert landið var uppskera hinsvegar víðast í ágætu meðallagi og því má segja að gæðum hafi talsvert verið misskipt hvað þetta varðar á liðnu ári. Veturinn hefur síðan verið rysjóttur. Miklir kuldar framan af, en stöðugir umhleypingar síðan um jól. Og þó ekki hafi verið harðindi eða snjóþyngsli eins og þekktust hér áður fyrr, hefur þetta tíðarfar seinkað verkum, truflað samgöngur og verið svolítið í líkingu við efnahagsástand þjóðarinnar, gert fólki lífið leitt. Nú fyrr í vikunni var hinsvegar jafndægur á vori og sólin stefnir glaðbeitt til sinna hæstu tíða, við finnum fyrir vaxandi spennu í vorlöppunum og kláða í fingrum að hefja vinnu í gróandanum. Er ekki líka eins og sortinn sé að minnka í rekstrarumhverfinu? Horfir ekki einnig þar til betri tíðar? Má ekki greina andblæ nýrra tækifæra? Er ekki eins og andann létti um spor að klífa að nýju í brattann?
Náttúra landsins minnti á sig enn og aftur þegar gos hófst í Grímsvötnum þann 21. maí í fyrra. Þó þetta gos stæði ekki lengi var það afar kröftugt og varð mikið öskufall einkum í V-Skaftafellssýslu og olli bændum þar talsverðum búsifjum. Margir lögðu hönd á plóg til aðstoðar íbúum svæðisins með einum eða öðrum hætti og skal þeim öllum færðar þakkir fyrir. Hinsvegar var aðdáunarvert að fylgjast með æðruleysi íbúanna í þeim erfiðleikum sem gosinu fylgdu.
Framleiðsla mjólkur var heldur minni á fyrri hluta ársins en undanfarin ár, en jókst talsvert á seinnihluta þess og varð í lokin um 1% meiri en árið á undan eða 124,4 milljónir lítra. Sala mjólkurafurða á próteingrunni var í árslok 113,6 milljónir lítra. Það er nokkur samdráttur frá fyrra ári og verður það að teljast talsvert áhyggjuefni. Greiðslumark ársins 2012 hefur verið ákveðið 114,5 milljónir lítra og því ljóst er að taka verður á í sölunni ef það á að nást. Tólf mánaða yfirlit SAM sýnir 113,9 milljón lítra sölu á próteingrunni nú í lok febrúar sem gefur væntingar um jákvæða þróun. Þá er ekki síður jákvætt að umtalsverð og viðvarandi aukning hefur verið í sölu á fitugrunni en þar var sala síðasta árs 111,4 milljónir lítra og salan nú í lok febrúar var sem nam 112,3 milljónum lítra, sem teljast verður afar gott ef fram heldur.
Útflutningur mjólkurafurða jókst nokkuð á síðasta ári, alls var flutt út sem nam 11,9 milljónum lítra á fitugrunni, en 10,7 milljónum lítra á próteingrunni. Aðstæður til útflutnings eru talsvert hagstæðari nú en oftast áður, enda voru verð á mörkuðum erlendis í sögulegu hámarki á síðasta ári, einkum á smjöri og gengisskráning hagstæð til útflutnings. Enn sem komið er fer langstærstur hluti útflutningsins í formi dufts og smjörs í stórnotendaumbúðum og er selt á heimsmarkaðsverði. Talsvert hefur þó verið unnið í markaðssetningu á skyri og jókst sala þess um 150% á síðasta ári og er nú komið í um 380 tonn. Munar þar mest um sterka innkomu á Finnlandsmarkað, meðan salan til Bandaríkjanna hefur að mestu staðið í stað síðustu ár. Afar nauðsynlegt er að leita leiða til að auka afrakstur útflutningsins og auka hann sem kostur er. Byggja þarf upp sérstöðu með áherslu á uppruna vörunnar og leita samstarfs við aðila sem tengjast mörkuðunum. Allar spár benda til mikillar aukningar í eftirspurn með mjólkurafurðir á heimsmarkaði næstu árin, einkum með vaxandi hagsæld í löndum Asíu og Afríku. Sé það vilji okkar að íslensk mjólkurframleiðsla vaxi á komandi árum er nauðsynlegt að nýta það færi sem þetta gefur og leita markvisst eftir möguleikum í markaðssetningu. Hinsvegar má okkur vera ljóst að við munum ekki sitja ein að þessum vexti. Til að mynda er ljóst að afurðastöðvar í Evrópu horfa mjög til þess þegar kvóti innan Evrópusambandsins verður aflagður eftir 3 ár og reikna með að framleiðslan muni þá aukast mjög. Þá framleiðslu er stefnt á að selja í Asíu og Afríku. Þá má okkur líka vera ljóst að auknum útflutningi fylgja auknar sveiflur í verði og slíkt kallar á mjög agaða bústjórn. En í þessu gildir, ef árangurs er vænst, að þræða brotin og hika ei.
Mjólkurverð til framleiðenda hækkaði í tvígang á síðasta ári, 1. febrúar og 1.júlí, samtals um 6,5 krónur líterinn og þar með er lágmarksverð mjólkur til bænda komið í 77,63 krónur líterinn. Jafnframt hækkaði vinnslu og dreifingakostnaður mjólkurvara þann 1. júlí um 4,13%, en samanlagt hækkaði heildsöluverð mjólkurvara um 6,6% að meðaltali á síðasta ári. Þá má meta hækkun á stuðningsgreiðslum af mjólkursamningi frá síðustu áramótum til 2,54 króna á líterinn. Verðlagsgrundvöllur kúabús mælir nú kostnað við mjólkurframleiðslu rúmar 172 krónur á líter, séu allar tekjur búsins færðar til núvirðis, sést að það fær inn tæpa 141 krónu á líter móti þessum kostnaði. Síðasti aðalfundur Landssambands kúabænda ályktaði um að forsendur verðlagsgrundvallar skyldu teknar til endurskoðunar og hefur því verið fylgt eftir innan Verðlagsnefndar. Þegar hefur farið fram endurskoðun á vaxtaútreikningi grundvallarins og var nýtt vaxta viðmið tekið inn í útreikninginn við framreikning nú 1. mars s.l.
Þá hefur nefndin fengið Daða Má Kristófersson til að skoða forsendur grundvallarins í samanburði við rauntölur úr rekstri kúabúa og mun hann fara yfir þær niðurstöður í erindi hér á fundinum.Það er hinsvegar ljóst að þær upplýsingar sem birst hafa í meðaltölum úr rekstrarreikningum frá Hagþjónustu landbúnaðarins eru fjarri því að gefa fullnægjandi mynd af kostnaðarþróun í greininni. Það er líka ljóst að söfnun og úrvinnsla hagtalna í íslenskum landbúnaði er og hefur verið ófullnægjandi, sem gerir allan samanburð og greiningu erfiða. Þá er nokkur óvissa um stöðu þessara mála eftir að Hagþjónustan var lögð niður og verkefnið fært til Landbúnaðarháskóla Íslands, þar sem óvíst er að skólinn geti uppfyllt þau skilyrði sem gera þarf til úrvinnslu, greiningar og framsetningar slíkra upplýsinga í dag. Úr þessum málum verður að greiða hið allra fyrsta og eðlilegast að þetta verkefni verði fært til Hagstofu Íslands þar sem önnur úrvinnsla íslenskra hagtalna fer fram.
Það er bæði sjálfsögð og eðlileg krafa bænda að ef verðlagsgrundvöllur kúabús þykir sýna raunsanna mynd af afkomu greinarinnar, að ákvarðanir um mjólkurverð til bænda taki í sem ríkustum mæli mið af því. Hitt er svo annað, að hversu réttir sem þeir útreikningar eru sem Verðlagsnefnd hefur til hliðsjónar, verður alltaf að horfa til þeirra áhrifa sem ákvörðunin hefur. Jafnframt ákvörðun um lágmarks verð til bænda skal nefndin ákvarða hámarks heildsöluverð mikilvægustu vöruflokka mjólkurafurða. Þessir vöruflokkar taka til sín ríflega 60% þeirrar mjólkur sem innvigtuð er og eru því um leið ráðandi í verðlagningu annara afurða. Þannig þarf líka að taka tillit til aðstæðna á markaði og gæta að verðþoli einstakra vöruflokka.
Í stefnumörkun Landssambands kúabænda er sérstaklega rætt um mikilvægi góðrar bústjórnar sem lið í að draga úr kostnaði við framleiðsluna. Í framhaldi af því var hrundið af stað í samstarfi við Bændasamtök Íslands verkefni sem nefnt hefur verið „Betri bústjórn“. Þessu verkefni er nú nánast lokið, en það gengur út á að tengja saman og kalla fram lykilupplýsingar með myndrænum hætti úr gagnagrunni BÍ úr dkBúbót og Huppu. Með þessum hætti eiga þeir bændur sem leggja sín gögn þarna inn að geta kallað fram upplýsingar um sitt bú og hvernig þeir standa í samanburði við aðra, til að styðjast við í sínum búrekstri. Faglegur stjórnandi þessa verks er Daði Már Kristófersson og mun hann fara betur yfir stöðu verkefnisins í erindi sínu hér á eftir.
Framleiðsla nautgripakjöts var á síðasta ári um 3.800 tonn að verðmæti um 1,9 milljarðar króna og er það svipuð framleiðsla og árið á undan. Mikil eftirspurn var eftir nautakjöti á síðasta ári sem innlend framleiðsla náði enganveginn að anna. Mikill þrýstingur var því á Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytið að lækka tolla á nautakjöti. Í framhaldi af því var í júní byrjun 2011 svokallaður verðtollur felldur niður til bráðabirgða, fyrst til þriggja mánaða í senn, en síðan til hálfs árs eða til júní loka n.k. Innflutningur óx því mjög á síðasta ári og var orðinn í árslok um 430 tonn að verðmæti 460 milljónir króna. Ljóst er að hér er um klára söluaukningu á nautakjöti að ræða sem verður að teljast mjög athyglisvert samanborið við söluþróun í öðru kjöti. Óneitanlega er því dapurt að íslenskir nautgripabændur skuli ekki ná að nýta þetta færi. Athygli vekur þó að framboð sláturgripa hefur aukist mjög mikið á fyrstu mánuðum ársins og er eftir síðasta mánuð komin yfir 4.000 tonn á ársgrundvelli. Það veldur hinsvegar áhyggjum að meðal fallþungi fer lækkandi, sem bendir til að verið sé að slátra gripunum of ungum. Þegar við bætist að ekki er sjáanleg aukning í ásetningi, hlýtur að setja að mönnum nokkurn ugg um framhaldið.
Framleiðsla nautakjöts á Íslandi á að geta verið jafn sjálfsagður hlutur og framleiðsla mjólkur og kindakjöts. Það er klárt atvinnuspursmál að nýta þau tækifæri sem þessi grein býr yfir. Fyrir fundinum liggur ályktun um þetta efni, þar sem lagt er til að nú þegar verði ráðist í átak til að styrkja innviði og stöðu íslenskrar nautakjötsframleiðslu. Í því sambandi þarf að horfa til allra þeirra atriða sem að gagni geta komið til að auka hagkvæmni greinarinnar, stefnt er að því að innlend framleiðsla uppfylli allri þörf hérlendis fyrir nautakjöt og skapi um leið möguleika til arðbærs útflutnings. Í þessu sambandi verður að leggja sérstaka áherslu á eftirfarandi atriði.
- Að endurnýjun erfðaefnis holdanautastofnanna nái fram að ganga sem allra fyrst. Starfandi hefur verið hópur á vegum Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðuneytisins við að skoða hvaða leiðir eru færar í þessu efni og mikilvægt að hann skili sínu áliti hið fyrsta.
- Að faglegur styrkur greinarinnar verði aukinn með fræðslu og ráðgjöf til nautakjötsframleiðenda, en hún hefur verið mjög af skornum skammti hér á landi. Eins þarf að skjóta öflugari stoðum undir þekkingu á hjarðeldi holdanautgripa hér á landi.
- Finna þarf hagkvæmar leiðir til að búa nautgripunum góð skjól og húsvist, þannig að sem bestum árangri megi ná án þess að gengið sé á gæði lands og þroska gripanna.
- Þá þarf að vinna markvisst að því að auka svigrúm til framleiðslu holdablendinga samhliða mjólkurframleiðslunni.
Síðast en ekki síst þarf að koma á EUROP-kjötmati fyrir nautgripi hið allra fyrsta. Stjórn Landssambands kúabænda vann talsvert í því máli á síðasta ári. Meðal annars var leitað samstarfs við Landssamtök sláturleyfishafa um framgang málsins, þar á bæ fengum við hinsvegar þau svör að þeir hafi svo mikið vantraust á yfirkjötmatinu að þeir treysti sér ekki til að mæla með EUROP kjötmati í nautgripum. Hann er misjafn metnaður manna á bæjunum. Ætli væri ekki einfaldast að hafa bara eins og tvo flokka við þetta mat; ætt og óætt.
Kjötmatið er grunn verkfæri í öllu því sem lítur að umsýslu og verðlagningu á kjöti. Það sendir skilaboð til framleiðenda um gæði framleiðslunnar og gefur kaupendum færi á að velja það hráefni sem þeim best hentar. Við höfum fundið fyrir miklum áhuga hjá kjötiðnaðinum að taka þátt í að auka fagmennsku í þessari grein. Eins hefur Landssambandið átt afar gott samstarf við marga þá sem fara fyrir í sláturiðnaðinum, þar fer margt kappsamt og metnaðarfullt fólk sem við trúum að muni taka þátt í þessu með okkur. Það er ekki víst að brekkan sé eins há og hún virðist neðan frá.
Í samræmi við þá breytingu sem gerð var á mjólkursamningi vorið 2009 áttu verðtryggingarákvæði hans að taka gildi frá og með verðlagsárinu 2012, þó var sá fyrirvari á að framlög hækkuðu að hámarki um 5% frá fyrra ári og er það síðasta árið sem sá fyrirvari gildir. Þar sem verðbólga varð meiri en væntingar stóðu til á liðnu ári, reyndi á umrætt þak vegna framlaga yfirstandandi árs. Framlög vegna mjólkursamnings í fjárlögum ársins 2012 eru því 5% hærri en 2011 eða um 6,1 milljarður.
Ráðstöfun fjármuna af mjólkursamningi er að mestu óbreytt frá fyrra ári, að undanskildum þeim lið sem kallaður hefur verið „Óframleiðslutengdar og/eða minna markaðstruflandi greiðslur“ en í fjárlögum 2012 er gert ráð fyrir að 178 milljónir renni til hans. Skömmu fyrir áramót var gert samkomulag milli Landssambands kúabænda og Bændasamtaka Íslands annarsvegar og Sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra hinsvegar, um að ráðstafa hluta af þessum lið í mjólkursamningi til eflingar nýliðunar í greininni. Á grundvelli samkomulagsins var síðan skipaður sameiginlegur starfshópur umræddra aðila til að gera tillögur til ráðherra um útfærslu á þessum stuðningi. Hópurinn fundaði stíft seinnihluta janúarmánaðar og gekk frá sameiginlegum tillögum sínum þann 8. febrúar s.l. Ljóst var að nokkuð svigrúm er innan þessa flokks mjólkusamningsins til að taka upp stuðning af þessu tagi, án þess að skerða þá liði sem þar eru fyrir. Enn hefur þó ekki verið gengið frá málinu í reglugerð og ekki er ljóst hvar það er statt innan ráðuneytisins.
Nú lifa tæp þrjú ár af gildandi mjólkursamningi, en hann rennur út í lok árs 2014. Hefði ekki verið gengið til breytinga á samningnum vorið 2009 væri hann hinsvegar að renna sitt skeið nú á komandi haustdögum og ekki gott að segja hvað þá tæki við. Ein helsta röksemd þess að núverandi búvörusamningar voru framlengdir, var mikil óvissa um stöðu þjóðmála og starfsumhverfis bænda í kjölfar bankahrunsins haustið 2008. Að miklu leiti má segja að það ástand vari enn og því ástæða til að knýja á við stjórnvöld að framlengja enn um sinn þá samninga sem í gildi eru. Það er enda mikilvægt að tryggja stöðugleika í rekstrarumhverfi bænda og þar með áframhaldandi framþróun greinarinnar.
Þriðji markaðsdagur með greiðslumark mjólkur var haldinn 1. nóvember s.l. og má segja að þar hafi viðskipti í fyrsta sinn verið með eðlilegu móti eftir að nýr kvótamarkaður var settur á laggirnar. Alls voru boðnir um 900 þúsund lítrar til sölu, kauptilboð voru í rúmlega 1 milljón lítra, en viðskipti urðu með 658 þúsund lítra. Ekki verður betur séð en að bændur séu að ná betri tökum á þessu viðskiptaumhverfi og aðilar nái að lesa betur skilaboð hvers annars. Jafnvægisverðið hækkaði frá fyrri markaði 1.apríl um 5 kr og fór í 290 kr/ltr sem vissulega er miður. Ekki er þó ótrúlegt að þar ráði nokkru uppsöfnuð spenna í þessum viðskiptum, en sáralítil viðskipti hafa verið með greiðslumark síðasta eitt og hálft ár eða frá því að kvótamarkaðurinn var tekinn upp. Þetta undirstrikar enn frekar nauðsyn þess að markaðsdögum verði fjölgað frá því sem nú er. Það mál hefur talsvert verið rætt við bæði fyrrverandi og núverandi ráðherra málaflokksins og má segja að fremur en hitt hafi okkur aukist bjartsýni með að markaðsdögum verði fjölgað.
Það eru margir áhrifaþættir í rekstri kúabúa sem byggjast bæði á hagfræðilegum og líffræðilegum ferlum. Eitt það helsta sem gerir starf kúabóndans jafn spennandi og raun ber vitni, er að framleiðslutækin eru lifandi. Kýrin og kúabóndinn eru tengd órofa böndum og eru háð tilvist hvors annars. Efnahagslegur styrkur og afkoma kúabóndans skiptir því öllu máli ef tryggja á að kúm sé haldið sem búfé við sómasamlegar aðstæður. Framræktun kúastofnsins gegnir í þessu tilfelli lykil hlutverki og sagt hefur verið að kynbætur séu í raun erfðafræðilegar tækniframfarir. Það hlýtur því að skjóta nokkuð skökku við að um 30% skýrslufærðra kúa skuli vera undan heimanautum, og að sú staða hafi verið óbreytt frá því árið 2006. Þá eru 74 kúabú sem ekki taka þátt í skýrsluhaldi og þar gæti verið um að ræða nálægt 2200 árskýr.
Í yfirliti greinar eftir þá Ágúst Sigurðsson og Jón Viðar Jónmundsson um árangur ræktunarstarfsins á umliðnum áratugum sem þeir félagar skrifuðu í tímaritið Icelandic agricultural science og ber heitið Mögulegar erfðaframfarir hjá íslenskum mjólkurkúm. segir eftirfarandi:
„Markmið rannsóknarinnar var að meta erfðaframfarir í íslenska kúastofninum síðustu áratugi eða frá þeim tíma er núverandi kynbótaskipulagi var komið á laggirnar árið 1974. Einnig að leggja mat á mögulegar hámarkserfðaframfarir í stofninum. Til grundvallar lágu niðurstöður útreikninga á kynbótamati allra gripa og eiginleika sumarið 2010, samtals 356 þúsund einstaklingar. Niðurstöður sýndu að hraði árlegra erfðaframfara í mjólkureiginleikum hefur farið vaxandi síðustu áratugi og er nú 11% af erfðafráviki (σG) á ári fyrir magn próteins. Þetta er nokkru minna en þær framfarir sem vænta mætti ef möguleikar núverandi kynbótaskipulags væru nýttir til hins ýtrasta en þá væru árlegar erfðaframfarir um 16% af σG. Líklegustu skýringarnar fyrir minni framförum eru tiltölulega mikil notkun á heimanautum sem greinilega eru af minni gæðum en sæðinganautin og að nú er tekið tillit til margra annarra þátta en mjólkurframleiðslu í ræktunarstarfinu. Enda kemur í ljós að erfðaframfarir eru greinilegar í öllum eiginleikum„
Það er með öðrum orðum niðurstaða þeirra félaga að erfðaframfarir hin síðari ár hafa verið 11% af erfðabreytileika, en gætu verið 16% við bestu aðstæður, þar sem allir bændur tækju fullan þátt, ættfærslur fullkomnar og eingöngu notuð sæðinganaut. Það má því segja að kerfið keyri á 11/16 afköstum, eða 68,75%. Sú staða hlýtur að vera með öllu óviðunandi, greinin ætti ekki að sætta sig við minna en 90-95% afköst því þarna er um stórar upphæðir að tefla í aukinni hagkvæmni rekstrarins.
En auðvitað kunna fleiri leiðir að vera færar í þessu efni. Í niðurstöðum starfshóps sem falið var að skoða hagkvæmni blendingsræktar í íslenska kúastofninum og liggur hér fyrir fundinum, segir eftirfarandi:
I. Skipuleg blendingsrækt skilar almennt um eða yfir 10% umfram ávinning samanborið við hreinrækt. Það er ekki ástæða til annars en að álíta að þessar almennu niðurstöður muni gilda fyrir íslenskar aðstæður.
II. Ávinningur af blendingsrækt er mismikill eftir eiginleikum. Blendingsþróttur er mestur varðandi eiginleika með lágt arfgengi, s.s. frjósemi, kálfadauða, betra júgurheilbrigði og aukna endingu kúnna. Þá er vert að nefna að þó að kjötframleiðslueiginleikar séu ekki hluti af ræktunarmarkmiði íslenska kúakynsins má ætla að fram kæmi blendingsþróttur fyrir þá eiginleika. Sama má segja varðandi vinnuþörf við mjaltir.
III. Til viðbótar almennum blendingsþrótti mun sá munur sem er í afkastagetu íslenska kynsins og þeirra kynja sem til greina koma í blendingsrækt auka ávinninginn, a.m.k. tímabundið.
IV. Það hefur komið fram að ávinningur af blendingsrækt umfram hreinrækt sé að öðru jöfnu ≥ 10% og þar með eykst hagkvæmni rekstursins sem því nemur að gefnum óbreyttum ytri skilyrðum.
V. Skipuleg blendingsrækt í umfangi sem skiptir máli skerðir óhjákvæmilega möguleika til áframhaldandi ræktunarstarfs í íslenska kúakyninu og ræktunarstarfið myndi smám saman miðast við að viðhalda erfðabreytileikanum fremur en að ná erfðaframförum. Á móti má benda á, að skipulögð blendingsrækt gerir kröfu um að verulegum hluta af íslenska kúastofninum verði haldið í hreinrækt.
VI. Íslenska ríkið er á grundvelli alþjóðlegra sáttmála (Convention on Biological Diversity –CBD) skuldbundið að viðhalda kyninu sem hluta af líffræðilegum fjölbreytileika. Það er því ábyrgt fyrir því að kúakynið verði varðveitt með einhverjum hætti. Skipulögð blendingsrækt gerir kröfu um að umtalsverðum hluta af íslenska kúastofninum verði haldið í hreinrækt og skilyrði sáttmálans eru með því uppfyllt.
VII. Skipulögð blendingsrækt verður ekki tekin upp nema með skipulegum og endurteknum innflutningi á sæði og/eða fósturvísum. Miðað við þær reglur sem um það gilda í dag er slík aðgerð kostnaðarsöm svo ætla má að endurskoðun á ríkjandi innflutningsstefnu sé ein forsenda þess að slíkar aðgerðir verði framkvæmanlegar.
Vafalaust mun hverjum sýnast sitt um þetta efni, en það vekur hinsvegar athygli að sú aðferðafræði sem lögð er upp með í skipulegri blendingsrækt krefst þess að öflugu skipulagi og aga sé haldið á kynbótastarfinu, þannig verður ekki undan því vikist. En hvað afstöðu okkar sem hóps varðar, hlýtur að vekja athygli að það er sem heilu fjallgarðarnir skilji að sjónarmið þeirra sem vilja tengjast erlendu kynbótastarfi og hinna sem telja högum okkar best borgið með framræktun landnámskynsins. Umræðurnar eru síðan málefnalegar í samræmi við það og svo virðist sem þeim aðilum sé bráð hætta búin sem voga sér einstigin þar á milli.
Samt mun okkur flestum ljós hvar skóinn kreppir, þar er afurðasemin ekki stærsta málið hún er í raun ágæt. Það eru aðrir þættir sem seinlegra er að laga í svo litlum stofni, þættir sem snúa meðal annars að vinnuafköstum og heilbrigði. Er möguleiki að við getum stutt við framfarir á þessum sviðum í stofninum með innblöndun, án þess að fórna öðrum þáttum sem okkur finnast mikilsverðir? Eru kannski einstigi sjónarmiða okkar ekki eins þröng og þau sýnast neðan frá?
Nokkuð hefur verið að skýrast í málefnum skuldugra bænda, einkum hvað varðar endurreikning erlendra lána þar sem mál virðast vera að þróast með jákvæðum hætti. Þó hefur enn verið sköpuð óvissa um stöðu þessara lána með hæstaréttardómi 600/2011 sem kveðinn var upp þann 15. febrúar síðastliðinn, sem mikilvægt er að verði eytt sem fyrst. Einnig er ástæða til að benda á að umtalsvert gengistap varð við hrunið á lánum tengdum við erlenda mynt og því eðlileg krafa að þetta gengistap sé fært til núvirðis í þeim tilvikum sem þessi lán hafa verið dæmd ólögmæt. Þá stendur enn eftir talsverður hópur bænda sem þarf á sértækri skuldameðferð að halda, í því efni eru hin svokölluðu biðlán helsti óvissuþátturinn. Um þessi lán verða að gildi sambærilegar reglur milli bankastofnana, eins þarf að fara yfir það milli stjórnvalda, lánastofnana og félagssamtaka bænda með hvaða hætti verði staðið að uppgjöri þeirra. Afar mikilvægt er að úrvinnslu allra þeirra mála sem tengjast efnahagshruninu haustið 2008 ljúki sem fyrst svo unnt sé að horfa til framtíðar og endurreisn geti hafist af krafti. Jafnframt hlýtur að vera sanngirnismál að leiðréttingar verði gerðar á verðtryggðum lánum í ljósi þeirrar miklu verðbólgu sem af hruninu hlaust. Í þessu sambandi er ástæða að fagna þeim endurgreiðslum sem Landsbankinn og Arionbanki reiddu af hendi til skilvísra viðskiptavina. Þær eru mikilvægt skref til að leiðrétta þann forsendubrest fjármálaskuldbindinga sem efnahagshrunið leiddi af sér. Vonandi verður haldið áfram á þeirri braut.
Íslensk nautgriparækt er fremur fjármagnsfrek grein þegar horft er til þeirrar veltu sem af rekstrinum kemur. því er henni lífsnauðsyn að hafa þokkalega greiðan aðgang að lánsfjármagni til langs tíma á sanngjörnum kjörum. Án þess er afar hæpið að greinin nái að endurnýja sig með eðlilegum hætti. Lánasjóður landbúnaðarins er fyrir löngu farinn sinn veg og ekki er ljóst með hvaða hætti viðskiptabankarnir munu nálgast greinina hvað þetta varðar til framtíðar litið þegar ryk hrunsins er sest. En kannski eigum við möguleika í þessu efni sem ekki stendur okkur svo fjarri. Á ársfundi Lífeyrissjóðs bænda nú á dögunum kom fram að eftir hrun standi íslenskum lífeyrissjóðum fáir kostir til boða og hafi það leitt til fábreytts nýfjárfestingamengis. Einkum skuldabréfa með ábyrgð íslenska ríkisins og innlána í innlendum fjármálastofnunum. Þá kom fram að hrein ávöxtun Lífeyrissjóðs bænda var um 2,9% á árinu 2011 og 3,5% á síðustu tveimur árum. Nú eru lífeyrissjóðir í eðli sínu langtímafjárfestar og þurfa í því skini að lágmarka áhættu fjárfestinga sinna. Nú eru jarðir bænda einhver verðmætustu veð sem unnt er að fá til framtíðar litið. Sú spurning er því áleitin hvort Lífeyrissjóður bænda geti ekki í auknum mæli komið inn sem langtíma lánveitandi jarðalána á fyrsta veðrétti með þolinmóðri endurgreiðslukröfu. Er þetta ekki leið sem vert er að skoða?
Í drögum að nýrri aðbúnaðarreglugerð er í nokkrum atriðum vísað til reglna um góða framleiðsluhætti sem greininni er ætlað að setja sér. Þó umrædd reglugerð liggi enn sem komið ófrágengin, ákvað stjórn Landssambands kúabænda að hafa forgöngu um gerð slíkra leiðbeininga um góða framleiðsluhætti í nautgriparækt. Leitað var samstarfs við Samtök afurðastöðva í mjólkuriðnaði og Fagráð í nautgriparækt við þetta verkefni og í framhaldi af því voru þeir Snorri Sigurðsson og Unnsteinn Snorri Snorrason fengnir til að vinna verkið. Verða grunn drög að þessu verki kynnt hér á fundinum. Það er afar mikilvægt að greinin sjálf hafi frumkvæði að þeirri umgjörð sem um hana gildir í þessu efni, það skiptir miklu fyrir þá ímynd hreinleika og heilbrigðis sem við viljum skapa okkur.
En auðvitað dugar ekki að við setjum okkur markmið í þessu efni ef þeir sem að fylgjast eiga með því að aðbúnaður og framleiðsla okkar sé í samræmi við settar reglur standa sig ekki. Það er líka óásættanlegt að ekki sé tryggð ásættanleg heilbrigðisþjónusta við búfé okkar, hvort sem er í dreifðari eða þéttari byggðum. Í þessu efni er ábyrgð Matvælastofnunar stór og mikilvægt að traust ríki meðal almennings og bænda á því mikilvæga starfi sem henni er ætlað. Því miður hafa komið brestir í þetta traust síðustu misseri vegna ýmissa uppákoma sem tengjast eftirlits- og þjónustuhlutverki stofnunarinnar. því er óhjákvæmilegt að gerð verði óháð úttekt á starfsemi stofnunarinnar og þess þannig freistað að byggja þetta traust upp að nýju.
Góðir félagar, þetta fer að verða þokkalega löng ræða og mál að linni. Því fer þó fjarri að drepið hafi verið á öllu því sem komið hefur verið að í starfi Landssambands kúabænda á liðnu ári. Í því efni liggur margt óbætt hjá garði. Að venju hefur formaður átt samskipti við fjölda aðila bæði innan landbúnaðarins sem utan, hafa þau öll verið góð og lærdómsrík. Fyrir það skal þakkað. Meðstjórnarmönnum mínum þeim Guðnýju Helgu, Sveinbirni, Jóhanni og Jóhanni Gísla þakka ég gott samstarf sem og varamönnunum Jóhönnu og Guðrúnu. Þá fá starfsmennirnir Snorri Sigurðsson og síðast en þó ekki síst framkvæmdastjórinn Baldur Helgi sérstakar þakkir fyrir afskaplega gott samstarf.
Hér við upphaf fundar flutti ég ljóðið Klíf í brattann eftir Hannes Hafstein, fyrsta ráðherra Íslands. Loka orð mín hér koma líka úr smiðju Hannesar, en þau eru erindi úr ljóðabréfi til Matthíasar Jochumssonar.
Við þurfum trú á mátt og megin,
Á manndóm, framtíð, starfsins guð,
Þurfum að hleypa hratt á veginn,
Hætta við óláns víl og suð,
Þurfum að minnast margra nauða,
Svo móður svelli drótt af því,
Þurfum að gleyma gömlum dauða,
Og glæsta framtíð seilast í.
Aðalfundur Landssambands kúabænda 2012 er settur/SS.